trusted online casino malaysia
Daglegt mál 30/12/2018

Maðurinn og manneskjan

Það er nú sitt hvort. Eins og allir vita.

Við áramót höfum við lengi valið mann ársins. En það er víst búið og frá. Núna veljum við manneskju ársins.

Bæði hjá Ríkisútvarpinu og Stöð 2/Vísi, ef ég fylgist rétt með.

Þetta er sérkennileg breyting, að vísu byggð á næstum skiljanlegu sjónarmiði um jafnrétti, en samt stórundarlegur misskilningur á orðum og merkingu þeirra.

Breytingin er reyndar alveg ekki ný. Elzta dæmið sem ég fann í fljótheitum er frá 2011 og átti þá við um útnefningu á „Manneskju ársins“ hjá Time. Þetta var þýðing, en breytingin hér heima er sirka ársgömul hjá helztu miðlum.

Jahá og hérna. Maður og manneskja. Það er nú sitt hvort.

Hvers vegna leggjum við ólíkan skilning í þessi orð?

Því er fljótsvarað – en þó ekki: Manneskja hefur í daglegu tali verið notað fremur um konur en karlmenn. Eða eiginlega bara um konur.

Spurningunni „Hvað áttu við, manneskja?“ hefur líklega sjaldan verið beint að körlum.

Manneskja í daglegu tali er semsagt frekar kona en karl. Líklega erum við á einu máli um það.

(Frá þessari reglu eru að vísu undantekningar. Austur á Stöðvarfirði býr góður (karl)maður sem notar manneskja um bæði karla og konur. „Blessuð manneskjan,“ sagði hann við okkur af báðum kynjum. Og réttilega. En hann er líka óvenju fallega þenkjandi manneskja.)

Og kemur þá að hinu orðinu: Maður.

Í daglegu tali finnst okkur líklega að „maður“ eigi fremur við um karlmann en konu. Hugsanlega er upphaflegi sökudólgurinn fyrir þeim skilningi Jón Thoroddsen, sem skrifaði Mann og konu á eftir Pilti og stúlku. En það er þó varla einhlítt. Hann hefði trauðla skrifað gegn málkennd eða málnotkun eigin lesenda.

En það er ágætt að kenna honum um útbreiðslu þessa misskilnings.

Því að þetta er tómt rugl, eins og breytingin frá „Manni ársins“ til „Manneskju ársins“ sýnir.

Ef röksemdin fyrir breytingunni er jafnréttissjónarmið – sem ég er meira en til í að taka undir í prinsippinu – þá er orðið „manneskja“ kolrangt. Það orð á undantekningarlítið við um konur.

Titillinn „Manneskja ársins“ hneigist því sjálfkrafa að konum frekar en körlum að óbreyttu.

Rétt eins og „Maður ársins“ hneigist hugsanlega, en bara hugsanlega, að körlum frekar en konum, af því að orðið er karlkyns, en hitt kvenkyns.

Hvernig leysum við þetta skringilega vandamál?

Ég ætla ekki einu sinni að gefa séns á „hán“ eða hvað það heitir allt saman. Hér eru bara tvær leiðir færar.

Annaðhvort breytum við daglegum skilningi okkar á því að „manneskja“ vísi fremur til kvenna en karla. Það gæti reynzt býsna snúinn og langur leiðangur.

Eða tökum upp hinn eðlilega skilning á orðinu maður, sem Jón Thoroddsen forklúðraði að sínum tíðarandahætti.

Við erum öll menn. Bæði karlar og konur. Og höfum alltaf verið. Það ætti að vera einfalt að sammælast um það.

Bergþóra var meiraðsegja drengur góður, ef þið viljið tilvísun í verulega sterka konu.

Íþróttamaður ársins 2018 er Sara Björk Gunnarsdóttir og margfalt verðskuldað.

Og við gætum jafnvel fengið sjálfa Vigdísi Finnbogadóttur í lið með okkur til að leysa þetta bjánalega orðaklúður.

Í forsetaframboði 1980 var hún spurð hvort fólk ætti að kjósa hana af því að hún væri kona.

Svarið var á reiðum höndum og kom samstundis: „Nei, það á að kjósa mig af því að ég er maður.“

Miklu fleira þarf ekki til að sannfæra mig um að við séum öll menn.

Og sumar konur meiraðsegja meiri menn en sumir karlar.

Karl Th. Birgisson

Latest posts by Daglegt mál (see all)
Flokkun : Pistlar
1,651