trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 05/07/2017

Sumarlesning Herðubreiðar (XV): Varnir gegn íslenzkum kommúnistum 1943

Eftir Jónas Jónsson frá Hriflu

Árið 1930 klufu leiðtogar kommúnista, Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson, Alþýðuflokkinn og mynduðu viðurkennda sérdeild í heimsbandalagi kommúnista undir alræðisstjórn Stalíns.

Jónas Jónsson frá Hriflu

Ekki var farið leynilega með þessa ráðagerð. Orðbragð og athafnir hins nýja flokks voru mjög í anda hinnar nýju stefnu. Áróðurslið nýju bolsevikkanna hafði stóryrði og illyrði á vörunum, hvenær sem á greindi um landsmál, þeir sönnuðu í hvívetna ótaminn hug sinn.

Þá máluðu áróðursmenn flokksins í Reykjavík hatursorð um Þýzkaland með rauðu letri á hafnargarð borgarinnar, rétt áður en þýzkt ferðamannaskip kom inn fyrir Engey. Um sama leyti máluðu þessir áróðursmenn, með rauðum lit, táknmerki Rússa á veggi Almannagjár. Önnur framkoma þessa flokks var mjög á sömu leið.

Liðu svo nokkur misseri að kommúnista-hreyfingin á Íslandi gerðist æ umsvifameiri eftir því sem tímar liðu. Ég varaði við hættunni, bæði með greinum í Tímanum og Samvinnunni og leiddi rök að því að áróðursmenn Sovétliðsins sýndu hvarvetna ósæmilegan áhuga með undirróðri sínum gegn borgaralegri stjórn á Íslandi. Þeim tókst að smeygja liði sínu, oft dulbúnu, inn í alla borgaraflokkana og einstök starfssambönd.

Þeim tókst að fá Eystein Jónsson og allmarga aðra samvinnuleiðtoga til að mynda sameiginlegt kaupfélag í Reykjavík. Þeir buðu einum helzta leiðtoga Alþýðuflokksins í Reykjavík, Héðni Valdimarssyni, að gera við þá algert landsmálabandalag, og tókst Stalínistum með þeim hætti að ná 700 verkamönnum til sín yfir flokkslandamærin. Þá tókst þeim að klófesta mikið herfang með launbandalagi við Ólaf Thors. Það var háskalegt áfall í verkamannafélögum landsins.

Forkólfar Morgunblaðsstefnunnar í verkamannafélögunum voru látnir gefa liðsmönnum bein fyrirmæli um að kjósa kommúnista í félögunum þegar svo væri fyrir mælt, til allra trúnaðarstarfa í samtökum verkamanna. Á þennan hátt myndaðist í mörgum verkamannafélögum landsins meirihluti sem tók skipunum frá háskalegu erlendu valdi.

Með þessum hætti var verklýðshreyfingin íslenzka lömuð og að nokkru leyti gerð óstarfhæf þegar mest lá við. Þetta var háskaleg þróun og fordæmalaus í öðrum lýðræðislöndum. Erlendis þverneituðu borgaraflokkarnir algjörlega öllum samstarfstengslum við Sovétliðið. Þetta kom glögglega fram í félagsmálum helztu menningarþjóðanna í Skandinavíu, Hollandi og öllum ríkjum Engilsaxa, hvar sem þau voru á hnettinum. Þessi stefna lýðræðismanna í öðrum löndum var byggð á þeirri ótvíræðu staðreynd að Sovéthreyfingin væri byltingaralda og óskyld stefnu manna í lýðræðislöndum.

Vorið 1943 héldu kaupfélagsmenn aðalfund sinn að Hólum í Hjaltadal. Ég var þar fundarmaður, en ekki fulltrúi.

Í fundarlok hafði öll sambandsstjórnin tal af mér áður en fundi var slitið. Vilhjálmur Þór hafði orð fyrir nefndinni. Sagði hann að stjórn Sambandsins væri fullkunnugt um að leynisamtök væru komin á milli Morgunblaðsmanna og Stalínista á Íslandi. Sagði Vilhjálmur að frá hálfu kommúnista væri óvild gegn samvinnufélögunum hættuleg.

Væri með þessum samtökum stefnt að því að gera bandalag um að koma á ríkisverzlun með alla búvöru landsins í kaupstöðum og kauptúnum. Hér væri stefnt að því stórræði að taka af samvinnubændum landsins alla framkvæmd um verzlun með kjöt og það sem fornmenn kölluðu hvíta vöru.

Nú var það ráð Sambandsstjórnar að hefja varnarráð móti þessari aðsteðjandi hættu. Var ég beðinn að stýra áróðursherferðinni með fundum og prentuðu máli. Buðu leiðtogar SÍS mér að stækka í þessu skyni Samvinnuna svo að hún gæti náð til allra landsmanna. Var mér heitið fjárstyrk til að standast aukinn fjárkostnað og fá ritfæra aðstoðarmenn til starfa. Ég var ekki vanur að neita stallbræðrum mínum í Sambandinu um aðstoð ef ég gat veitt þeim liðsemd og svo fór enn.

Nú var brugðið skjótt við. Ég fékk gáfaðasta og ritfærasta mann, sem völ var á, Jón Eyþórsson veðurfræðing, til að verða meðritstjóra við Samvinnuna, meðan stæði á þessari hríð. Veitti hann mér mikla hjálp í þessu efni. Kaupendum Samvinnunnar fjölgaði, svo að þeir urðu fljótlega 8 þúsund. Áhugi varð mikill og góð skil á andvirði tímaritsins, svo að ekki varð betra á kosið.

Íslenzkum Sovétmönnum brá heldur í brún þegar Samvinnan byrjaði að skýra eðli aðsteðjandi hættu og hóf sókn gegn hernaði þeirra. Byrjuðu þeir þá nokkrar hefndarráðstafanir. Þá var brugðið á kaupfélagsfundi í Reykjavík og felldir frá fulltrúastörfum, fyrir félagsins hönd, allir leiðtogar Framsóknarmanna, sem áður þóttu gjaldgengir til að gæta hagsmuna félagsins út á við. Eysteinn Jónsson varð fyrstur manna fyrir þessu vantrausti og allir aðrir samvinnumenn sem treyst höfðu á vináttu Sovétmanna í kaupfélaginu.

Baráttunni við Sovétliðið og bandamenn þess, kaupmannaforingjana, var brátt snúið úr vörn í sókn og svo kreppt að liðsmönnum Stalíns að þeir afneituðu opinberlega fyrri ráðagerðum sínum um að þjóðnýta alla búvöru. […]


(Samferðamenn – minningaþættir, Bókaforlag Odds Björnssonar, 1970. Greinaskilum hefur verið breytt til að auðvelda tölvulestur.)

1,377