trusted online casino malaysia
Fjölmiðlarýni 14/02/2019

Að reka hausinn í – tvisvar

DV og/eða Eyjunni tókst á einum sólarhring að setja tvisvar óskemmtilegt met í ömurlegri blaðamennsku.

Eða smelludólgshætti. Eða bara kjánaskap. Nema allt saman gildi í einu.

Fyrri fréttin spratt af umræðu um hækkuð laun bankastjóra Landsbankans, Lilju Einarsdóttur. Flestir urðu eðlilega mjög súrir vegna þeirrar ráðstöfunar.

DV/Eyjan birti svohljóðandi frétt þess vegna:

 

Látum nú eiga sig rökin um að bankarekstur sé í eðli sínu svo umfangsmikil glæpastarfsemi að sérstaklega þurfi að bæta forsprökkum hennar upp mögulega fangelsisvist. Það er spes og upplýsandi.

En „Stjórnarmaður segir“ er í fyrirsögn fréttarinnar. Hvaða stjórnarmaður er það nú? Stjórnarmaður í Landsbankanum? Stjórnarmaður í Bankasýslunni? Stjórnarmaður í kauphöllinni?

Nei, ekki er það nú. Þessi „Stjórnarmaður“ er heiti á nafnlausum dálkahöfundi í viðskiptakálfi Fréttablaðsins. Hann kallar sig Stjórnarmanninn. Gæti eins heitið Forstjórinn. Eða Ljóti hálfvitinn, ef það væri ekki sæmdarheiti.

En DV/Eyjan kýs að nota dulnefnið í fyrirsögn án gæsalappa eða annarra vísbendinga um að þarna eigi ekki í hlut alvöru stjórnarmaður. Stjórnarmaður er jú soldið merkingarhlaðið orð. Eru þeir ekki svo óskaplega gáfaðir?

Þarna sló DV/Eyjan mjög hraustlega met í skrumi og smelludólgablaðamennsku, en það stóð samt ekki lengi.

Nokkrum klukkustundum seinna ákvað miðillinn að birta þessa frétt um hraðferð þingflokks sjálfstæðismanna um landið í kjördæmaviku:

Hefði nokkuð verið ofílagt að kalla þetta lúxusrútu fremur en VIP? En látum það vera.

Í fyrirsögninni er fullyrt að „þetta“ kosti hraðferðin skattgreiðendur. Niðurstaðan í „fréttinni“ er sirka tvær og hálf milljón, ef yfirleitt er hægt að lesa eitthvað út úr henni. Sú fjárhæð er reyndar varla nema fáeinir mánuðir í flökkulífi Ásmundar Friðrikssonar.

Fréttin er hins vegar fals, hjóm og skrum. Ég þori ekki að segja falsfrétt, af því að það hugtak er svo mjög misnotað þessa dagana, en það er samt líka því miður réttnefni.

Í fréttinni er nefnilega gert ráð fyrir því að alþingi endurgreiði kostnað þingflokks Sjálfstæðisflokksins vegna þessarar ferðar. Þar er reiknað út frá því hversu mikið „heimilt“ er samkvæmt reglum þingsins að endurgreiða vegna fæðis og gistingar, en sérstaklega tekið fram að brennivín sé ekki talið með.

Svo er reiknað og reiknað, næstum eins og Gunnar Smári hafi skrifað textann.

Hvergi – hvergi og neins staðar – kemur hins vegar fram að þingið hafi samþykkt að greiða þennan kostnað, að til standi að rukka þingið fyrir hann eða að slíkt hafi yfirleitt komið til umræðu.

Í ljósi sögunnar kæmi það vitaskuld ekki á óvart – og þættu væntanlega smámunir í öðru samhengi – en þangað til slíkt kemur í ljós getur DV ekki og má ekki fullyrða: „Þetta kostar hringferð Sjálfstæðisflokksins skattgreiðendur“.

Rétt lýsing væri „Þetta gæti“ hraðferðin kostað skattgreiðendur, en það er væntanlega ekki nógu sexí fyrirsögn.

———-

Við eigum í nógu miklum vandræðum með fals, skrum og „hann segir/hún segir“ fréttir í daglegu lífi án þess að fjölmiðlar grafi beinlínis undan umræðu með vísvitandi þvælu.

Það tókst DV/Eyjunni hins vegar að gera með tveimur fréttum á mjög skömmum tíma. Þar með ráku viðkomandi blaðamenn og ritstjórar hausinn í botninn á kunnuglegum drullupolli.

Vonandi skýrðist hugsunin eitthvað við það.

Karl Th. Birgisson

 

Flokkun : Pistlar
1,354