trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 02/07/2019

Okkar minnstu systur

Guðspjall: Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir. Svo var þér þóknanlegt. … Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt.11.25-26, 28)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag talar Jesús við okkur um hyggindamenn og smælingja, um það hvernig sannleikurinn er þeim fyrrnefndu lokuð bók þrátt fyrir öll hyggindi þeirra og visku á meðan aðgangur smælingjanna að honum er óheftur.

Og ég fór að hugsa um smælingjana mitt á meðal okkar. Hverjir eru þeir? Hvar eru þeir? Hvaða þunga eru þeir hlaðnir? Berum við kennsl á þá? Eða finnst okkur betra að teikna þá upp sem eitthvað annað en smælingja … af því að það leggur skyldur á herðar okkar gagnvart þeim. Og skyldur eru bögg. Það er miklu þægilegra að líta á smælingjann sem geranda í sinni eigin neyð og góð tilfinning að finna hvað maður sjálfur er miklu betri og merkilegri manneskja en hann að hafa ekki með stjórnleysi og vondum ákvörðunum kallað yfir sig sams konar neyð.

Mér varð nefnilega hugsað til umræðu sem geysaði í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum nú síðla veturs og snerist um frumvarp til laga um þungunarrof. Mánuður er síðan frumvarpið var samþykkt og allt virðist vera dottið í dúnalogn um þetta viðkvæma málefni, sem varla nokkur maður virtist vera svo laus við hyggindi að hann vissi ekki allt um fyrir aðeins mánuði síðan.

Kannski er því fullseint að leggja orð í belg núna. Enginn hefur áhuga á þessu lengur, málið er afgreitt og ný dægurþrös hafa skotið upp kollinum sem miklu meira sport er í að bítast um.

En kannski er þetta einmitt fyrir vikið rétti tíminn til að tala um þetta. Rykið er sest. Hægt er að leggja mat á hvað stendur upp úr þegar litið er um öxl og hverju gnýrinn af því sem upp úr stendur drekkti.

Þegar umræðan stóð sem hæst ákvað ég með sjálfum mér að það færi betur á því að ég opnaði eyrun og hjartað heldur en munninn. En nú þegar málið er í höfn og riddarar réttlætisins hafa fundið sér ný hneykslunarefni langar mig að greina frá því sem eyru mín og hjarta námu. Ekki síst af því að það varðar smælingjana meðal okkar.

Staðreyndir málsins

Frumvarpið var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 18 og þrír sátu hjá.

Einhvern veginn fannst mér samt eins og þessi átján og jásystkin þeirra einokuðu nánast alla umræðuna. Miklu meira heyrðist í þeim en rúmlega tvöfalt stærri þingmeirihluta og þeim sem voru á hans bandi.

En hvað fól svo þetta frumvarp í sér?

Jú, yfirráðarétt kvenna yfir sínum eigin líkama og örlögum. Ekkert annað.

Í eldri lögunum var kveðið á um að þungunarrof skyldi helst ekki framkvæma eftir lok tólftu viku meðgöngutímans og aldrei síðar en eftir þá sextándu nema fyrir hendi væru „ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu eða að miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs,“ eins og segir í þeim. Samkvæmt gömlu lögunum var heimilt að binda enda á meðgöngu fram í 22. viku ef ljóst þótti að þetta ætti við.

Það var því ekki, öfugt við það sem ætla mætti af þeim sem hæst höfðu, verið að framlengja þennan tíma. Aðeins var verið að gefa konunni fullt leyfi til að kjósa sjálf að fara í slíka aðgerð án þess að hún þyrfti til þess að hafa leyfi frá nefnd hyggindimanna sem féllst á að ástæður hennar væru lögmætar. Áfram verður miðað við að þungunarrof skuli helst framkvæma fyrir tólftu viku.

Það hefði mátt halda, hefði aðeins verið hlustað á þá sem tóku umræðuna herskildi, að frumvarpið gerði ráð fyrir því að framvegis yrði beðið með allar slíkar aðgerðir fram í 22. viku. Eða að barnshafandi konur konur myndu upp til hópa taka þá ákvörðun í bríaríi í 21. viku meðgöngu að streyma í þungunarrofsaðgerðir bara af því að þær mega það eða eru upp til hópa svo eigingjarnar og vondar að nenna ekki að eiga börn og verður það ekki ljóst fyrr en svona seint.

Reynslan í öðrum löndum, sem stigið hafa þetta sama skref á undan okkur, sýnir að þungunarrof er að jafnaði ekki framkvæmt síðar en áður, þótt lögum hafi verið breytt á þá lund sem hér um ræðir.

Hvaða konur eru þetta?

Ég saknaði þess að staldrað væri við og spurt: „Hvaða konur eru þetta? Hverjar eru ástæður þeirra fyrir að fara svo seint í þungunarrof?“

Veltum því aðeins fyrir okkur.

Hvaða konur eru þetta?

Þetta er konan sem í 20 vikna sónar fær þær hræðilegu fréttir að eitthvað svo alvarlegt sé að fóstrinu að lifi það af meðgönguna og fæðinguna bíði þess aðeins þjáning og sársauki og kvalafullur dauðdagi eftir fáa daga eða vikur utan móðurkviðar.

Þetta er konan í ofbeldissambandinu sem er að berjast fyrir frelsi frá kvalara sínum, fyrir lífi sínu og mannlegri reisn.

Þetta er fársjúkur fíkill sem farið hefur svo illa með líkama sinn og heila að hún gerir sér ekki grein fyrir því hvernig ástatt er fyrir henni fyrr en seint og um síðir, er þá sennilega búin að stórskaða fóstrið með líferni sínu og er þjökuð af sektarkennd.

Þetta er misnotaða unglingsstúlkan sem þorði ekki að segja frá og sannleikurinn komst ekki upp fyrir en hún gat ekki leynt því lengur hvernig ástatt var fyrir henni.

Þetta er unglingsstúlkan sem hljóp á sig og þorði ekki að segja frá af ótta við viðbrögðin og gat ekki horfst í augu við sannleikann fyrr en hann varð ekki umflúinn lengur.

Þetta eru með öðrum orðum okkar minnstu systur.

Ef Jesús kæmi til okkar núna er þetta nokkurn veginn gestalistinn yfir þá sem kallaðir yrðu að jötunni.

Kona sem fer í þungunarrof eftir að meðgangan er hálfnuð er syrgjandi. Hún er að glíma við sáran harm. Kona sem fer í þungunarrof eftir að meðgangan er hálfnuð er kona í mikilli neyð. Kona sem þarf hjálp.

Hvernig eiga kristnar manneskjur að koma fram við syrgjendur? Hvernig eiga kristnar manneskjur að bregðast við þegar náunginn er í neyð?

Þeirri spurningu er svo auðsvarað að óþarfi er að eyða í það orðum.

Yfirvarp kristilegs kærleika

Samt var það nú svo þegar þetta mál bar á góma að margir sáu ástæðu til að tala fjálglega um virðingu sína fyrir lífinu og hinum ófæddu undir yfirvarpi einhvers sem að þeirra eigin mati var kristilegur kærleikur, en tókst samt í öllu því geipi að vera gjörsamlega staurblindir á hinn harmi lostna syrgjanda og neyð hins þjáða sem málið þó beinlínis snerist um. Og það grátlega er að upp til hópa var þetta sama fólk og vill að sem minnst sé gert til að sporna gegn því að okkar minnstu systur lendi í þessum harmi og neyð til að byrja með. Fólk sem þykist vera á bandi lífsins en er í raun aðeins á bandi fæðingarinnar og gæti ekki staðið meira á sama um líf hins fædda barns, allra síst ef það lendir nú í því að verða landflótta vegna styrjaldarástands heima fyrir eða lendir á refilstigum vegna bágra heimilisaðstæðna.

Þau sjónarmið sem ég er hér að viðra heyrðust vissulega í umræðunni, ég er fráleitt að segja eitthvað sem enginn hefur bent á. En þessi viðhorf drukknuðu að mínu mati – illu heilli – í tilfinningaþrungnum orðaflaumi sem allt of oft var gersneyddur allri aðgát í nærveru sálar.

Auðvitað er enginn hlynntur þungunarrofi í sjálfu sér og sá sem hér stendur ekki heldur. Það er aldrei ánægjulegur eða gleðilegur atburður.

En við berjumst ekki gegn því með boðum og bönnum sem eru til þess fallin að beina konum í neyð í hendurnar á fúskurum með vírherðatré að verkfærum í illa þrifnum bakherbergjum. Við berjumst gegn því með því að berjast fyrir samfélagi þar sem engin kona þarf að örvænta um framtíð sína eða barnsins síns þótt hún verði barnshafandi án þess að hafa ráðgert það. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem engri konu líður eins og hún þurfi að kaupa sér virðingu eða samþykki, hvorki annarra né sjálfrar sín, með hætti sem leitt getur til óvelkominnar þungunar. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem kynfræðsla er sjálfsagður hlutur og fjallar ekki bara um kynsjúkdóma og æxlunarlíffræði heldur um félagslega og sálfræðilega þætti líka, sjálfsvirðingu, virðingu fyrir náunganum og ábyrgð á eigin hegðun. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem ofbeldi er svo fyrirlitið og langt frá því að vera liðið að engin kona verður þunguð í kjölfar ofbeldisverknaðar. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem allar leiðir eru galopnar til að stöðva misnotkun samstundis.

Við berjumst gegn þungunarrofi með því að berjast gegn þörfinni fyrir það, gegn samfélagi þar sem það er nauðsyn – eins og raunin er meðal okkar.

Við gerum það ekki með því að berjast gegn yfirráðarétti kvenna í neyð yfir líkama sínum. Við gerum það ekki með því að berjast gegn því að okkar minnstu systur geti tekið veigamiklar ákvarðanir um örlög sín án þess að hafa til þess leyfi frá sérfræðingum eða öðrum lögformlega tilskipuðum hyggindamönnum.

Kirkjan sem athvarf

Kirkja á að vera athvarf fyrir syrgjendur. Þar eiga þeir að geta treyst því að þeir séu ekki ósýnilegir og mæti aðeins opnum faðmi fullum af kærleika og hlýju, ekki dómhörku og skilningsleysi.

Það nísti því hjarta mitt að heyra hvernig sumir töluðu undir formerkjum kristindómsins í aðdraganda þess að frumvarpið, sem um ræðir, var samþykkt. Ég efast ekki um að þau orð hafi öll verið vel meint og mælt af hjartans einlægri trú. En þeirri trú varð það því miður á, að mínum dómi, að láta samúð með ófullburða fóstri má tilvist syrgjandans burt úr dæmi þar sem neyð hans og harmur hefði alltaf átt að vera í brennidepli. Um slíkt má kirkja aldrei gerast sek. Að minnsta kosti kæri ég mig ekki um að þjóna þannig kirkju.

Ég vil þjóna kirkju sem þeir, sem erfiða og þunga eru hlaðnir, þeir sem glíma við sáran harm og bera þungar sorgir, geta leitað til og treyst því að þar verði leitast við af hjartans einlægri trú að veita þeim hvíld.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 23. júní 2019

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,520