trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 03/01/2022

Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma)

Karl Th. Birgisson skrifar

Það er nokkuð síðan móðir mín dó, en einhver minna gáfuðu systra skaut þá inn í hausinn á mér þanka sem ég hef ekki losnað við.

Mamma var komin í þjónustuíbúð á Dalbraut. Eftir langa legu á spítalanum, þar sem hún átti samt ekkert að vera, af því að hún var ekkert veik.

Það kallast víst fráflæðisvandi núna. Við erum að tala um góðærið 2007.

En nú var allt orðið gott. Mömmu skolaði út með fráflæðinu.

Á Dalbraut svaf hún vel og áhyggjulaus, en sofnaði svo endanlega.

Mamma hafði allt sitt líf stritað á verkakonutekjum, oft í tveimur störfum í senn. Oftar en nokkrum sinnum fór ég unglingur að kvöldi á tannlæknastofuna uppi á Freyjugötu að þrífa og fara út með ruslið. Mamma var of þreytt eftir dagvinnuna. En hún gaf okkur alltaf nóg að borða.

Svo gekk á ýmsu, eins og gerist hjá efnalitlu fólki, en alltaf var lífið basl, óvissa og stundum ömurlegt. Fyrir hana. Ekki okkur. Mamma og stórfjölskyldan pössuðu upp á það.

En loks þegar mamma komst í skjól á Dalbraut, þá dó hún.

Og þaðan kom þankinn frá systur minni: „Þegar hún þurfti ekki lengur að hafa áhyggjur, af okkur, af næstu útborgun sem dugði ekki fyrir greiðslu af lánunum, þurfti ekki lengur að streða eða fara í kvöldvinnuna, þá dó hún.“

Þetta er ekki einhlítt.

–– –– ––

Við Guðni Már Henningsson þekktumst ekki neitt fyrr en um aldamótin.

Ég var aðdáandi vegna yfirburða þekkingar hans á tónlist og sögu hennar, sem skein í gegnum öll hans störf á Rás 2.

Um eða upp úr aldamótum var ég staddur í Reykjavík.

Mig vantaði lag með Arlo Guthrie vegna þáttaraðar sem ég var að skrifa um Richard Nixon fyrir Ríkisútvarpið.

Lagið var ekki til hjá útvarpinu, en einhver benti mér á Guðna Má. Ég hringdi.

Auðvitað átti hann diskinn með laginu. Ég gerði mér ferð upp í Mosfellssveit. Hann tók á móti mér, en undraðist að einhver hefði áhuga á þessari tilteknu útgáfu af frægu lagi.

En þetta lag þurfti til að setja rúsínu í endann á síðasta þættinum. Í flutningnum útstkýrir Arlo þessar mikilvægu mínútur sem vantaði í segulbandsupptökurnar í Watergate.

Þetta voru ánægjuleg fyrstu kynni okkar Guðna Más.

Svo hlustaði ég meira á hann og hann eitthvað á mig, og við urðum útvarpsvinir.

Reglulega pantaði ég lag á næturvakt Rásar 2, alltaf það sama. I love you because með Jim Reeves.

Við Guðni vorum sammála um að Jim væri flottasta rödd kántrísins – hefði jafnvel orðið betri en Sinatra ef hann hefði farið í þá átt.

– – – – –

Guðni skrifaði síðar meira um vinskap okkar en mig langaði. Um það gildir bara hið fornkveðna:

Maður skal vera vinur vin sínum.

Í tilviki Guðna Más var sú vinátta mjög ríflega endurgoldin. Stundum efnislega, en einkum í tónlistinni – og þar með sálinni.

Og þar kemur nú aftur að henni mömmu og Guðna Má, og streðinu.

Ég vissi að Guðni hafði átt erfitt fjárhagslega árum saman. Kunnuglegt stef.

Ég fékk hins vegar að fylgjast með honum njóta sín við nýjar aðstæður.

Við fundum íbúð rétt við Römbluna í Santa Cruz. Honum leið vel þar. Oftast. Ekki alltaf. Oftast.

En honum leið betur en íslenzka velferðarsamfélagið hafði boðið honum upp á í hálfa öld. Rétt eins og mömmu.

Þegar hann kom sótti ég á flugvöllinn örmagna mann í hjólastól.

Í Santa Cruz hitti ég nýjan Guðna Má skömmu síðar. Glaðan. Hann byrjaði meiraðsegja að reykja pípu aftur.

Og hló heil ósköp.

Eftir áratuga basl í margvíslegum störfum – á eyrinni hjá Eimskip og á Kópavogshælinu, og eftir að Ríkisútvarpið sagði honum upp störfum, honum af öllum mönnum – gat Guðni Már loksins leyft sér það sem hann átti skilið: Hann keypti sér dúndur steríógræjur og alla þá tónlist sem hann langaði í.

Ó boj hvað þær græjur voru þandar. Ég er alveg einlægur aðdáandi Kinks, en hjálpi okkur hvað Guðni gat keyrt þessa hátalara í botn.

Svo keypti hann sér bíl í sumar – glæsilegan nýlegan Opel.

Við náðum aldrei að sitja saman í honum.

Því að loksins þegar Guðni Már Henningsson þurfti ekki lengur að hafa áhyggjur af næstu útborgun og afborgun, næstu greiðslu á leigunni, eða hvort hann gæti boðið Steinu litlu upp á snúð, þá dó hann.

Þegar streðinu var loksins lokið.

Þessar græjur og þetta plötusafn eru núna hérna í stofunni hjá mér. Það er einkar hlýlegt, en ekki einfalt.

Fleira var það nú ekki í bili.

K.

1,506