trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 24/01/2018

Tómas 45 ára

það var á hádegi lífsins
er herðarnar duldi
glófextur makki
svo frjálslega vaxinn

og festa í fasi
minnti á skeiðhest
á húnvetnsku móti
haukfránum augum hvessti á
þanda görn gígju
og griptangir voldugar
gullslegna taktana skópu

og þá var sem hófaglamm bærist
frá fínlegum munni
fóturinn stæltur og
stöðugur fylgdi því eftir
og músík af blóði
bylgjaðist gegnum allt þingið

purpuri roðasteinn
pendúll

mönnum varð orðfall

hér er sá mættur
er magnar vinda úr austri
kólerískt algleymi
ræður öllu hans sinni

og nú hefur satúrnus silfrið
í vasa hans látið
og kvöldið er komið
þó enn segi ekkert af nóttu

æðið er enn þá
af æsku
í vessunum glaðværð
og nautnin er yfir öllu

af örlæti skenkir hann „Skeiðarvogsdrengurinn“ alltaf
hnyttni er fiskur sem fylgir
baráttumanni

Egill Ólafsson (á 45 ára afmæli Tómasar Magnúsar Tómassonar)

Flokkun : Ljóðið
1,371