Karl Th. Birgisson 12/08/2019

Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont

Vegna gleðidaga ætla ég að monta mig svolítið. Það er ekki eins og tilefnin gefist svo mörg.

Það er nóvember 1982. Ég er nítján ára. Flokksþing Alþýðuflokksins.

Þingið var sett í Gamla bíói, en fór þaðan í frá fram á Hótel Loftleiðum. Þingsetningin var eftirminnileg – ekki bara vegna pólitísku spennunnar sem var framundan á þinginu – heldur fyrir mig persónulega. Minningar eru víst jafnan þannig.

Einhver hafði logið því að skipuleggjendum að ég kynni að gutla á gítar og gæti jafnvel haldið lagi. Af þessu leiddi að ég var sjanghæjaður í lítinn sönghóp, sem hafði á dagskrá sinni að spila The Times They Are A-Changin´ eftir Dylan, sem Hörður Zophoníasson hafði snarað stórvel sem Tímarnir líða og breytast.

Um flutninginn voru sem betur fer ekki skrifaðir neinir dómar, en eitt græddi ég á þessari uppákomu. Ég kynntist Gunnari Eyjólfssyni.

Á þessum árum fór ekki framjá neinum viðstöddum að ég stamaði hastarlega, og geri stundum enn. Eitt sinn ákvað ég óumbeðinn að stíga ofan úr pontu á málfundi í Menntaskólanum í Reykjavík – í miðju rifrildi við Jón Baldvin – af því að stamið var orðið of vandræðalegt. Ekki bara fyrir mig, heldur salinn allan.

Ég ákvað einfaldlega að hlífa okkur öllum við þeim ósköpum. Þau geta verið mjög erfið.

En Gunnar Eyjólfsson var sumsé fenginn til þess að koma í veg fyrir að nokkur slík slys yrðu þarna á sviðinu á setningarhátíð flokksþings Alþýðuflokksins í Gamla bíói. Með þennan sönghóp.

Hann átti að kenna mér að anda, einkum með þindinni en líka maganum, og gerði það af mikilli hlýju og sannfæringu. Og röddinni, sem hefði ein og sér átt að geta útrýmt öllu stami í heiminum.

Gunnar bjó að langri reynslu sinni og þjálfun sem leikari, og við þindin tölum reglulega saman síðan.

Enginn kann ennþá allsherjarskýringu á því hvers vegna fólk stamar eða hvernig má losna við þann kvilla. Stam er svolítið eins og psoriasis. Orsökin óljós, virðist vera einstaklingsbundin og meðferðin sömuleiðis. Að því er við vitum ennþá.

Okkur Gunnari kom það til hjálpar með svo skömmum fyrirvara, sem ég vissi þó fyrir, að enginn stamar á meðan hann syngur. Þess vegna söng ég stundum hversdags. Og þess vegna fluttum við lag Dylans með texta Harðar skammlaust að því leytinu þennan eftirmiðdag í Gamla bíói.

Af þessari reynslu dreg ég þann eina lærdóm í okkar nútímasamhengi, að þegar hælbítar glefsa í Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra fyrir að vera óskýrmæltur eða jafnvel þvoglumæltur – af því að hann stamar ennþá og stundum illa, en er að reyna að díla við það – þá syngi hann bara ofan í þjóðina nýjustu ákvarðanir um stýrivexti og rökstuðning fyrir þeim.

Það hlýtur að finnast nothæfur píanisti í seðlabankanum til undirleiks fyrir nýjustu horfur í efnahagsmálum. Þar er fluttur kunnuglegur söngleikur á þriggja mánaða fresti, nokkuð sem gefst ekki færi á hjá nágrannaþjóðum.

Ég þykist líka vita að Gunnar Eyjólfsson myndi taka ofan. Og rymja ánægju sína.

———

En það var semsagt spenna á þessu flokksþingi haustið 1982.

Vilmundur Gylfason var að bjóða sig fram. Aftur. Að vísu bara til varaformanns, en aftur, og aftur gegn prúðmenninu Magnúsi H. Magnússyni úr Vestmannaeyjum, pabba Páls útvarpsstjóra og þingmanns.

Vilmundur hafði tapað fyrir Magnúsi tveimur árum áður með býsna afgerandi atkvæðatölu, en síðan hafði margt gerzt og sumt ömurlegt gengið á. Nefnum bara hér Alþýðublaðsdeiluna 1981, þegar upplagið var brennt einn daginn, og Jón Baldvin sveik eða sveik ekki. Nóg er af öðru.

En Vilmundur fór semsagt aftur fram gegn Magnúsi í kjöri til varaformanns á þessu flokksþingi. Ekki af persónulegum ástæðum – honum þótti vænt um Magnús, en þótti hann líka of aðsópslítill – heldur af því að Vilmundur vildi fá viðurkenndar róttækar hugmyndir um öðruvísi samfélag. Og ekki veitti nú af. Hjálpi okkur.

Flokksþingið 1982 snerist meira og minna um þessi átök. Um bæði einstaklinga og hugmyndir.

Ég fylgdist með stemmningunni í spjalli við þingfulltrúa og stundum beinlínis samtölum Vilmundar við einstaka fólk. Það var ekki alltaf gaman, en úr bætti mjög að Vilmundur tók andóf sjaldnast nærri sér, nema frá einstaka fólki sem honum þótti nokkurs virði og olli honum þess vegna vonbrigðum.

Hann sagðist prívat ekki vilja atkvæði þeirra sem aðhylltust „gamla stílinn“. Stundum notaði hann sterkari orð. Þetta voru alvöruátök og raunverulega á milli gerólíkra hugmynda og stíla, sem var þó of pent orðað hjá Vimma.

Sjálfur var ég að dunda við annars konar stílbrot.

————

Á Hótel Loftleiðum komst ég í ritvél á vegum flokksins og skrifaði tillögu sem lögð skyldi fram. Hún var um að stefna Alþýðuflokksins ætti að vera sú, að samkynhneigðir skyldu að lögum og öllum opinberum reglum njóta sömu réttinda og aðrir í samfélaginu.

Eldhúskrókasálfræðingurinn í mér getur fundið fleiri en eina skýringu á því hvers vegna ég fann hjá mér þörf til þess að bera fram þessa óvæntu hugmynd, sem var ekki beinlínis í tízku á þeim árum. Hörður Torfa var tiltölulega nýkominn heim úr útlegðinni.

En tillagan var lögð fram á þinginu og ég þurfti vitaskuld að mæla fyrir henni yfir salinn sem eini flutningsmaðurinn.

Sem ég og gerði, og þakkaði Gunnari Eyjólfssyni í þindinni fyrir hverja einustu sekúndu sem mér tókst að komast stamlaust í gegnum textann.

Þar sem ég flutti mál mitt afar vandlega og sagði eitthvað um jafnrétti heyrði ég fliss, hvískur og pískur, jafnvel hlátrasköll – og mjög líklega sitthvað spennandi um kynhneigð þessa unga manns. Þaðan stafaði sennilega hláturinn.

Sumir ranghvolfdu í sér augunum. Eins og þetta væri mikilvægasta mál samtímans? Þegar verðbólgan var fimmtíu prósent, svona sirka?

Ég hafði fyrirfram ekki gert mér neina hugmynd um við hverju var að búast – óð bara áfram með þennan málstað eins og hvert annað unglingspeð. Tók hlátrinum og flissinu eins og ég hefði tekið rangt gítargrip.

Sem ég gerði greinilega.

Fyrsti maðurinn sem ég hitti að framsögu lokinni var formaður Sambands ungra jafnaðarmanna. „Þetta var nú ljóta ruglið í þér,“ sagði hann og gekk burt.

Aðrir sneiddu hjá samskiptum, en ég komst ekki hjá því að sjá augngoturnar. Líklega hefði mér átt að vera brugðið, en mér var svo furðanlega alveg sama. Ég þóttist hafa rétt fyrir mér og kunni bara ágætlega við glott og glósur.

Einn maður var öðruvísi. Einn maður, sem ég þekkti þá þegar ágætlega og þótti vænt um – hann kom sérstaklega til mín og hrósaði mér. „Þetta var flott og kjarkmikið hjá þér, Kalli,“ sagði hann og eitthvað fleira sem ég man ekki. Þetta var Bjarni P. Magnússon, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, sem ég vissi af reynslu að bjó yfir meiri réttlætiskennd en margir aðrir í salnum.

Ég hækkaði um fimm sentimetra inni í mér við þessi viðbrögð frá Bjarna Pé.

————

Ekki man ég hvernig tillögunni reiddi af. Mér þykir líklegast að henni hafi verið vísað til flokksstjórnar eða þvíumlíkt. Það var viðtekin venja til þess að geyma mál eða gleyma þeim. Og hugsanlega hafa þingfulltrúar ekki viljað niðurlægja unglingspiltinn með því að greiða atkvæði um málið.

Hitt munum við betur, að Vilmundur tapaði aftur í varaformannskjöri gegn Magnúsi, í þetta skipti naumlega.

Þá flutti hann tilfinningaþrungna ræðu, sem fátt lifir úr annað en tilvitnunin í dægurlagatextann:

„I´m sending you a big bouquet of roses / One for every time you broke my heart.“

Á eftir fylgdi önnur saga og lengri, en hér með lýkur nú þessu grobbi, sem mig langar samt að kalla gleðimont.

Því að eins og Hörður Zophoníasson orti: Tímarnir líða og breytast – sem betur fer. En ekkert er sjálfgefið og vond viðhorf lifa enn átakanlega víða.

Með hamingjuóskum um gleðidaga fylgir hér með rafrænn rósavöndur. Hann má mjög gjarnan vera í öllum regnbogans litum.

K.

0,826