trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 28/11/2016

Ljúflingshóll eða munúðarhóll? Skiptir engu máli. Þið þurfið bara að lesa þessa bráðnauðsynlegu bók

Ritdómur – Karl Th. Birgisson skrifar

Eyland

Sigríður Hagalín Björnsdóttir

(Benedikt, 2016)

Sigríður Hagalín Björnsdóttir hefur einu sinni komið mér verulega á óvart.sigridur-hagalin-bjo%cc%88rnsdottir

Það var í lítilli ´leiksýningu´ sem hét Orð skulu standa í Þjóðleikhúskjallaranum fyrir fáeinum misserum. Sýningin var einkum glens og gaman um íslenzkuna og menningararfinn, en gestum á sviði var uppálagt að syngja eitt lag, við undirleik Pálma Sigurhjartarsonar eða stundum Jakobs Frímanns.

Ekki málið, sagði fréttakonan sem hafði fallizt á að verða gestur okkar. – Ég tala um það við píanóleikarann.

Um undirbúning vissi ég ekkert. Þetta var fullorðið fólk og ekki ætlaði ég að skipta mér af því.

Svo stóð hún þarna á sviðinu, yfirlætislaus, næstum hljóð í nærveru sinni, og hóf að syngja Á ljúflingshól eftir þá Múlabræður, rétt eins og amma hennar og nafna hafði gert í leikhúsinu með Steindóri Hjörleifssyni svolitlu fyrr.

Með troðfullum salnum varð ég agndofa drykklanga stund eftir flutninginn. Það var ekkert hægt að segja. Bara jafna sig, og klappa svo og hrópa svo og klappa meira fyrir þessum yndislega performans.

En jæja. Henni hefur tekizt það aftur. Að koma mér rækilega á óvart. Og á miklu stærri skala.

Nú með annars konar söng, skáldgyðjusöng, sem er þó meira í ætt við þulu. Hræðilega raunsannri lýsingu á því sem gæti gerzt ef landið lokaðist, ef flutningar og fjarskipti legðust af, Ísland einangraðist frá umheiminum – raunaþulu um mannlega breytni og mannlegt eðli. Næstum ískalda skráningu á því hvernig mannfólkið er ávallt samt við sig, þrátt fyrir þess meintu upplýsingu og menntun.

Það er samt ekki hægt að segja meira um söguna án þess að breytast í Höskuld Þórhallsson og eyðileggja spennuna fyrir lesandanum. En sagan er allt í senn, fantavel skrifuð og hugsuð, átakanleg, hugvekjandi og hrollvekjandi.

En hún ber líka með sér að höfundurinn er fréttakona, hún er vön að skrifa frásagnir af atburðum án þess að leggja dóm á framvinduna. Þegar maður sættist við forsenduna – hina óvæntu lokun landsins – líður allt hjá eins og frábærlega skrifaður fréttatexti, allir atburðir og vendingar meika sens: Að gefnum forsendum A og B, þá gerist þetta. Gjöriðisvovel.

Sagan er líka slungin: Sigríður segir hana frá mörgum sjónarhornum einstaklinga og ferðast jafnvel um í tíma. Bókmenntafræðingar myndu hugsanlega segja að einhvers staðar skorti á dýpri persónusköpun, meiri analýsu á sálarháskanum sem einstaklingar lenda óhjákvæmilega í við þessar aðstæður, en þau birtast okkur samt alveg bráðlifandi, blaðamaðurinn Hjalti, fráfarandi sambýliskonan og fiðluleikarinn María, og eiturdrottningin og innanríkisráðherrann Elín Ólafsdóttir. Einnig erkiritstjórinn Úlfhildur sem neitar að taka þátt í meðvirkninni sem nær óhjákvæmilega völdum.

Að ég nefni ekki börnin, hjálpi mér: Ef skamma ætti Sigríði Hagalín fyrir eitthvað, þá væri það að reyna að græta fullorðinn karlmann með lýsingum á örlögum barna í þessari sögu.

Samhljómurinn við flóttafólk og flóttabörn heimsins leynist engum.

Þar sem sálgreiningu sleppir fer Sigríður hins vegar á kostum í lýsingum sínum á lífi bóndans, einbúans sem nýtur ylsins af kindunum og talar við tíkina til þess að missa ekki endanlega geðheilsuna á hjara veraldar, þar sem hann þraukar án þess að eiga sér í reynd nokkra lífs von.

Þessa kafla skrifar rithöfundur, ekki fréttakona.

Sums staðar verður textinn þó svolítið sérstakur, til dæmis þegar Elín ráðherra dregur Hjalta blaðamann á tálar og þurfti svosum ekki mikið til að sannfæra hann:

Hann leysir af sér bindið og fellur á hné fyrir henni, leggur skjálfandi hendurnar á mjaðmir hennar, strýkur yfir kvið hennar, brjóstin og leitar samþykkis í augum hennar áður en hann tekur fast um rasskinnarnar og leggur andlitið upp að vandlega snyrtu lífbeininu, rennir tungunni inn í salta vætuna.

Látum nú salta vætuna liggja á milli hluta, en lífbein? Hver skrifar eiginlega um lífbein í kynlífssenu í nútímaskáldsögu fyrir fullorðna? Veit fólk yfirleitt hvað eða hvar lífbeinið er?

Þess utan er þetta beinlínis rangt orð. Svæðið heitir munúðarhóll, úr því við erum farin að skrifa eins og upp úr illa þýddri bók í Rauðu seríunni.

En við erum víst ekki í Þjóðleikhúskjallaranum núna, og orðanotkunin á sér eflaust skýringu.

Þetta er í kjarna sínum ekki saga um fólk, þrátt fyrir þess ömurlegu örlög, heldur fyrst og fremst um samfélag. Og vegna stöðu höfundarins er efnið viðkvæmt og jafnvel eldfimt.

Ég vissi fyrir að Sigríður Hagalín væri bráðklár og eiturtöffari þegar svo ber undir. Til þess að skrifa og birta þessa sögu þarf líka kjark, þegar í hlut á fréttakona hjá Ríkisútvarpinu.

Þetta er nefnilega hápólitískt verk. Stórpólitískt í okkar samtíma.

Undirliggjandi þemun eru einangrunarhyggja, þjóðerniskennd, sjálfhverfa þjóðar, ótti og andúð á útlendingum, þrá eftir hinum einfalda tíma þegar Ísland hokraði sjálfu sér nægt, ranghugmyndin um að íslenzk menning sé séríslenzk en ekki alþjóðleg.

Við bætast svo átök fjölmiðla og valdhafa, þar sem þeir síðarnefndu líta á ágreining, andmæli og átök sem árásir, málflutning af illum hvötum gegn íslenzkum hagsmunum. Hljómar þetta kunnuglega?

Þótt allur almenningur í landinu hafi snúið bökum saman og stutt okkur, þá eru þeir til sem hafa unnið gegn okkur, og gegn þjóðinni. Þið vitið hverjir þeir eru. Þeir hafa hvatt til óeirða og upplausnar, þeir hafa reynt að kynda undir ótta og reiði, hvatt til einstaklingshyggju í stað samstöðu. Auðvitað þarf alltaf að vera hægt að viðra gagnrýni í íslensku þjóðfélagi. En sú gagnrýni verður að vera uppbyggileg. Í okkar krefjandi aðstæðum, þar sem samstaðan er ofar öllu, þá getur sú gagnrýni sem rífur niður og eyðileggur aldrei talist neitt annað en landráð.

Þennan ræðubút hefði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson getað flutt á hvaða góða degi sem var á sinni tíð. Hann talaði jú til dæmis um fólkið sem fagnaði efnahagslegum óförum landsins, fyrir utan allt hitt af líkum toga sem spratt úr þeim ranni. (Endilega lesið þennan útdrátt. Þetta var nú einu sinni forsætisráðherra landsins.)

Í sögunni nær málflutningur af þessu tagi smám saman yfirhöndinni, innanríkisráðherrann verður Íslandsráðherra, gagnrýni er barin niður sem óþjóðleg og hættuleg, mótmælendur settir í fangelsi og svo framvegis, eins og við er að búast þegar fasisminn tekur völdin án þess að almenningur taki eftir því, af því að hann er eðlilegt framhald af aðstæðum.

Ég þori varla að nefna að í bókinni eru birtar nokkrar fréttir, sem að leturgerð og uppsetningu eru nákvæmlega eins og í Morgunblaðinu. Við skulum líta á það sem óheppilega tilviljun.

Saga Sigríðar Hagalín er hápólitísk greining og lýsing á atburðarás, sem er mjög rökrétt að gefnum forsendum og á sér beina skírskotun í okkar eigin samtíma, og það er áreiðanlega ekki einfalt fyrir fréttakonu hjá Ríkissjónvarpinu að senda hana frá sér.

Til þess þarf hugrekki og fyrir það ber heila þökk, líka til yfirmanna Sigríðar, sem ég geri fastlega ráð fyrir að hafi vitað af útkomu verksins.

———

Þessi tvö orð standa: Ljúflingshóll. Og munúðarhóll.

Við skulum leika okkur með þau, gantast og grínast, en ekki með Eyland Sigríðar Hagalín Björnsdóttur. Hún er bara þannig.

Ef þið lesið tvær bækur yfir hátíðarnar, látið þessa vera aðra þeirra.

Það er ekkert hægt að segja annað. Bara jafna sig, standa upp, klappa og þakka fyrir.

1,364