trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 29/03/2014

Sex röng viðbrögð við því þegar einhver afþakkar áfengi

Nýlega fagnaði ég því að hafa verið án áfengis í níu ár.

Á þessum tíma hef ég rekið mig á að sumum finnst vandræðalegt þegar þeir eru úti á lífinu eða á samkomum þar sem áfengi er haft um hönd og átta sig skyndilega á því að ég kýs að neyta ekki áfengis.

Viðbrögð fólks við þeirri uppgötvun eru af ýmsum toga og sum mjög klaufaleg.

Þess vegna set ég þessar leiðbeiningar niður á blað.

Mig langar ekki að gera lítið úr fólki sem ræður við að neyta áfengis sér og öðrum skaðlausu og hefur ekki þurft að kynna sér eðli alkóhólisma.

Það eina sem fyrir mér vakir er að sýna fólki, sem drekkur áfengi og er fáfrótt um alkóhólisma, í mestu vinsemd og kurteisi hvernig það, sem því finnst vera eðlileg og sjálfsögð viðbrögð, getur komið hinum allsgáða fyrir sjónir.

Hér eru því sex setningar sem ætti að forðast að láta út úr sér sem viðbrögð við því þegar einhver afþakkar áfengi og stuttar útskýringar á ástæðum þess.

1. Af hverju ekki? 

Ótrúlega oft eru þetta fyrstu viðbrögðin.

Hreinskilnasta svarið er auðvitað: „Það kemur þér ekki við.“

En þar sem hinn allsgáði vill sennilega ekki vera með dónaskap, þar sem verið var að sýna honum kurteisi, er líklegt að hann komi með eitthvað yfirborðskennt svar sem, þegar öllu er á botninn hvolft, veitir ekki aðrar upplýsingar en þær að það sé ákvörðun sem hann hafi á sínum tíma talið sig hafa ástæðu til að taka.

Svar sem m.ö.o. liggur í augum uppi hvort sem er og því er algjör óþarfi að spyrja til að byrja með.

Ef viðmælandann langar að tala um þetta er eðilegt að leyfa honum að hafa frumkvæðið að því sjálfur. En hafðu í huga að óvirkur alkóhólisti, sem finnur hjá sér þörf til að ræða alkóhólisma sinn, velur sennilega ekki Ölstofu Kormáks & Skjaldar á föstudagskvöldi til þess.

Það ætti reyndar líka að segja sig sjálft.

Staðreyndin er sú að alkóhólisminn hefur litað og eitrað líf alkóhólistans á ótal vegu á flestum sviðum áður hann tekur þá ákvörðun að hætta. Yfirleitt hefur hann upplifað ýmsar aumkvunarverðar niðurlægingar sem hann er ekki að fara út á lífið til að rifja upp.

Ef þetta er ekki náinn vinur sem er að trúa þér fyrir því í fyrsta sinn að hann sé hættur að drekka á þessi spurning því engan rétt á sér.

Svo ekki sé nú minnst á að vel gæti verið að viðkomandi afþakki áfengi af öðrum ástæðum sem jafnvel eru enn viðkvæmari. Kannski er þetta barnshafandi kona, sem ekki hefur enn sagt frá þungun sinni. Kannski þarf viðkomandi einstaklingur að nota geðlyf, sem glata virkni ef áfengis er neytt með þeim.

Spurningin: „Af hverju drekkurðu ekki áfengi?“ er þess vegna oft mun nærgöngulli en líklegt er að þú gerir þér grein fyrir. Undir vissum kringumstæðum getur einfaldlega verið sársaukafullt að svara henni af einlægni og heiðarleika.

Það eitt að afþakka áfengi skyldar engan til að veita aðgang að sjúkrasögu sinni eða viðkvæmum persónulegum upplýsingum.

En fyrst og fremst er það þó einföld rökfræði að enga ástæðu á að þurfa til að gera eitthvað EKKI.

2. Þú varst nú ekki það slæm(ur) 

Þetta hef ég heyrt ótrúlega oft hjá fólki sem taldi sig þekkja mig af því að það hitti mig stundum í glasi um helgar. Oft hitti þetta fólk mig reyndar líka undir morgun, en þá var ástandið á því sjálfu yfirleitt þannig að það man ekki eða tók ekki eftir því hvernig ástandið var á mér þá.

Býst þetta fólk virkilega við svarinu: „Ó, var ég það ekki? Þetta hefur þá greinilega verið einhver ímyndun í mér. Kannski að ég láti þá einn mojito eftir mér. Auðvitað veist þú betur en ég sjálfur hve slæmur ég var.“?

Aftur umbúðalaust og hreinskilið svar: „Hvað þykist þú vita um það?“

Staðreyndin er auðvitað sú að sá sem sér ástæðu til að snúa lífi sínu við, koma út úr skápnum sem alkóhólisti og temja sér nýja og heilbrigðari lífshætti var nógu slæmur til þess. Að sínu eigin mati. Og það er eina matið sem skiptir máli.

Þitt mat, sem er persónulegt, huglægt mat utanaðkomandi einstaklings, sem á engra hagsmuna að gæta og er auk þess mjög sennilega byggt á afar takmörkuðu magni upplýsinga, oftar en ekki reynslu þinni af spariandliti alkóhólistans mun fremur en dæmigerðri, daglegri líðan hans í neyslu, er nákvæmlega einskis virði.

Þú veist ekkert um það hvernig alkóhólistanum leið á virkum morgnum, ekkert um sjálfhatrið, ónytjungskenndina og kvíðann sem gegnsýrði líf hans. Þú veist ekkert um angist hans yfir því að upplifa sjálfan sig vanheilan á geði þegar hann stóð sig ítrekað að því að breyta gegn betri vitund og hafa ekki nógu góða stjórn á hugsun sinni til að geta tekið einföldustu ákvarðanir af lágmarksskynsemi, s.s. hvort eigi að drekka, hvað, hve mikið, hvar, með hverjum og hvar skynsamlegt sé að leggjast til svefns að því loknu.

Þú getur treyst því að sá sem ákveður að hætta að drekka var nógu slæmur til að það hafi verið skynsamlegasta ákvörðunin sem hann hafði tekið í langan tíma.

3. Sjálf(ur) drekk ég aðeins … o.s.frv.

Mjög oft fer fólk að ræða sína eigin drykkju og hve lítil hún sé í raun og veru þegar maður afþakkar áfengi í félagsskap þess.

Í fullri hreinskilni: Ég hef engan áhuga á drykkjusögu þinni eða neyslumynstri.

Ef þig langar að hætta og biður mig um hjálp gæti það hjálpað mér að hjálpa þér að þekkja hana. Annars skaltu láta það eiga sig að gefa mér nákvæma skýrslu um hve sjaldan þú drekkur, undir hvaða kringumstæðum, hve lítið í einu og af hverju þú dregur af því þá ályktun að sjálfur hafir þú fulla stjórn á þessu.

Ef þú finnur hjá þér hvöt til að afsaka þína eigin drykkju þegar þú stendur frammi fyrir einhverjum, sem afþakkar áfengi, er kannski ástæða fyrir þig að fara að hugsa þinn gang. Ef þú ert með slíkt undirliggjandi samviskubit vegna drykkjunnar að þú upplifir þá einföldu og sjálfsögðu ákvörðun að neyta ekki áfengis sem ásökun á þig með þeim afleiðingum að óumbeðinn farirðu að gera grein fyrir drykkju þinni að fyrra bragði og réttlæta hana … þá er neysla þín einfaldlega ekki í lagi, sama hve vel þú getur rökstutt fyrir þér og viðmælanda þínum að hún sé það. Það eitt að þú sért fær um það og þér finnist það ekki með öllu út í hött ætti að duga til að kveikja aðvörunarljós.

Hugsanlega drekkurðu ekki mikið, en þú gætir þurft að endurskoða viðhorf þín til áfengis.

Eða værirðu kannski óundirbúið fær um að gefa jafnítarlega skýrslu um neyslu þína á grænum baunum?

Þetta er náttúrlega ekki sambærilegt, ég veit það.

Enginn er með huglæga þráhyggju gagnvart grænum baunum.

4. Alkóhólismi er ekki sjúkdómur …

Margir hafa sterkar skoðanir á alkóhólisma.

Sjálfur hef ég enga menntun á sviði heilbrigðisvísinda og veit því ekki hverjar hinar fræðilegu skilgreiningar á sjúkdómi, geðrænu vandamáli, heilkenni eða öðrum skyldum hugtökum eru. Ég veit það eitt að sjálfur hafði ég hvorki stjórn á neyslu minni né lífi og andlegri líðan.

Vera má að alkóhólismi standist ekki vísindalegar skilgreiningar á því hvernig rétt sé að nota sjúkdómshugtakið. Mér finnst það reyndar ekkert sérlega áhugavert umræðuefni, en ef þú ert sérfræðingur á þessu sviði og getur fært fyrir því haldbær rök að svo sé þannig að það sé á færi leikmanns að skilja þau án þess að hann „sóni út“ þá gjörðu svo vel. Sjálfur dett ég stundum í að ræða mitt sérsvið, guðfræði, án þess að allir viðstaddra hafi endilega sýnt brennandi áhuga á því.

En ef þú ert bara einhver gúbbi úti í bæ sem er raunverulega þeirrar skoðunar að alkóhólismi sé aðeins aumingjaskapur og röð rangra ákvarðana fólks sem gæti ákveðið að hætta þessu ef það bara vildi þá geturðu étið skít. Þú ert að tala við mann sem veit betur.

Að viðra þessa skoðun við alkóhólista jafngildir því að hrækja framan í hann og míga síðan á gröf vina hans sem áfengissýkin kostaði lífið.

Jú, auðvitað á alkóhólisti alltaf það val að drekka ekki. Þunglyndissjúklingur á líka það val að vera bara pínulítið hress. Gallinn er að enginn í þessu hugarástandi er andlega fær um að velja það.

Eða heldurðu í raun að það sé svo gott og auðvelt líf að að vera langt leiddur fíkill og þurfa að framfleyta sér með glæpum, jafnvel vændi, til að eiga fyrir næsta fixi að fólk, sem hefur stjórn á lífi sínu og ákvörðunum, velji það að ígrunduðu máli frekar en að vinna frá níu til fimm og búa við tekjuöryggi? Að það sé draumalíf hins sérhlífna letingja? Heldurðu virkilega að dópistinn geti í raun og veru staðið upp hvenær sem hann kýs og farið að lifa eðlilegu líf eins og ekkert hafi ískorist, en hann bara hafi ekki döngun í sér til þess af því að lífið er svo ljúft og gott í greninu?

Fíkn er einfaldlega sterkasta afl sem mannskepnan getur staðið frammi fyrir. Hún sviptir manninn öllum ráðstöfunarrétti yfir lífi sínu og ákvörðunum. Sumir halda ranglega að móðurástin sé sterkasta aflið, en það er kjaftæði. Það þarf ekki að feta bataveginn lengi til að heyra allmargar hryllingssögur af því hvað gerist þegar móðurástin mætir fíkninni.

Hún á ekki séns.

5. Einn bjór skaðar þig  varla

Þessi viðbrögð eru að vissu leyti eðlileg ef maður veit ekkert um alkóhólisma.

En þessi fullyrðing er alröng.

Einn bjór gerir mig að vísu ekki fullan, en hann dugar til að kveikja fíknina og í heljargreipar hennar langar mig ekki aftur.

Það er einfaldlega ekkert til sem heitir einn bjór í mínu lífi. Ég hef aldrei á æfi minni getað drukkið einn bjór og tel mér ekki trú um að ég sé orðinn fær um það núna. Einn bjór er ekki bjór, hann er sýnishorn af bjór. Einn bjór gerir það sama fyrir mig og það gerir svöngum manni að finna matarlykt. Jafnvel á meðan ég drakk afþakkaði ég einn bjór ef ljóst var að nokkrir í viðbót væru ekki í boði.

Eldspýta er ekki skógareldur, en það þarf ekki nema eina eldspýtu til að koma af stað skógareldi.

Hugsanlega er það rétt að einn bjór skaði mig ekki. En af hverju ætti ég að taka þá áhættu? Af því að hann er svo góður á bragðið?

6. En langar þig samt ekki í? 

Það er eðlilegt að velta þessu fyrir sér. Alkóhólistar eru einmitt gjarnan sýndir í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem einstaklingar sem stöðugt eru að glíma við fíkn og ekki þarf nema eitthvað smáræði til að ýta yfir brúnina.

Auðvitað þurfa alkóhólistar að bíta á jaxlinn, kreppa hnefana og taka á öllu sem þeir eiga til til að verða allsgáðir. Margir alkóhólistar, þeir sem ekki hafa verið edrú lengi eða eru af einhverjum ástæðum í slæmum málum, finna auðvitað fyrir löngun í þá róandi slökun sem hlýst af fyrstu sopunum sem þeir sjá að aðrir njóta áfallalaust. Þeir ættu ekki að vera staddir þar sem vín er haft um hönd. Hausinn getur farið af stað og selt þeim arfavitlausar hugmyndir.

Þessi spurning getur vissulega lýst einlægum áhuga á eðli alkóhólisma og bata frá honum. En ef þannig er komið fyrir alkóhólistanum að svarið við henni er já, getur verið hættulegt að spyrja hennar, einkum ef alkóhólistinn svarar heiðarlega.

Af hverju þá að spyrja? Myndirðu spyrja hvort hann langaði ekki í salthnetur ef hann hefði afþakkað þær? Eða hefðirðu þá treyst því að hann væri búinn að gera það upp við sig hvað hann langaði í og hvað hann langaði ekki í?

Málið er einfalt: Enginn alkóhólisti helst edrú árum saman ef hann er stöðugt að glíma við löngun í áfengi. Bati frá alkóhólisma er ekki fólginn í viljastyrk til að ráða við löngunina. Hann er í því fólginn að vera laus við hana.

Bati frá alkóhólisma lýsir sér ekki í lífi án áfengis heldur í lífi án fíknar.

Nei, takk. Mig langar ekki í.

En hvað á ég þá að segja?

Svar: Það nákvæmlega sama og þú myndir segja ef hann hefði þegið bjórinn sem þú bauðst honum.

Hefðirðu farið að gefa honum skýrslu um áfengisneyslu þína?

Hefðirðu véfengt að hann langaði raunverulega í bjórinn?

Hefðirðu spurt hann um ástæður þess að hann þáði hann?

Ég hélt ekki.

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,394