Það er stórt orð, meistaraverk, en hér er það sannarlega verðskuldað
Til er hugtakið „The Great American Novel“ um bandaríska skáldsögu sem fáist við stórsöguna þar í landi, segi hana jafnvel upp á nýtt, og fylgir sögunni að slíka bók gangi allir bandarískir höfundar með í maganum. Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason er þess háttar bók. Stóra sagan um okkur Íslendinga. Þetta er landnámsbók Hallgríms. Mér finnst hann ekki hafa ritað betri bók, hann birtist okkur hér í fullum blóma sem höfundur, með öllum sínum einkennum þaulræktuðum. Hann skrifar eins og skipstjóri í mokfiskiríi, og kemur með á land mörg tonn af spriklandi og glitrandi orðum. Hann skrifar sinn skrautgjarna skrúðstíl, þyrlar upp líkingum, togar og teygir orðin og ég veit að þau eru til sem finnst nóg um orðskrúðið. Ég hef aldrei verið í þeirra hópi og komið hefur fyrir að mér hefur fundist bækur hans gjalda fyrir of stranga klippara.
Sem fyrr eru gróteskar lýsingar fyrirferðamiklar – líkaminn og starfsemi hans og margvíslegir vessar – það er geysimikið sprænt í bókinni og hvarflar að manni að þegar höfundur viti ekki alveg hvað hann ætli að gera næst sendi hann menn út að pissa meðan hann hugsar sig um … Gróteskan gegnir hér hlutverki; við fáum hér Íslandssöguna svo að segja í nefið með öllum sínum fjölbreytilegu fýlum. En um leið getur höfundurinn vippað sér úr gróteskunni og í tragedíu af áreynsluleysi og þaðan farið með frásögnina yfir í fínlega kómedíu. Hér er komin stóra Síldarsagan sem Halldór skrifaði eiginlega aldrei – því Guðsgjafarþula er ekki slík bók, þó dásamleg sé – og þó að fyrirmyndin sé augljóslega Siglufjörður sá ég mitt fólk líka í þessari sögu – móðurfólkið mitt á Seyðisfirði, þar sem Nossararnir létu líka mjög að sér kveða, og fá nú síðbúnar þakkir í íslensku skáldverki. Loksins. Og íslenska Meinlokan fær hér ógleymanlegar senur þegar lýst er hatrammri andstöðu manna við síldveiðarnar og krónuhagkerfið og þrákelknislega tryggð við hinar fáránlegu hákarlaveiðar. Minnir á gjaldmiðilsumræðu okkar daga.
Það er mikið mannlíf á síðum bókarinnar. Eiginlega varð mér hugsað til Hamsuns og einhverra bóka eftir hann um tilurð svona plássa, eins og hér er lýst, og ég man ekki lengur hvað heita. Hér er persónugalleríið fjölbreytt og öllum helstu týpum til skila haldið en um leið verða þessir einstaklingar sérstakir og sérstæðir, hver með sín einkenni og örlög. Frásögn og fólk, stíll og framvinda – allt er hér gert af áreynsluleysi, sköpunargleði og næmi – og ást. Aldrei hefur Hallgrímur elskað persónur sínar heitar en hér í þessari bók, og kannski ræður það úrslitum um að honum hefur auðnast að skrifa meistaraverk, sem ég kvaddi með mildum trega hér á einhverju hótelherbergi einhvers staðar í útlöndum, og get ekki beðið eftir næstu fimmhundruð síðum í þessari miklu frásögn.
Guðmundur Andri Thorsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021