trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 17/11/2018

Já, hún gerði það aftur – önnur frábærlega skrifuð og þaulhugsuð skáldsaga

Ritdómur – Karl Th. Birgisson skrifar

Hið heilaga orð

Sigríður Hagalín Björnsdóttir

(Benedikt, 2018)

Ég veit nú ekki margt. En það þó, að með tveimur skáldsögum hefur Sigríður Hagalín Björnsdóttir skipað sér á bekk með beztu rithöfundum samtímans.

Já, ég veit að það er mikið sagt og er jafnvel klisja, en klisjur verða klisjur af því að þær bera í sér sjálfsögð sannindi.

Hér er hins vegar ekkert ofsagt.

Fyrri bók Sigríðar, Eyland, var bæði ákaflega vel skrifuð og bráðnauðsynleg fyrir samtíma okkar, um hættuna á fasisma og ofbeldi.

Hin seinni  Hið heilaga orð – er svo miklu betri og flóknari – og einmitt betri af því að hún er flóknari, svo að ég þurfti að lesa tveimur og hálfs sinnum til að njóta smáatriðanna.

Svona niðurstöðu þarf að rökstyðja. Gerum það þá.

Sigríður Hagalín hefur sögu sína á þeirri ákvörðun tveggja ungra kvenna, sem eru báðar óléttar eftir sama sjarmerandi óbermið, að leigja saman og ala hálfsystkinin upp saman.

Aðdragandinn að þeirri ákvörðun er mjög sannfærandi og mjög íslenzkur, hreinskiptinn og praktískur, en afleiðingarnar eru vitaskuld dramatískar og á endanum lífshættulegar.

Ég vil ekki verða Höskuldarspillir, en börnin tvö – hálfsystkinin Edda og Einar – verða eins og svart og hvítt. Einkum þó að þessu leyti: Einar er nánast lesblindur, en Edda er ofurlæs. Hún á heima í sögunum sem hún les og býr jafnharðan til nýjar.

Hann skilur ekki stafina, en er þeim mun færari á öðrum sviðum.

Þar með læt ég lokið lýsingu á sögunni, nema hvað hún er allt í senn, grípandi, hræðileg og hugvekjandi.

Og alltof vel skrifuð fyrir minn smekk.

Í annarri tilraun með atrennu tókst Sigríði Hagalín Björnsdóttur nefnilega að græta fullorðinn karlmann með lýsingum á hugarheimi barna, ótta þeirra, sérkennum, félagslegri stöðu – með tilheyrandi útskúfun, einangrun og ömurð.

Í þýðingum mínum á bókum Stephens Kings sá ég svosem alls konar barnatilfinningatrix. Í langflestum fyrstu bókum sínum notar King börn og hugsanir þeirra til að vekja óhug, byggja upp spennu og skapa loks hrylling. Rifjið bara upp The Shining.

En samanburðurinn nær ekki lengra og er reyndar hvergi einu sinni nálægur. Sigríður Hagalín virðist geta smogið inn í hugarheim barna og unglinga, lesið hugsanir, tilfinningar og viðbrögð, og skilað þeim frá sér svo átakanlega fallega að lesandinn verður átta ára aftur.

Eða fimmtán.

Og líður eins.

————

Svo eru það þræðirnir. Sagan spinnur sig í bæði tíma og rúmi, vestur á firði og til New York – skyndilega er maður kominn inn fléttu sem jafnast á við Da Vinci-lykilinn eftir Dan Brown – í nokkrum þráðum svo að stundum varð þessi lesandi hér pirraður – hann vildi vita hvað gerðist næst í hinni sögunni og hvað er verið að trufla mann með þessari þarna aftur?

En það lýsir óþolinmæði þess sem vill sífellt meira af hinu sama – meira en fyrir tveimur mínútum – og um það er þessi bók líka.

Hún er um samskiptamiðlana, lækin okkar, stafrænu þumlana, ímyndina sem við búum til – eða höldum að við búum til – og lækin sem við fáum ekki.

Við viljum sífellt meiri viðbrögð og meira af hinu sama. Strax.

Á Snapchat, Instagram og hvað það heitir nú.

Til þess að renna stoðum undir tilvist okkar. Og þar með einhvers konar staðfestingu á því að við séum frábær. Lækleysi er ígildi misheppnaðrar tilveru. Lækleysi merkir að við þurfum að skola hina stafrænu ásjónu okkar með ediki.

Aðrir kunna betur skil á þessu öllu saman, en annar meginþráður í vef Sigríðar Hagalín er reyndar ritmálið. Á þeim velli líður mér betur.

Ritmálið, lestur, bækur, skrifuð orð – allt þetta verður að mikilvægum átakapunkti á milli persónanna, en líka lykillinn að lausninni. Ef lausnin er þá til.

Það væri annað spilliefni að lýsa þeim átökum, en látum nægja að segja að Sigríður Hagalín fer mjög ákveðnum fréttamannshöndum um gagnstæð sjónarmið, rekur röksemdir af þrótti, tekur ekki afstöðu á meðan, en lætur lesandann um að hugsa sitt.

Ég hendi bara nokkrum spurningum til ykkar: Hvers vegna er svona óskaplega mikilvægt að kunna að lesa? Þegar flest það sem við skynjum og gerum er myndir og hljóð? Og æ fleiri geta ekki komið hugsunum sínum og tilfinningum til skila nema með því að nota tjákn?

Hér er meira: Hefur eitthvert okkar hugmynd um hver gæti orðið næsti Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum? Þekkið þið einhver nöfn, sem eru ekki íslenzk? Höfum við lesið eitthvað eftir þá ágætu rithöfunda?

Texta nýlegs Nóbelshöfundar – Bobs Dylans – hlustuðum við á sem tónlist, en lásum sjálfa textana ekki nema utan á einstaka plötuumslagi. Og það var meiraðsegja í gamla daga. Les einhver mögulega Nóbelshöfunda nútildags?

Hvers vegna er svona mikilvægt að gefa út bækur? Og þar með að kunna að lesa? Og svo framvegis.

Sofið á þessu alveg fordómalaust svosem eina nótt. Og lesið svo Hið heilaga orð.

—————

Ólíkt flestum öðrum skáldsagnahöfundum skrifar Sigríður Hagalín ekki um Ísland eins og það var fyrir þrjátíu eða hundrað árum, heldur plantar hún sér beint inn í samtíma okkar, allt hans rugl og gerviveröld, en líka raunveruleg vandamál, og sum þau alvarlegustu.

Gamla Ísland er þarna náttúrlega líka – án þess væri samtíminn óskiljanlegur – en Sigríður rekur alveg miskunnarlaust framan í okkur viðfangsefni sem ég fullyrði að við höfum ennþá litla burði til takast á við, hvað þá leysa.

Það sama gerði hún í Eylandi, og nú hér aftur og miklu betur.

Og svo er nú hitt, sem heggur sífellt í heilann við lesturinn:

Svona bók gæti enginn skrifað nema kona. Næm og sterk kona. 

Og henni er svo mikil alvara. Svo þung, mikilvæg, en falleg og vel skrifuð alvara.

Við ættum öll að þakka fyrir og lesa þessa frábæru bók um okkur sjálf, börnin okkar og samtímann.

Prívat læt ég nægja að þakka fyrir tárin.

Karl Th. Birgisson

Flokkun : Menning
1,312