trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 05/08/2017

Verslunarmannahelgin í borginni

Fjörið byrjar í Árbæjarsafninu eftir lokun
þegar fólkið stefnir vestur á land
eða austur yfir heiði.

Húsin dusta af sér siðprýði og ryk.
Þau taka upp hljóðfæri og brosa.
Þau taka upp hald og dansa.

Meðan grunlaust fólk liggur í hjólhýsum á Flúðum
eða tjöldum í Stykkishólmi
slæðast í dansinn yfirgefin hús
úr nálægum hverfum.
Svo er dansað og valsað yfir túnin.

Jafnvel raðhúsalengja í Fossvogi
slítur sig af grunninum
og arkar af stað
til að bjóða Dillonshúsi upp.

Meðan nóttin er ung koma verkfæraskúrarnir
neðan af Höfða
tjúttandi yfir brúna.
Þeir vilja líka dansa. Þeir vilja tjútta og samba.

Og nóttin er ung og nóttin er alltaf að yngjast.
Húsin þau dansa og samba.
Húsin þau dansa og valsa og samba.

Loks fer að birta og vonandi kemur dagur.
Það ærir yfirgefinn pilt að horfa á húsin dansa.

Anton Helgi Jónsson (Tvífari gerir sig heimakominn, Mál og menning, 2014)

 

Flokkun : Ljóðið
1,316