Ódýr orð?
Opinber stofnun, sem vafalaust vinnur samkvæmt gildandi lögum, hefur vísað tveimur fjölskyldum úr landi. Þær samanstanda af tveimur einstæðum foreldrum og fjórum börnum og hafa dvalið hér í marga mánuði, börnin gengið í skóla og eignast félaga og vini. Þeim líður vel hérlendis. En. Nú stendur til að senda börnin og foreldra þeirra til Grikklands. Þar fara þau í búðir sem ekki eru mönnum bjóðandi.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um flóttafólk. Samkvæmt Kjarnanum í dag, 04.07.´19, segir þar:
„Aldrei hafa fleiri verið á flótta vegna stríðsátaka, ofsókna og umhverfisvár. Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum. Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verða lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verður tryggð samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd.”
Það þarf ekki háskólagráðu til þess að átta sig á því hvað í þessum orðum felst. Og ekki heldur í eftirfarandi flokksráðssamþykkt Vinstri grænna, sem sitja í forsæti ríkisstjórnarinnar: Þar er þetta samkvæmt Kjarnanum:
“[…]Mikilvægt er að tryggja að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd búi við ásættanlegar aðstæður og fái fljótt inni í skóla, á meðan mál fjölskyldunnar bíður afgreiðslu. Sérstaklega er mikilvægt að standa betur að móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.”
Þetta hvort tveggja munu mörg okkar hafa í huga í mótmælagöngu í dag vegna þeirrar ákvörðunar að vísa áðurnefndum tveimur fjölskyldum í ömurleika flóttamannabúðanna. Einhverjir göngumenn munu þó hanga í þeirri von að ráðamenn lesi sínar eigin samþykktir, standi við sín dýru orð, grípi inn í þegar í stað og komi í veg fyrir brottflutning flóttabarnanna og búi svo um hnútana að ekki komi nokkru sinni til svo miskunnarlausrar meðferðar á fólki hérlendis.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020