Þegar lygin ein er eftir
Karl Th. Birgisson skrifar
Á milli sértrúarhægrimanna gengur nú tilvitnun í Stefán Einar Stefánsson, siðfræðiviðskiptablaðamann á Morgunblaðinu og fyrrverandi verkalýðshetju.
Hún er svona:
„Sum spilling þrífst fyrir opnum tjöldum og misnotkun á opinberu fé og stofnunum einnig. Enginn segir neitt. Það þykir t.d. ekkert nema eðlilegt að Fanney Birna Jónsdóttir, sem er ágætur þáttastjórnandi Silfursins, skuli tvívegis meðan á kórónufaraldrinum stendur, kalla Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans til viðtals í þættinum. Fyrst í upphafi þar sem honum var stillt upp á móti framkvæmdastjóra SA og svo í gær á móti blaðamanni á Fréttablaðinu.
En hví geri ég athugasemd við þetta. Fyrir því eru tvær skýringar. Í fyrsta lagi sú augljósa að Kjarninn er vefsíða sem hefur litla sem enga skírskotun í íslensku samfélagi. Lesturinn á miðlinum er svo lítill að eigendur hans þora ekki að birta mælingar á honum. Í öðru lagi er Fanney Birna, starfsmaður Ríkisútvarpsins, hluthafi í Kjarnanum líkt og fram kemur á heimasíðu Fjölmiðlanefndar. Um skamman tíma var hún einnig aðstoðarritstjóri vefsins.
Hún er með öðrum orðum að taka viðtöl við ritstjóra einkamiðils sem hún hefur sjálf hagsmuan að gæta gagnvart. Hvernig í ósköpunum getur það staðist hlutleysiskröfur þær sem gerðar eru til RÚV?
Þórður Snær er duglegri en nokkur annar Íslendingur um þessar mundir að benda á spillingu og það sem honum þykja vera alvarlegar brotalamir á samfélagsgerðinni. Af hverju sér hann ekki hversu sjúk þessi sena er? Taka mætti saman hvert aðgengi hans að Ríkisútvarpinu er, t.d. í vikulegum innslögum á Rás 1. Hvað veldur því að hið hlutlausa RÚV ýtir svo mjög undir Kjarnann sem engu máli skiptir þegar kemur að raunverulegri fréttaumfjöllun í landinu? Ætli það tengist stjórnmálaskoðunum þeim sem ritstjórinn og RÚV-fólkið deilir í ríkum mæli?“
Þetta eru merkileg ummæli fyrir ýmissa hluta sakir. Ætti Ríkisútvarpið til dæmis einungis að ræða við ritstjóra Vísis og Mbl.is, tvo mest lesnu vefi landsins? Eða jafnvel aðeins Mörtu smörtu, sem framleiðir jú vinsælasta efnið?
Kannske, eftir mælikvörðum blaðamannsins. En sennilega væri það ósanngjarnt gagnvart vedur.is, sem er sannarlega meðal þeirra sem landsmenn lesa oftast.
Það er náttúrlega hægt að hæðast að þessari endaleysu þangað til í næstu viku, en ég nenni því ekki. Og þykir hreint ekkert „sjúk sena“ þegar Stefán Einar birtist sjálfur í Silfrinu. Það er ákaflega fróðlegur gluggi inn í sálarlíf tiltekins hóps hægri manna, sem líður hreint ekki vel.
Þetta er hins vegar merkilegast við ummæli siðfræðiviðskiptablaðamanns Morgunblaðsins:
Þar er hvergi stakt orð um það sem Þórður Snær Júlíusson hefur fram að færa, sem er einmitt ástæða þess að hann er víða kallaður til álits og greiningar, og jafnvel þáttagerðar annars staðar en í Ríkisútvarpinu.
Ekki orð. Hví skyldi það nú vera?
Af því að Þórður Snær er einn allra bezti greinandi frétta og strauma í viðskipta- og efnahagslífi á okkar tímum. Hann nýtur þar áralangrar reynslu sem blaðamaður, þekkingar, skilnings og sambanda, og hann kann að setja atburði og vendingar í samhengi fyrir okkur hin.
Fyrir mína parta er hann iðulega alltof kurteis í ályktunum sínum, þegar stærri orð ættu við. En hann er yfirvegaður og málefnalegur. Það er sennilega skynsamleg afstaða.
Þrátt fyrir þetta – eða kannske einmitt af því að hann er svo yfirvegaður og málefnalegur – þá fer hann óendanlega mikið í taugarnar á tilteknum sértrúarsöfnuði. Af því að þeir geta ekki andmælt með rökum eða staðreyndum niðurstöðum sem koma æðstu prestunum ekki endilega alltaf vel.
Þar kom að söfnuðurinn fann ekkert ráð betra en að ljúga upp á Þórð Snæ og samstarfsfólk hans. Lygin fólst í því að erlendir kröfuhafar – hrægammarnir, muniði? – fjármögnuðu Kjarnann, sem væri þar með óþjóðhollur, gætti hagsmuna ósvífinna útlendinga, græfi undan hagsmunum almennings og svo framvegis. Eiginlega að Kjarninn og allt hans pakk væri þjóðníðingar á mála hjá útlendingum.
Svona nokkurn veginn ýkt frá sagt, en samt alls ekki.
Þessi furðulegheit virðst hafa þyrlazt fyrst upp í kollinum á Davíð Oddssyni eins og ýmislegt annað. Þaðan barst þessi veira til afsetts prófessors, sem tók að sér að dreifa henni og lét skattgreiðendur borga sér fyrir.
Prófessornum var ítrekað boðið að bera fram gögn, upplýsingar eða bara eitthvað – hvað sem væri – máli sínu til stuðnings. Hann neitaði og endurtók róginn.
Þar kom að Kjarnann brast þolinmæði og fjölmiðillinn kærði prófessorinn til siðanefndar háskólans.
Siðanefndin tók undir að prófessorinn hefði logið upp á Kjarnann og þar með brotið siðareglur, enda væri skylda í akademíunni að gæta að sannleikanum og verja hann. En lygin væri samt „ekki alvarleg“ og þess vegna yrðu engin eftirmál. Siðanefndinni var vorkunn – það þarf sennilega að hanna alveg sérstakan mælikvarða fyrir margvísleg brot þessa tiltekna prófessors í starfi.
Einhverjum kann að virðast þetta fornaldarsaga af því að hún gerðist fyrir fáeinum misserum. En þetta fróðlega innlit hér að ofan í sálarlíf siðfræðiviðskiptablaðamanns Morgunblaðsins staðfestir að þessar vofur eru á sveimi sem aldrei fyrr. Og þeim þykir þær eiga boðlegt erindi.
Eða hvers vegna sá blaðamaður Morgunblaðsins „sjúka senu“ í Silfrinu?
Af því að Þórður Snær Júlíusson var þar í viðtali. Yfirvegaður og málefnalegur.
Þá hrekkur söfnuðurinn af hjörunum. Ekki verða hissa þegar þeir byrja að ljúga aftur.
Karl Th. Birgisson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021