Karl Th. Birgisson 30/06/2019

Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum

Ekki mest aðlaðandi fyrirsögn sögunnar, ég geri mér grein fyrir því. En svona var þetta.

Og rifjast upp vegna hitabylgjunnar í Evrópu. Þetta var sú þarsíðasta alvarlega. Árið 2003.

Þá hafði Jóhanna systir mín ákveðið að giftast hinum sænska Leif í Suður-Frakklandi. Við systkinin fórum vitaskuld ásamt mökum og flestum afkomendum, flugum til Þýzkalands og ókum þaðan suður úr líklega á fjórum leigðum bílum.

Nei, það var ekki búið að finna upp kolefnisfótsporið á þessum árum.

Og ekki snjallsímana heldur. Ég þurfti fyrir vinnu sakir að fylgjast með fréttum á Íslandi og fékk þær sendar í Nokia-samlokusímann í gegnum símaþjónustu sem mig minnir að héti WAP. Það voru eiginlega sms með fréttum upp úr vefmiðlum. Mér líður eins og samtíðarmanni Jóns Helgasonar prófessors þegar ég rifja þetta upp.

Nema hvað þau hjónaefnin höfðu leigt hús í fjöllunum fyrir ofan Nice eða þar um kring. Þar var allt óskaplega fallegt, en byggt beint upp í loftið utan í hlíðunum. Til þess að ná í nauðsynjar þurfti að ganga niður eftir og aftur heim lóðbeint upp í Hallgrímskirkjuturn. Það var ljóta helvítis kvalræðið.

Og fjörtíu stiga hiti og upp úr bætti ekki úr skák.

Í þessari ferð lærðist mér að ganga hversdags í náttbuxum úr gerviefnum – bómullin er alltof þykk og lengi að þorna – og dusta barnapúðri ótæpilega þar sem svitinn gerðist óþægilegastur.

Núnú. Áður en ég kem að hitamælinum er rétt að nefna svolítinn pólitískan og persónulegan sigur. Ekki minn þó.

Við gerðum okkur ferð yfir landamærin til suðurs, sennilega til að geta sagzt hafa farið til Ítalíu líka. Í þessari hitabylgju kviknuðu náttúrlega skógareldar og þar sem við ókum um Norður-Ítalíu sáum við nokkra litla slíka.

Í aftursætinu var austfirzkur systursonur, fullorðinn. Á þessum árum var hið alræmda og ítalska Impregilo að byggja Kárahnjúkavirkjun við stundum mjög slæman orðstír, og frændi minn kunni ljótari sögur en þær sem fóru hátt.

Þegar hann sá eldana, en einkum þó reykinn, spratt ósjálfrátt upp úr honum: „Jess! Ítalía brennur!“

Ég leit í baksýnisspegilinn og sá augu glóandi af réttlætiskennd og líklega von um að til væri karma, þrátt fyrir allt. Og trúið mér, hann Birgir frændi minn á nóg til af réttlætiskennd, en er seinþreyttur til vandræða og vill engum slæmt.

Þessi upphrópun kom beint úr bæði hjartanu og iðrunum.

En já – það var sumsé þetta með hitamælinn.

Árni Snævarr hafði á þessum tíma umsjón með Íslandi í dag á Stöð 2, eða hvað það hét nú þá. Hann er frankófíl eftir námsárin sín í Frakklandi, hafði fréttamannsáhuga á hitabylgjunni og hafði spurnir af ferðum mínum þarna suður frá.

Hann vildi fá mig í beina útsendingu símleiðis. Alveg sjálfsagt, Árni minn.

Hinn viðmælandinn var Haraldur Ólafsson veðurfræðingur í settinu hjá Árna uppi á Höfða.

Ég fékk símtalið frá útsendingarliðinu og hlustaði á meðan Haraldur fór yfir málin af vísindalegri þekkingu, sögukunnáttu og alkunnum húmor. Svo ávarpaði Árni mig.

Ég sleppti því að væla yfir þessu andskotans óveðri, þótt ærin ástæða væri til, og var almennt frekar óintressant viðmælandi. Þá spurði Árni hvert hitastigið væri.

Það var skollið á myrkur í Frakklandi og við vorum að koma inn í Lyon, heimaborg Árna, í leit að ódýru hóteli. Ég leit á hitamælinn í bílnum og sagði sem satt var:

„Hér eru 37 gráður.“

Jahá, svaraði hann, en Haraldur veðurfræðingur blandaði sér þá í samræðurnar:

„Ne-ei, það er óhugsandi, jafnvel fráleitt. Þarna hlýtur einhver að vera með hitamælinn í rassinum á sér.“

Við þessar aðstæður – í beinni útsendingu í sjónvarpinu – þar sem maður reynir að segja satt og fær svo þessi afdráttarlausu vísindalegu viðbrögð, þá er varla margt fleira hægt að segja.

Nema bara dást enn meira að Haraldi Ólafssyni og steinhalda svo kjafti.

0,599