trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 01/04/2014

NOOOO!!! AAAHH!!

(Varúð! Inniheldur spilliefni (e. spoilers))

Það getur komið fyrir besta fólk að fá vondar hugmyndir. Það getur jafnvel komið fyrir besta fólk að verða það á hrinda þeim í framkvæmd. Það getur meira að segja komið fyrir besta fólk að festast svo í einhverju hópeflishugarfari utan um verkefni sem er öllum svo hjartfólgið og allir eru með nefið svo langt ofan í að enginn sér að það, sem verið er að gera, er fullkomlega afleitt.

Það ótrúlega er að heil Hollywoodmynd, sem hundruð manna koma að á hinum ýmsu stigum og morði fjár þarf að dæla í til að líti dagsins ljós, skuli hafa komist alla leið á hvíta tjaldið án þess svo virðist sem nokkurn tímann í ferlinu hafi einhver með völd og vit staðið upp, sett hnefann í borðið og sagt: „Halló! Sér enginn að það sem hér er verið að búa til er óþverri?”

Þannig er því aftur á móti farið með kvikmyndina Noah.

Hún er vond.

Hún er reyndar alveg ólýsanlega vond. Hún er heimskuleg, ófrumleg, tilgerðarleg og það sem verst er … hundleiðinleg. Rétt er að taka fram að ég hef gaman af biblíumyndum, stórslysamyndum og skrímslamyndum. Noah er þetta allt. En það er sama undir hvern þessara „sjanra“ við setjum hana. Hún verður alltaf í hópi þess versta sem gert hefur verið á því sviði.

Það eina góða sem hægt er að segja um kvikmyndina Noah (fyrir utan að stiklan um nýju Godzilla-myndina er sýnd á undan henni) er að handritshöfundarnir hafa greinilega lagst í pælingar og grúsk í kring um hinn takmarkaða texta Gamla testamentins um syndaflóðið. Þessum mikla atburði eru í raun gerð ótrúlega knöpp skil í bókinni (1Mós 6.5-9.17).

Illu heilli byrjuðu handritshöfundarnir þó ekki á að lesa 1Mós 6.5 heldur einu versi fyrr, 1Mós 6.4, þar sem segir: „Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni og einnig síðar er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og eignuðust með þeim börn. Það voru hetjurnar sem í fyrndinni voru víðfrægar.“

Handritshöfundar Noah eru fráleitt þeir fyrstu til að glíma við þennan texta og bíða afhroð fyrir honum. Í þeim hópi má einnig finna svissneska loddarann Erich von Däniken. Á meðan von Däniken sá í þessum texta vitnisburð fornaldar um geimverur okkar á meðal sjá handritshöfundar Noah aftur á móti af einhverjum ástæðum hraunmola í mannsmynd haltrandi um eins og farlama gamalmenni. Vart má á milli sjá hvort er langsóttara.

Handritshöfundunum til varnar er rétt að fram komi að þeir spinna sína túlkun augljóslega út frá Bók varðenglanna, apókrýfu opinberunarriti sem líklega er ritað á 3. öld f.Kr. og byggir á þessu textaknippi. Þar segir frá því þegar leiðtogi varðenglanna, Shemihazah, taldi tvöhundruð engla á að hunsa fyrirmæli Guðs og hafa mök við mennskar konur. Saman við þá frásögn tvinnast sagan af Azazel erkiengli sem syndgaði með því að kenna mönnunum að vinna málm, með þeim afleiðingum að karlar tóku að gera sér vopn og konur að skreyta sig með gulli, silfri og skartgripum. Þannig stuðluðu föllnu englarnir að ofbeldi, græðgi og losta meðal mannanna. Í beinu framhaldi af þessum lestri hafa handritshöfundarnir síðan rekist á nafnið Túbal-Kaín í ættartölu Kaínsniðja í 1Mós 4.22 þar sem segir að hann hafi smíðað „hvers kyns verkfæri úr eir og járni“ og bingó! Illmenni kvikmyndarinnar var fundið.

Þessi texti í Fyrstu Mósebók er reyndar afar torráðinn. Gyðingleg apókalyptík túlkaði „syni Guðs“ sem engla, en úgarítískir textar benda til þess að orðasambandið geti ekki síður átt við konunga. Ýmis vers Sálmanna styðja þá túlkun (s.s. Slm 2.7). Staðsetning þessa texta strax á undan frásögninni af syndaflóðinu segir ef til vill meira um siðleysið, sem honum er ætlað að lýsa, en hægt er að ráða úr orðanna hljóðan einni saman nú á dögum. Það hve langt guðkonungar musterisveldanna gengu í að svala físnum sínum með „Evudætrum“ hafi verið kornið sem fyllti mælinn hjá Guði.

(„Sonur Guðs“ er síðan auðvitað einn konungstitill af mörgum sem Jesús frá Nasaret er skreyttur með í Nýja testamentinu ásamt titlum á borð við „hinn smurði“ (sem jafngildir því að merkja „hinn krýndi“ og er „mashiah“ (messías) á hebresku en „christos“ (kristur) á grísku), „sonur Davíðs“ og „mannssonurinn“. Hin líffræðilega túlkun orðasambandsins leiddi síðan af sér hugmyndina um meyfæðinguna og eingetninguna sem augljóslega þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að púkka undir hellenískan dúalisma og efnisfyrirlitingu, sem gegnsýrði trúarlega og heimspekilega hugsun þessara tíma, en er ekki bara fullkomlega ónauðsynleg til að boðskapur Jesú frá Nasaret fái staðist heldur má færa rök fyrir því að hún þvælist beinlínis fyrir honum. En þetta var útúrdúr og er allt önnur guðfræðipæling.)

Aftur að Noah.

Kvikmyndin gerist í vistkerfi sem er að hruni komið vegna ágangs vondra manna í „zohar“. („Zohar“ er hebreskt orð og merkir „birta“ eða „ljómi“. Þannig er það t.d. bæði notað í Spádómsbók Esekíels 8.2 og Daníelsbók 12.3. Aftur á móti er það líka heiti á höfuðriti gyðinglegrar dulspeki, „Kabbalah“, en þar er það einmitt – líkt og í annarri mystík – „uppljómun“ sem er takmark sálarinnar. Hvaða sögn er í því fólgin að ásókn mannsins í andlega uppljómun tortími sköpunarverkinu er aftur á móti erfitt að ráða í. Kannski á „zohar“ að tákna villuljósið sem leiðir manninn frá hinu andlega til hins veraldlega. Kannski var ætlunin bara að móðga Madonnu og hina kabbalistana í Hollywood.)

Mennirnir eru svo vondir að þeir leggja sér jafnvel dýr til munns. Aldrei kemur fram hvað Nói og hans fólk borðar, en af upphafsatriðinu er einna helst er að sjá að þau nagi skófir af steinum. Að minnsta kosti fer lítið fyrir matjurtarækt þeirra og það er ekki beint eins og þau lifi í einhverjum gróðursælum aldinreit. Til að hafa umhverfið nógu nöturlegt var meira að segja haft fyrir því að taka myndina upp á Íslandi. Ekki í Borgarfirðinum eða öðrum blómlegum sveitum landsins, heldur úti á eyðisöndum og í hrjóstrugum urðum þar sem einmitt er svo auðvelt fyrir mennska menn að draga fram lífið á gróðri jarðar … ekki satt?

Annað dæmi um það hve allt er vanhugsað í kringum þessa mynd er að þegar flóðið sjatnar sjáum við aftur íslenskt landslag sem við eigum að trúa að sé nýrisið úr söltum sæ. Ein persónan er nýorðin barnshafandi í upphafi flóðsins og verður léttari að stálheilbrigðum börnum áður en því linnir, svo við skulum gefa okkur að allt land hafi verið á kafi í nokkra mánuði. Þá er það fyrsta sem við sjáum auðvitað mosi á úfnu hrauni, af því að slíkur gróður þarf ekki nema nokkrar aldir til að ná fótfestu. Það þarf alveg sérstaka hæfileika til að finna ekki landslag sem lítur út fyrir að vera nýrisið úr sæ – á Íslandi af öllum stöðum.

Þessa heimskulegu umgjörð mætti kannski fyrirgefa ef í henni væri sögð spennandi og skemmtileg saga af áhugaverðum persónum. Því er aftur á móti ekki að heilsa. Nói þumbast í gegn um þessa mynd sem hinn algjöri fölskylduharðstjóri. Orð hans eru lög og fjölskyldan er öll svo dysfunctional í að þóknast honum að jafnvel þegar hann segir elsta syni sínum að hann muni myrða dóttur hans af því að Guð hafi ætlað að útrýma mannkyninu, þá hrökklast strákurinn út í horn eins og barinn hvolpur í stað þess að sýna snefil af karlmennsku og svara: „Ef þú reynir það svippa ég þér með hausinn á undan yfir lunninguna, gamli fauskur.“

Kannski átti að vera einhver sögn í því fólgin að synir Nóa, forfeður allra manna, skuli vera þessar endemis mannleysur og ónytjungar sem myndin sýnir. Douglas Booth túlkar frumburðinn Sem eins og nærbuxnamódel sem fór upptökuveravillt, en fékk að vera stillt upp með leikurunum af því að hann er svo sætur. Í raun er það móðgun við alla karlmenn alls staðar að gefa í skyn að kona, leikin af Emmu Watson, geti hrifist af þessum choko væskli. Hvað Emmu Watson varðar er aðeins hægt að vona að ferill þessarar efnilegu leikkonu bíði ekki varanlegan skaða af hörmunginni.

En versti glæpur Noah er þó ekki vanhugsuð og heimskuleg umgjörð utan um langdregna og hundleiðinlega sögu um óáhugavert fólk sem manni stendur ekki bara á sama um heldur verður meira og meira í nöp við eftir því sem á líður. Kvikmyndin kynnir nefnilega mjög mikilvæga sköpunarguðfræði, þar sem hlutverk mannsins í sköpunarverkinu er beinlínis að gæta þess og vernda það. Þar hefur afskaplega áhugaverð túlkun á „imago Dei“ (þ.e. „mynd Guðs“) vandamálinu komið fram, sem lýsir sér í því að skilja orðasambandið ekki þannig að þar sé ytra útliti einshvers konar „Guðveru“ lýst, heldur tilgangi mannsins á jörðinni. Maðurinn er eini hluti sköpunarinnar sem Guð gerir væntingar til: „Hann skal …“ Allt annað á bara að verða, það verður og er gott. Ennfremur er maðurinn það eina í sköpuninni sem Guð snertir. Allt annað skapar hann með orði sínu, en manninn „gerir“ hann. Hér er gengið út frá því að það sem átt er við í fyrri hluta versins 1Mós 1.26, „vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss“, sé útskýrt til fullnustu í síðari hluta þess: „Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“ Í þessu drottnunarhlutverki er maðurinn líkur Guði, mynd hans.

Við sitjum uppi með spurninguna: „Hvers konar drottnari er það sem tortímir ríki sínu blindaður af ásókn í fjársjóði sem mölur og ryð fá grandað?“

Glæpur Noah er ekki bara að drekkja þessum brýna boðskap í leiðindum og heimsku, heldur að kynna hann til sögunnar með þeim hætti að hann verður tilgerðarlegur og banal. Emma Watson er beinlíns látin halda einhverja ræðu sem er svo lapþunn að meiri djúphygli má finna í Star Wars Episode I. Ósköpin eru síðan myndskreytt með ofurvæmnum náttúrulífsmyndum af fuglum og spendýrum með unga sína. Gott ef á bakvið hljóma ekki vælandi fiðlur, ég man það ekki. Áróðursmyndir úr seinni heimsstyrjöldinni fara fínna í hlutina.

Ég vil taka fram að það misbýður mér alls ekki að spunnið skuli vera við frásögn Biblíunnar og það sem þar stendur túlkað á nýstárlegan hátt. Síður en svo. Þvert á móti finnst mér að meira megi gera af því. Í því sambandi bendi ég að ein besta Jesúmynd 20. aldarinnar er að mínu mati kvikmynd Martins Scorseses frá 1988, The Last Temptation of Christ. Hún er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Nikos Kazantzakis þar sem hann spinnur við píslarsögu guðspjallanna til að gera Jesú mannlegri og breyskari og dýpka merkingu fórnar hans.

Biblían er ekki sagnfræði heldur helgirit og heimsbókmennt og hefur sem slík verið óþrjótandi efniviður túlkunar og útleggingar listamanna á öllum sviðum öldum saman. Rétt eins og enginn fer að sjá Hamlet af því að hann veit ekki hvernig leikritið endar á það að vera túlkunin, sýn listamannsins, sem laðar mann að verkinu – ekki söguþráðurinn sem allir þekkja.

En maður verður að gera kröfu til þess að þetta sé gert af lágmarksvirðingu fyrir áhorfandandum. Það er hægt að fyrirgefa nokkrar vafasamar ákvarðanir og bjánalegar túlkanir. Það er erfiðara að fyrirgefa 138 mínútur samfellt af engu nema heimskulegum og vondum ákvörðunum þar sem hvergi örlar á neinu vitrænu eða skemmtilegu. Eina ástæða þess að ég fór ekki út af þessum hryllingi í hléi er sú að ég hafði lofað að gefa skýrslu um ósköpin og þurfti því að afplána allan sýningartímann. Þess vegna lít ég á það sem skyldu mína að vara alla, sem bera virðingu fyrir vitsmunum sínum og smekkvísi, við því að sjái þeir þessa mynd verður hvoru tveggja misboðið.

Kannski er ósanngjarnt að verja svona mikilli orku og tíma í að drulla yfir eitt listaverk. Eina málsvörn mín er í senn barnaleg og vanþroskuð, en það eina sem ég get sagt er: Það drullaði yfir mig fyrst.

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Menning, Pistlar
1,433