trusted online casino malaysia
Fjölmiðlarýni 27/04/2019

Breytingar eru vondar

Breytingar eru allajafna vondar, eins og við vitum.

Það voru þess vegna sérstök ótíðindi þegar Óðinn Jónsson hvarf af Morgunvakt Rásar eitt fyrir nokkrum vikum.

Herðubreið hefur áður haft orð á morgunútvarpi Óðins og Björns Þórs Sigbjörnssonar.

En svo hætti Óðinn í óþökk allra nema hans sjálfs, og í hans stað kom Jóhann Hlíðar Harðarson. Þá fór uggur um Herðubreið og mældist líklega undir henni skjálfti hátt í þrjú stig á Richter.

Ástæðan er þessi: Jóhann Hlíðar er fyrst og fremst fréttamaður, og hefur verið í fremstu röð þeirra áratugum saman. Hann hefur ótal sinnum fundið lykt af mikilvægum fréttum þar sem aðrir urðu ekki einu sinni varir við líf. Dæmin eru legíó.

Og ótti Herðubreiðar var samkvæmt því: Á nú að tromma upp að morgni dags á Rás eitt með greddufréttamann sem ræður ekki við sig?

Á nú – í stað þess að Óðinn og Björn Þór hvísli að okkur norðangarranum eins og hann sé hlýr vinur í heimsókn – á nú að láta Jóhann Hlíðar garga á okkur í hástöfum að allir vegir séu að lokast, hollast sé að halda sig heima svo að enginn drepist, og helzt undir sæng án þess að hitta nokkra lifandi sálu?

Uppleggið hljómaði sannarlega þannig.

En svo þarf reynslan að dæma.

Hingað til hefur Jóhann Hlíðar ekki spillt tiltakanlega morgunútvarpi Rásar eitt. Hefur oft verið morgunrámur enda sannarlega ókristilegur tími til útsendingar. En hann hefur stillt sig og það lofar góðu.

Og Björn Þór er hið jarðtengda og rólynda akkeri sem ekkert fær hrært.

Í gær var svolítið próf fyrir Jóhann Hlíðar: Hann tók bráðskemmtilegt símaviðtal við Gauta Jóhannesson, sveitarstjóra á Djúpavogi. Þar tókst honum að fara í gegnum Hammond-hátíð, skipulagsmál og sameiningu sveitarfélaga, hina dásamlegu Cittaslow-hugmyndafræði, fiskeldi og margt fleira án þess að standa upp og hrópa:

Ég er með skúbb!

Það var hugsanlega erfitt fyrir hann, en þeim mun ánægjulegra fyrir okkur hin.

Enn ánægjulegra var fyrir hlustendur þegar Björn Þór lauk máli sínu með mjög kunnuglegu „Ha?“ í spurnartóni. Fyrir utan djassinn var Ha-ið? eitt af aðalsmerkjum Óðins Jónssonar.

Ef Birni Þór tekst að kenna Jóhanni Hlíðari að spyrja „Ha?“ á réttum stöðum er hugsanlegt að Rás eitt lifi þessar breytingar af.

En breytingar eru samt allajafna vondar, eins og við vitum.

Karl Th. Birgisson

Flokkun : Pistlar
1,357