Karl Th. Birgisson 09/06/2019

Möskvar minninganna (XIX): Bruce og Colin

Nú eru víst 35 ár síðan Colin Heffron breytti lífi mínu til frambúðar. Fyrir fallegan misskilning.

Hann kynnti mig sumsé fyrir Bruce Springsteen.

Við erum að tala um haustið 1984. Um sumarið hafði komið út platan Born in the USA með Springsteen, sem fór algerlega framhjá mér.

Um sumarið hafði ég verið á Íslandi, keypt Ný spor með Bubba og haldið ástarsambandi við hann, og reynt um leið að skilja hvert The Stranglers væru eiginlega að fara. Það var erfitt.

Ég vildi tónlist sem segði mér eitthvað.

Ég var í háskóla vestur í Indiana, en var nú kominn um haustið til Washington í eins misseris nám til þess að skilja betur amerískt stjórnkerfi og pólitík. Hef víst skrifað um það stuttlega áður.

Nema hvað hér voru engin eins manns herbergi eins og í skólanum mínum. Líklega þétting byggðar í borginni.

Mér var úthlutað herbergi með honum Colin. Colin Heffron.

Það var nú falleg sending. Þetta var afskaplega elskulegur og ljúfur drengur, myndarlegur með fallegt bros, sem fór með mig út um allt að hitta vini sína.

Það var samt ekkert gaman. Sennilega var ég of íslenzkt heftur af fátæku fólki úr Breiðdalnum til þess að geta tekið þátt í gleðinni. Við áttum enda fátt sammerkt.

Colin var fullur sjálfstrausts í krafti öryggis og aðbúnaðar í æsku. Ég hafði hvort tveggju með öðrum hætti, en var samt ennþá að leita að því.

Colin var nefnilega hreinræktaður yfirstéttargutti og hélt félagsskap til samræmis við það. Þetta var ríkt fólk og sparaði hvergi við sig.

Pabbi hans var einn af aðstoðarforstjórum AT&T, sem var eins konar Póstur og sími Bandaríkjanna. Meira um það á eftir.

En við Colin vorum semsagt orðnir herbergisfélagar. Og báðir nutum við þess að hlusta á tónlist.

„Listen to this, Karl,“ sagði hann um leið og hann smellti kassettu í tækið. Þetta var Born in the USA. Svo ýtti hann á play.

Ég hafði inngróna fordóma gagnvart amerísku iðnaðarrokki, þessu andlausa gítarryþma- og trommusólóagargi um ástina sem aldrei varð. Í mínum huga var Bruce í þeim flokki, þótt ég hefði aldrei hlustað almennilega á hann. Hann hafði fallið á milli skips og bryggju í flóði unglingsáranna, sérstaklega af því að okkar megin Atlantshafsins hafði pönkið og nýbylgjan ráðið ríkjum.

En nú bar nýrra við. Ég varð nauðugur að hlusta. Þarna í herberginu okkar Colins.

Hlustaði svo meira. Og bað um endurspilun. Og svo aftur.

Kristingjar myndu eflaust tala um einhvers konar vakningu eða uppljómun. Því að annað eins hafði ég ekki heyrt frá því Arlo Guthrie og Dylan sungu um sitt brotna bandaríska samfélag.

Þetta var svo sannarlega ekkert amerískt iðnaðarrokk. Þetta var músík um og fyrir vinnandi fólk, ekki um poppstjörnur, diskóið og kókaínið.

Ég get staðfest að Colin er ágætlega læs, en um hversu vel hann hustar veit ég ekki og efast enn:

Born down in a dead man’s town
The first kick I took was when I hit the ground
End up like a dog that’s been beat too much
‘Til you spend half your life just to cover it up […]

Got in a little hometown jam
So they put a rifle in my hand
Sent me off to a foreign land
To go and kill the yellow man

Og svo framvegis.

Ekki beinlínis þjóðrembutexti.

En Colin hlustaði bara á viðlagið, dansaði og söng:

Born in the USA, með miklu stolti.

Hann hafði svosem alveg ástæðu til þess að syngja og dansa. Ronald Reagan var við það að ná endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna, og hafði gert viðlag Springsteens að eins konar kosningastefi sínu.

Born in the USA.

Donald Trump fann ekki upp þjóðernishyggju til notkunar í bandarískum stjórnmálum. Og Reagan alls ekki heldur. En hún virkar endrum og sinnum.

Og verum sanngjörn við Colin. Plötur Springsteens eru nánast ein samfelld upprifjun á æskunni, oftast hinni ömurlegu æsku, með einlægum trega og eftirsjá, en líka fegurðinni og gleðinni sem fylgir æskunni alltaf, hvort sem er Glory Days eða The River. Eða öll hin lögin á yfirborðinu.

Þessi plata var á yfirborðinu upprifjun á þeim dásamlegu Bandaríkjum sem Reagan var núna að reyna að selja. Í forsetakosningum árið 1984.

Glory days.

Colin tengdi, og þetta varð platan hans. Þrátt fyrir svona rækilegan stétta- og textamisskilning.

Colin var nefnilega yfirstéttarspíra af hæstu gráðu og átti ekkert sameiginlegt með Bruce Springsteen annað en að vera frá New Jersey.

Þangað áttum við reyndar eftir að fara.

Fyrst samt þetta: Þegar ég kom heim eitt kvöldið frá mikilvægum störfum í öldungadeild Bandaríkjaþings var Colin að hnýta á sig slaufu. Við skjannahvíta skyrtu og almennt vel straujað tau.

„What´s goin´ on?“ spurði ég forviða. Hann var var allajafna í gallabuxum eða kakístuttbuxum.

Colin sagðist eiga stefnumót. Við Lísu Colgate. Ég hló og þóttist kannast við ættarnafnið.

Honum brá hvergi. „Yep, that´s her. Same family. Loaded. I don´t care about the money, though. I just wanna jump her bones.“

Herðubreið er fjölskyldutímarit og því sleppum við þýðingum hér. En the Heffrons and the Colgates were dating. Það þóttu áreiðanlega nokkur tíðindi í The Hamptons.

Ég spurði Colin aldrei út í Lísu Colgate og beinin þegar hann kom heim daginn eftir. Þótti það óviðeigandi. Hann var frekar grömpí á svipinn, en sagðist hafa skemmt sér vel.

Það var látið duga og ekki rætt frekar.

En við Colin hlustuðum meira á Springsteen og reyndum að tala ekki um pólitík. Ég laumaði Bubba einstaka sinnum í tækið. „He´s OK,“ var dómur hins hlustandans.

„If I could just understand the fuckin´ lyrics.“

Það var nú verkurinn. Reynið bara að snara Bubba á yfirstéttaramerísku. Ég reyndi og Colin hló.

Leið svo að nóvember og þakkargjörðarhátíð síðla þess mánaðar. Þá fór hver stúdent til síns heima. Nema ég náttúrlega.

„So what´s your plan for Thanksgiving?“ var spurt í herberginu.

Ég kom af fjöllum, hafði engin plön um neitt á svo framandi hátíð. Þetta var soldið eins og að spyrja gyðing hvað hann hygðist gera um jólin.

Ég hafði reyndar kynnzt dásamlegri gyðingastúlku skömmu áður og við hlökkuðum bæði til þess að við hefðum herbergið út af fyrir okkur á meðan afkomendur annarra innflytjenda í Bandaríkjunum héldu sína prívathátíð.

„You´re coming to our house for Thanksgiving,“ sagði Colin, og þetta var ekki einu sinni tillaga. Frekar eins og skipun.

Ég ræddi þetta við Ellen, gyðingastúlkuna mína af rússneskum ættum, og við urðum sammála um að gagnlegra væri að ég fræddist um siði vestur-evrópskra Bandaríkjamanna beint af þeim sjálfum en að við tvö dúlluðumst eitthvað í herbergi í Washington dögum saman.

Skynsamt og praktískt fólk, rússneskir gyðingar, og kann að meta gildi menntunar.

Á móti kom að ég bauð henni til Íslands um jól og áramót. Þar fékk hún stóran menntunarpakka í staðinn, aftansöng í Hallgrímskirkju á aðfangadag, gistingu á Skólavörðustígnum hjá mömmu sem spurði hvort hún væri heiðingi – svarið var já –, og gamlárspartí fyrrum menntaskólakrakka heima hjá Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra á Arnarnesinu í eftirrétt.

Þar sá ég Guðmund Steingrímsson í fyrsta skipti, krakkaskít sem virtist helzt velta fyrir sér hvernig hann gæti hleypt partíinu upp. Hann gerði það sannarlega síðar, dró sig svo í hlé, en það er svosum ekki endilega fullreynt.

Ellen skrifaði eitthvað um þessa heimsókn í skólablaðið sitt þegar hún sneri heim, en ég ætla rétt að vona að internetið finni þann texta aldrei.

En þetta var nú utan efnis og óþarfi. Ég fór auðvitað með Colin heim til New Jersey. Í þakkargjörðina.

Colin átti hvítan Volkswagen Golf, blæjubíl náttúrlega. Við brunuðum upp til Jersey með blæjuna niðri enda var indjánasumar og ennþá hlýtt í nóvember. Bruce Springsteen var í tækinu og Reagan hafði unnið. Colin söng með og hló, og dansaði á benzíngjöfinni. Hann átti alveg fyrir sektinni, ef til hennar kæmi.

Þar kom að ég spurði hvort ekki væru útvarpsstöðvar sem við gætum hlustað á. Kannske kántrí eða fólkmúsík? Eitthvað svona til tilbreytingar?

„You´re weird, Karl,“ sagði hann. „Are you gonna go fuckin´ hillbilly on me now? This is Jersey, not West-Virginia.“ Hann bar Jersey svo fallega fram. Djoísí.

Svo fann hann einhverja poppútvarpsstöð með lögum sem minntu hann líklega á beinin í Lísu Colgate. Ég horfði á trén, sem byrgðu sýn fyrir allt landslag, og beið ákvörðunarstaðar.

Heffron-hjónin voru sérlega yndisleg, tóku hlýlega á móti þessum ókunnuga manni, mér var vísað í eitt af sirka fimmtán svefnherbergjum í húsinu, og allt var gott.

Hátíðarkvöldverðurinn var hins vegar einstaklega óeftirminnilegur. Ekki bara maturinn, það var hefðbundinn kalkúnn með tilbehör. En stórfjölskyldan – við vorum þarna hátt í tuttugu – hún var svo ævintýralega leiðinleg að ég fann helzt félagsskap hjá krökkunum úti í garði að spila amerískan fótbolta. Stundum með sígarettu í munnvikinu, sem þeim fannst forvitnilega bannað.

Samt komst ég vitaskuld ekki hjá því að ræða við fjölskylduföðurinn Francis. Hann var eiginlega blóðugur upp að öxlum í niðurskurði hjá AT&T, sem var rótgróið og nánast einokunarfyrirtæki í símatækni og -þjónustu um gervöll Bandaríkin. Í byrjun árs höfðu samkeppnisyfirvöld fyrirskipað að fyrirtækið skyldi brotið upp til að gefa kost á meiri samkeppni.

Francis Heffron leizt ekki á blikuna. „Við veitum góða þjónustu á landsvísu á lágu verði. Ríkisvaldið er að skipta sér af markaðnum með ofbeldi. Þetta minnir á Sovétríkin. Viðskiptalífinu þykir mjög mikilvægt að Reagan hafi náð endurkjöri.“ Ekki orðrétt haft eftir, en kjarni málsins samt, og sovétið var notað til samanburðar.

Ég gerði mér upp þá samúð sem ég hafði tiltæka, sem var engin, og þakkaði fyrir gestrisnina og dásamlegt kvöld. Þetta síðasta var ósatt, en fróðlegt var kvöldið.

Kapítalistunum þótti sótt að sér vegna samkeppni.

Við Colin ókum hægar til Washington og slitum loks samvistir um miðjan desember, en þó ekki án þess að gerast viðskiptafélagar. Kapítalisminn er alls staðar.

Hann hafði mjög mært lopapeysuna sem ég átti og sagðist þekkja fjölda fólks sem gæfi mikið fyrir að eignast slíka flík.

Ég gat upplýst hann um að þegar ég flaug fyrst til Bandaríkjanna – hálfu öðru ári fyrr – hefði verið samferða mér í flugvélinni Ólafur Ólafsson, í þeim erindum að selja lopapeysur í Ameríku fyrir Álafoss. Þær hlytu því að verða til sölu í annarri hverri verzlun eftir nokkrar vikur.

„Of mikið vesen,“ sagði Colin. „Þú ert á leiðinni til Íslands. Hvað kosta svona peysur þar?“

Ég vissi það ekki, en gizkaði á eitthvað sennilegt.

Tveimur dögum síðar kom sambýlismaðurinn til mín með seðlabúnt og fyrirmæli: „Kauptu þrjátíu lopapeysur og sendu mér.“

Ha?

„Já. Ég get selt þær á þreföldu verði, við skiptum ágóðanum og gerum mjög marga glaða. Stelpurnar eru vitlausar í þessar peysur.“

Að fengnum kynnum við Colin Heffron dró ég ekkert af þessu í efa. Hann var frekar einsýnn hægri maður, en mér var farið að þykja vænt um hann og ég treysti honum.

Einhvern tímann í janúar, þegar Ellen var farin og útsölur hafnar, gerði ég mér ferð í Rammagerðina í Hafnarstræti. Þar tíndi ég þrjátíu lopapeysur ofan af rekkum, og reyndi að hafa þær í sem fjölbreytilegustum litum, en frekar í smærri kantinum.

Colin hafði jú sagt að þetta væri fyrir stelpurnar. Ég reyndi að sjá fyrir mér beinin í Lísu Colgate.

Fann svo kassa, lagði lopapeysurnar til, lokaði með límbandi og merkti, og fór með kassann á öxlinni í pósthúsið í Pósthússtræti. Það vildi til að lopapeysur eru léttar í flutningi.

Á pósthúsinu þurfti að fylla út form fyrir svo stóra sendingu. Af einhverjum ástæðum komst ég upp með að segja að sendingin væri gjöf til Colins og slapp við útflutningstolla.

Nema hvað. Sendingin skilaði sér og Colin varð vinsælasti kærastinn í The Hamptons þegar hann tók að selja dísunum þar sérpantaðar íslenzkar lopapeysur á uppsprengdum spottprís.

Vel gert hjá okkur, þótti mér. Og honum líka, sagði hann mér í póstlögðu bréfi.

Nú er aðeins tvennt ósagt.

Annars vegar minnist ég þess ekki, að Colin hafi tekizt að koma ágóðanum af þessum viðskiptum til mín. Enda höfum við hvorki sézt né talazt við síðan þá. Að öðrum kosti væri ég sennilega að játa á mig bæði peningaþvætti og tollsvik.

Sem ég kannast hreint ekkert við. En það væri náttúrlega yfirvaldinu líkt, að gera greiða við einhvern gelluhóp í The Hamptons að glæp.

Hitt er alvarlegra.

Eftir að Colin hafði kynnt mig fyrir Bruce Springsteen sem hetju Ronalds Reagans fór ég aðeins að skoða og hlusta betur.

Keypti tvær kassettur. Nebraska og The River.

Eins og hinir trúuðu myndu segja: Hvílík hugljómun. Þetta var stöff, og miklu sárara en Guthrie og Dylan. Í umræðu um morð í Bandaríkjunum er þetta átakanleg áminning: „Sir, I guess there´s just a meanness in this world.“

Og þessi plata meðal annars um verkafólk í deyjandi iðnaði tímans sem nú er horfinn, en Trump reynir að telja fólki trú um að verði enn til:

Ég laumaði kassettunni með Nebraska ofan í kassann með lopapeysunum frá Rammagerðinni sem ég sendi Colin þarna í smyglinu. Bara til að stríða honum.

Fékk aldrei nein viðbrögð. Sennilega var honum þó ekki skemmt. Ef ég þekkti vin minn rétt.

Ég get samt ekki annað en hugsað fallega til Colins. Ekki einasta var hann elskulegur og vingjarnlegur sambýlismaður, bauð mér í hátíðarkvöldverð til fjölskyldu sinnar, og reyndi að skilja Bubba, jafnvel þótt hann skildi ekki neitt.

Hann kynnti mig þar að auki og einkum fyrir Bruce.

Og breytti þar með hugsunum mínum til frambúðar.

Fyrir svona endalaust fallegan misskilning.

0,518