trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 09/03/2020

Jesús kallar konu tík

Guðspjall: Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“ Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. (Matt 15.21-28)

hundstíkNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ef ég myndi gera lista yfir það sem ég vildi óska að Jesús hefði ekki sagt eða gert þá yrði hann ekki langur. En guðspjall dagsins yrði á honum.

Líkingamálið sem Jesús talar þarna særir mig. Til hans kemur kona og biður um hjálp fyrir dóttur sína og hann lætur fyrst sem hann heyri ekki í henni og þegar það virkar ekki þá kallar hann hana hund. Tík.

Orðið sem hann notar, kunarion, er að vísu fremur milt. Það merkir í raun smáhundur eða kjölturakki. Semsagt heimilishundur, sem fyrir hundavinum jafngildir því á vissan hátt að vera hluti af fjölskyldunni.

En það er ekki hægt að loka augunum fyrir afmennskuninni sem í líkingunni felst.

Þarna dregur Jesús upp myndina sem klassískur gyðingdómur hafði af hlutverki gyðinga í samfélagi þjóðanna. Við erum öll á einu heimili þar sem Guð er faðirinn. Og gyðingarnir eru, sem Guðs útvalda þjóð, börn hans. Hinir sem eru á heimilinu eru skör neðar. Gyðingar einir eru börnin, aðrir eru í besta falli gæludýr.

Jesús sér að sér

Af þessu er auðvitað ljóst að Jesús lítur í upphafi svo á að hann sé aðeins kallaður til að siðbæta gyðingdóminn. Erindi hans er, að hans mati, ekki við aðrar þjóðir. Hann er sendur af Guði til að tala við börn hans, beina þeim á réttar brautir.

En það sem gerir þessa sögu einmitt svo sérstaka er að Jesús sér að sér. Það gerist ekki oft í frásögnum guðspjallanna að Jesú sé beinlínis talið hughvarf. Það er yfirleitt hann sem opnar augu annarra. Þarna er hlutverkunum snúið við. Í þetta sinn opnast augu hans.

Í raun má segja að saga dagsins segi frá tímamótum í köllun Jesú og sjálfsskilningi hans. Og þau má þakka útlenskri konu. Konu sem Jesús taldi upphaflega að kæmi sér ekki við.

En hún lætur ekki bjóða sér það. Hún þagnar ekki og hættir ekki að hrópa.

Og Jesús sér hana.

Hann sér að hún er líka manneskja. Að dóttir hennar er líka manneskja með sama rétt og aðrar manneskjur til lífs og heilsu.

Jesús sér að neyð þessarar konu og angist er jafnraunveruleg og jafnsár og annarra. Hún elskar dóttur sína ekkert minna en gyðingakonur elska sínar dætur, henni líður jafnilla út af þjáningum hennar og gyðingakonum líður út af þjáningum sinna barna. Eins og öllum líður yfir þjáningum sinna barna. Eins og Guði líður yfir þjáningum sinna barna.

Hún kemur honum víst við.

Og slagorðið „Ísrael fyrst“ rýkur út um gluggann.

Þessi saga er í Matteusarguðspjalli sem endar á því að Jesús segir við lærisveina sína: „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matt 28.19)

Andstyggileg viðhorf

Við getum hneykslast á þeim viðhorfum sem í þessu andsvari Jesú birtast og hin andstyggilega líking útlensku konunnar við hundstík felur í sér.

En við þurfum ekkert að fara tvöþúsund ár aftur í tímann til að sjá þessi viðhorf.

Og við skulum hneykslast á þeim þar sem þau birtast meðal okkar hér og nú. Það er mun líklegra til að skila einhverju heldur en að hneykslast á veröld sem var og er til allrar hamingju liðin undir lok.

Þessi viðhorf skjóta með reglulegu millibili upp kollinum enn þann dag í dag þegar aðstoð við útlendinga ber á góma. Hvað eigum við að vera að hjálpa annarra þjóða fólki þegar hér á meðal okkar er fólk með íslenskan ríkisborgararétt sem þarf á hjálp að halda? Hvað erum við að skjóta skjólshúsi yfir útlensk börn á flótta þegar í samfélagi okkar eru íslensk börn sem búa við fátækt? Eigum við ekki að hjálpa þeim fyrst?

Auðvitað eigum við að hjálpa þeim. Það er smánarblettur á samfélagi okkar hve margir eru algerlega skildir útundan þegar kemur að skiptingu auðævanna sem ofgnótt er af hér á landi. Við búum í landi þar sem allir eiga að geta haft það gott.

En öryrkinn sem er að reyna að draga fram lífið á bótunum sínum og þarf aðstoð frá kirkjunni til að leysa út lyfin sín þegar óvæntur tannlæknakostnaður setur allan hans knappa fjárhag úr skorðum … hvað gagnast það honum að senda börn á flótta úr landi? Það eru ekki þau sem eru að hafa af honum lyfin.

Það er nefnilega alls ekki þannig að hinn fullkomni mannúðarskortur sem við sýnum þeim verst stöddu hér á landi skili sér í aukinni mannúð til þeirra sem næstverst hafa það.

Stríð um ölmusu

Hvaðan kemur þessi árátta að raða þeim sem eru hjálpar þurfi upp í forgangslista á hinum og þessum forsendum, til að mynda ríkisfangi, og svo megi bara hjálpa þeim sem sigra keppnina um að vera bágstaddastur?

Er mannúð okkar svona takmörkuð auðlind? Er ekki nóg af henni til skiptanna? Er hjálpin sem við erum aflögufær um af svo skornum skammti að hún geti ekki staðið öllum til boða sem á henni þurfa að halda heldur aðeins þeim sem mest þurfa á henni að halda og hinir verði bara að sætta sig við að vera ekki númer eitt í röðinni?

Ef svo er … af hverju eru þá þeir sem mest þurfa á henni að halda ekki að fá hana?

Það er nefnilega mjög góð aðferð til að komast upp með að gera ekki neitt að eyða öllum tímanum í að rífast um það hvað eigi að gera.

Í rauninni er staðreyndin sú að það er hjálpin sem við tímum að veita sem er svona takmörkuð. Það er hjálpin sem við erum reiðubúin til að sjá af sem er svo nánasarleg að við verðum að takmarka hana við einhvern einn hóp sem flestir geta verið þokkalega sammála um að búi við óásættanleg kjör svo við getum gleymt öllum hinum – gert þá ósýnilega.

En þeir eru þarna líka. Þeir eru líka manneskjur. Neyð þeirra er jafnraunveruleg og hinna. Og okkur ber skylda til að sjá þá líka.

Jöfn neyð

Það gerir ekki lítið úr neyð Íslendinga að hjálpa útlendingum. Það er nefnilega – eins og dæmin sanna – alls ekki ávísun á betri kjör fyrir tekjulágar íslenskar barnafjölskyldur, aldraða eða öryrkja að vísa útlenskum barnafjölskyldum á vergang í löndum þar sem neyðarástand ríkir vegna flóttamannavanda.

Það eru ekki þeir sem verst hafa það sem bera ábyrgð á stöðu þeirra sem hafa það næstverst. Það gera þeir sem best hafa það og eru um þessar mundir að setja hvert Íslandsmetið af öðru í launahækkunum til sjálfra sín.

Við lifum í samfélagi sem vantar mannskap, þar sem skortur er á vinnuafli til að sinna verst launuðu og vanþakklátustu störfunum sem Íslendingar fást varla í. En fólkinu sem hingað kemur á eigin vegum og vill setjast hér að og verða nýtir borgarar, því vísum við umsvifalaust úr landi, jafnvel til ríkja sem Rauði krossinn varar við að fólk sé sent til vegna ástandsins þar.

Þessa vinnu viljum við frekar kaupa af útlendingum í gegn um starfsmannaleigur sem borga þeim smánarkaup og við þurfum enga ábyrgð að bera á þeim, ekki að gefa þeim kennitölu eða nein þeirra réttinda sem því fylgja að vera borgari hér á landi. Við viljum ekki að börnin þeirra njóti sama ungbarnaeftirlits og börnin okkar, við viljum ekki að þau gangi í skólana okkar, við viljum ekki þurfa að borga sjúkrakostnaðinn af þeim þegar þeir veikjast, alls ekki að greiða þeim örorkubætur ef þeir slasast alvarlega við vinnu sína hér á landi og síst af öllu að borga þeim eftirlaun eftir vel unnin störf í þágu samfélags okkar í áraraðir.

Allir græða

Það grátlegasta við þetta er að það kostar okkur ekki neitt að taka við þessu fólki. Hver króna sem varið er í að auðvelda fólki að koma sér hér fyrir og verða virkir þátttakendur í samfélagi okkar er fjárfesting í nýtum borgurum sem skilar sér margfalt til baka, ekki bara í mannauðnum sem í fólkinu býr, ekki bara í því mannúðlegra samfélagi sem hér væri ef við hefðum siðferði til að bregðast við af kærleika, heldur beinlínis í krónum og aurum í formi tekju- og neysluskatta sem hinir nýju borgarar greiða til samneyslunnar í landinu sem virkir þátttakendur í þjóðfélaginu.

Auðvitað getum við ekki bjargað öllum. En það eru ekki heldur allir að biðja okkur að bjarga sér. Ef rúta full af börnum færi sjóinn og ljóst væri að við gætum ekki bjargað þeim öllum, myndum við þá sitja aðgerðarlaus og bjarga engu þeirra? Eða myndum við bjarga eins mörgum og við getum? Það er nákvæmlega staðan sem við erum í núna.

Enginn getur bjargað öllum. En allir geta bjargað einhverjum. Og ef allir myndu bjarga eins mörgum og þeir geta yrði öllum bjargað.

Við getum hneykslast á Jesú að líkja Kanverjum við gæludýr á heimilinu þar sem gyðingarnir eru börnin. En það væri pínulítið réttlætanlegra að gera það ef við byggjum ekki sjálf í þjóðfélagi sem kemur fram við fólk eins og skepnur ef það er ekki með rétt ríkisfang.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 8. 3. 2020

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,425