trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 22/09/2017

Sjáið þið ekki veisluna?

Ég hef afskaplega gaman af þykjustuleikjum, og þess vegna hafði ég afskaplega gaman af stóra málinu um uppreist æru.

 

Það er skemmtilegt að þykjast, og þess vegna ákvað ég, eftir að málið sprakk í fjölmiðlum og ríkisstjórnin með, að þykjast. Ég ákvað að trúa því, í alvarlegustu þykjustunni, að dómsmálaráðherra og forsætisráðherra hefðu virkilega viljað nálgast þessu máli af samviskusemi og fagmennsku, og að leyndin hefði ekkert haft með það að gera að faðir Bjarna var einn þeirra sem skrifaði upp á syndaaflausnina margfræga.

 

Ég sannfærði sjálfan mig um að þarna lægi ekki einu sinni hornsíli undir steini.

Ég þóttist trúa þessu af öllum kröftum og lagði alla einlægni mína að veði. Og þá fyrst fór málið að verða athyglisvert. Alls kyns skemmtilegar spurningar vöknuðu í kjölfarið, svolítið eins og þrautaganga einhvers konar.

Fysta þrautin var þessi: fyrst dómsmálaráðherra var svo umhugað að fara að lögum og reglum, hvernig fór hún að því að brjóta upplýsingalög eins og úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að? Ég viðurkenni fúslega að þessi fyrsta þraut reyndist mér erfiðust af öllum, og að ég var um það bil að kasta handklæðið þegar ég datt óvart á útvarpsviðtali við Brynjar Níelsson lögfræðing með meiru, og viti menn, Brynjar reyndist hafa lausnina á þessum heilabrjóti: hann bjó til, af mikilli lögfræðilegri snilld, hugtakið „varfærnisregla“.

Nú, þótt þetta hugtak sé vissulega hvorki að finna í upplýsingalögum né í lögum um persónuvernd er varla hægt að efast um gagnsemi þess. Ég verð að útskýra það fyrir ykkur sem litla þekkingu hafa á lögfræðinni. „Varfærnisreglan“ þýðir í raun að í þeim tilfellum þegar ráðherra vill vera óvenju samviskusamur og löghlýðinn, þá leyfist honum að brjóta sum lög, bara til að vera viss um að brjóta ekki einhver önnur lög. Þetta kann að hljóma eins og sérkennileg regla, en séu menn lausir við alla þá tortryggni sem því miður einkennir okkar samfélag nú til dags, sést vel að þarna er um byltingarkennda stjórnsýslulögfræði að ræða.

Þetta er svolítið eins og sagan um breska túristann sem leigði bílaleigubíl á Íslandi. Ha? Þekkið þið ekki þá sögu? Svei, eru menn svona illa lesnir á þessari vefsíðu?

Jæja, svona fór sú saga: Bretinn góði leigði sér sem sagt bíl á Íslandi til að keyra hringinn, nema hvað hann keyrði allan tímann utanvegar. Þegar hann var kominn til Egilsstaða var hann stoppaður af lögreglunni, sem spurði hann hvers vegna hann væri að keyra utanvegar og hvort hann vissi ekki að slíkt væri stranglega bannað.

„Það veit ég víst,“ svaraði Bretinn, „en það er nefnilega þannig að í Bretlandi keyrum við vinstra megin við veginn. Og þar sem ég vildi ekki ruglast á akgreinunum ákvað ég bara að keyra utanvegar til að vera viss um að keyra ekki vitlausu megin. Þetta heitir varfærnisreglan og er allt eftir bókinni, og samkvæmt henni megið þið ekki sekta mig.“

Lögreglumaðurinn gapti í smástund en varð auðvitað að fallast við þessi rök. Reyndar hefur þessi saga kannski meira með skáldskap að gera en ég vildi viðurkenna, en það breytir því ekki, að hún gæti alveg hafa gerst, að minnsta kosti í þykjustunni.

En hvað um það. Fyrstu þrautina tókst mér sem sagt að leysa, með góðfúslegri aðstoð Brynjars hins löglærða. Þá var komið að þeirri næstu: hvern var verið að vernda með því að fara leynt með umsóknir um uppreist æru? Ráðherrann og flokksfélagar hennar sögðust aldrei hafa ætlað að slá skjaldborg um brotamenn, heldur hafi tilgangurinn með leyndinni verið sá að hlífa fórnarlömbum. Ég gerði mitt besta til að þykkjast trúa þessu, en þarna var mörg hindrunin: í gögnunum sjálfum voru engar upplýsingar um fórnarlömbin, og það voru meðal annars fórnarlömbin sjálf sem kölluðu eftir aðgang að gögnunum.

Enn einu sinni virtist ég hafa rekist á vegg. Ég ákvað enn um sinn að láta reyna á jókerinn, hann Brynjar. Hann benti nefnilega á þá augljósu staðreynd að það eitt að við værum að „hræra í þessi mál“ gæti reynst óþægilegt fyrir sum fórnarlömbin, og þess vegna væri leyndin í þágu þeirra. Vissulega var ekki hægt að mótmæla þessu. Alveg eins og rannsóknarskýrsla Alþingis hlýtur að hafa verið óþægileg fyrir þá sem misstu húsin sín í hruninu. Sársaukafullar minningar. Augljóslega hefði rannsóknarskýrslan átt að fara leynt, af tillitsemi við fórnarlömb hrunsins. Svo ég tali nú ekki um varfærnisregluna.

Fyrir utan það, hvaða gagn hefur almenningur af þessu gögnum? Spyrja margir. Nákvæmlega ekkert. Sumir gætu mótmælt þessu og sagt að það sé forræðishyggja af hálfu stjórnvalda að ætla sér að ákveða hvaða upplýsingar séu almenningi gagnlegar og hvað ekki, en auðvitað snýst málið ekki um það.

Það snýst um að margir gætu haft gagn af því að umsóknir um uppreist æru fari leynt. Mæður gætu t.d. skrifað meðmælabréf handa sonum sínum. Menn út í bæ gætu tekið upp á því að gerast „valinnkunnir“ gegn greiðslu. Dómstóll götunnar gæti þannig orðið hinn nýji atvinnuvegur sem Íslendingar hafa verið að bíða eftir. Stjórnmálaflokkur sem aðhyllist atvinnufrelsi getur varla staðið í vegi fyrir slík atvinnutækifæri. Nú eða það, að ráðherra gæti tekið upp á því að veita einstaklingum uppreist æru gegn því að kjósa ákveðinn flokk. Brotamenn gætu þannig lagt hönd á plóg og hjálpað til við að styrkja flokka sem standa fyrir stöðugleika og ábyrgð, og brjóta á bak aftur smáflokkakerfið sem hefur verið svo mikil plága á samfélagið okkar.

Ég meina, sjáið þið ekki veisluna?

Svo mörg og svo heillavænleg tækifæri sem menn kasta á glæ í nafni gegnsæis!

Fyrir mitt leyti er það ákveðið: í næstu kosningum kýs ég xD.

Í þykjustunni.

 

Flokkun : Pistlar
1,381