Möskvar minninganna (XXIV): Jónbi
Karl Th. Birgisson skrifar
Ég skrúfaði niður bílrúðuna. „Okkur helzt frekar illa á mæðrum, vinur minn.“
Það var verið að landa niðri á höfn á Stöðvarfirði. Mæður okkar höfðu látizt með fárra vikna bili um veturinn og þetta langaði mig helzt að segja við Jónba.
Eftir nokkurra ára fjarvist.
Á milli þeirra mæðranna voru að vísu mörg ár, þær þekktust ekki, hann þekkti mína mömmu enn síður, en mér lánaðist í Breiðdalnum að kynnast Lóu sæmilega.
–– –– -–
Jón Ben Sveinsson. Jónbi.
Við vorum tíu ára. Ég sumardrengur hjá Önnu og Stebba á Þrastarhóli, hann jafnaldri niðri í Draumalandi á mjög glaðværu heimili, með Svövu og Palla, þótt húsið væri hálfkarað. Hann ákvað að verða vinur reykvíska stráksins, þótt ég hefði ekkert fram að færa annað en að vera nýr.
Hann var hins vegar óþrjótandi brunnur – ekki bara uppátækja, sem voru kappnóg fyrir feiminn strák að sunnan og væru sennilega lögbrot núna. Ég geymi þær sögur.
Jónbi kenndi mér hins vegar að veiða. Fyrst marhnút, en svo kola, ufsa og einstaka þyrskling síðar. Því að allt vill lagið hafa ef maður lærir á fiskinn og hefur rétt veiðarfæri. Og Jónbi kunni að veiða fisk.
Svo skildi leiðir í sumarlok. Þegar við vorum tíu ára.
–– –– ––
Tæpum aldarfjórðungi síðar var ég kominn aftur austur á Stöðvarfjörð í það sem átti að vera skammvinn loðnuvertíð. Einar bróðir minn og hún Bára, elskuleg og þolinmóð mágkona, skutu yfir mig skjólshúsi.
Ég hafði varla áttað mig á aðstæðum þegar ég áræddi að spyrja: „Vitið þið nokkuð hvar ég finn hann Jónba? Er hann ennþá hérna?“
Hann Jónbi? Hann átti heima í þarnæsta húsi. Ég gladdist inni í mér, en lét kyrrt liggja um stund.
Í næstu vinnupásu þurfti ég að finna Jónba. Hann hafði heyrt af nýjum náunga í frystihúsinu, og líka heyrt að ég hefði spurt um hann.
Þegar við sáumst svo á Boðanum þurfti þess vegna engar kveðjur eða kynningar: „Ert þú nú kominn aftur?“ spurði hann og við föðmuðumst eins og gamlir bræður.
Og svo kynntumst við aftur. Hann var náttúrlega að veiða. Trillukarl. Eins og flestir aðrir sem sátu með okkur á Boðanum þessa daga og þessar vikur.
Ég hlustaði á lýsingar á boðum, djúpum og grynningum án þess að skilja neitt, en mikilvægur skólabekkur var það samt.
Jónbi dró ekki af sér við að lýsa réttum veiðislóðum, en reglulega gaut hann brosandi augunum að mér eins og hann vildi segja: Velkominn heim. Það var mjög ákveðið augnatillit.
Atvikin höguðu því þannig að vertíðin mín á Stöðvarfirði lengdist þótt engin væri loðnan, og enn kom Jónbi mér á óvart. Þá kom í ljós – sem hann hafði ekkert verið að flíka – að hann hafði lært til hárgreiðslumanns. Sennilega hefði hann sagt rakara, svona upp á kúlið.
Ég ákvað að láta reyna á þessa kunnáttu fyrir aðventuna þegar ég rak útibú frá Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar á Stöðvarfirði. Láta Jónba klippa mig. Grósserinn þyrfti að líta sæmilega út.
– Komdu upp á hæðina fyrir ofan saltfiskverkunina klukkan sjö annað kvöld, sagði hann.
Ég lýg því ekki: Fingurnir á Jónba voru orðnir hraustlegir – nei, segjum bara sverir – eftir margra ára sjósókn og beitningu, en liprari skærahreyfingar hef ég ekki séð utan ofmetnustu salóna Reykjavíkur og Washington.
Vel gert, sagði ég að verki loknu. Við ræddum það ekkert frekar, en ég sá að hann var líka ánægður með niðurstöðuna.
Algerlega verðskuldað.
–– –– ––
En Jónbi var ekkert hættur með velkominn heim.
Pabbi hans, Sveinn Ben, fórst á sjónum, en Lóa kynntist Hermanni á Þverhamri í Breiðdal og tók þar upp sauðfjárbúskap með honum.
Ég hitti Jónba í kaupfélaginu eitt vorið.
– Þú átt að koma með mér í sauðburð.
– Sauðburð? Ég veit ekkert um slíkt. Og kann ekkert á það.
– Ég veit það. Þess vegna áttu að koma með mér. Á næturvakt, sagði hann og brosti aftur með augunum.
Vorin urðu þrjú sem við vörðum sem ljósmæður í fjárhúsunum á Þverhamri. Á næturvakt í skítakulda.
Þar sem eina hlýjan var frá nýbornum lömbum og mæðrum þeirra, einstaka landasopa, og augnatilliti Jónba, þegar hann bauð mig enn einu sinni velkominn heim án þess að segja það.
–– –– ––
Vinir okkar Jónba á Stöðvarfirði kölluðu hann jafnan foringjann.
Held að ég skilji hvers vegna, en mér þykir það ofmælt. Eða jafnvel vanmælt.
Hugsanlega skynja tíu ára strákar ekki neitt svoleiðis, en í mínum huga varð Jónbi strax maður sem var gott og nærandi að þekkja.
Seinni kynni staðfestu það hugboð og alveg rúmlega.
Vertu kært kvaddur, vinur minn, og ástarkveðjur til aðstandenda.
Karl Th. Birgisson
(Mynd: Agnes Klara Ben Jónsdóttir)
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021