trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 19/12/2016

Kirkja í hlutverki kommúnista?

Lexía:

Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð. (Jes 12.2-5)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.Kross í Langjökli

Mér þykir vænt um lexíu dagsins í dag. Sérstaklega þetta orðasamband, „lindir hjálpræðisins“. „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins,“ segir spámaðurinn Jesaja. Þetta talar til mín.

Persónulegt samband

Einu sinni var ég í atvinnuviðtali og var spurður: „Hvað merkir skírnarfonturinn fyrir þér?“ Ekki: „Útskýrðu fyrir okkur táknfræði skírnarinnar og merkingu skírnarsakramentisins.“ Heldur „Hvað merkir skírnarfonturinn – fyrir þér?“ Algerlega óundirbúið. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var „lind hjálpræðisins“. Og mér finnst það fallegt. Að því að ganga Jesú Kristi á hönd fylgi léttir eins og sár þorsti sé slökktur og að hið tæra, vígða vatn skírnarlaugarinnar tákni þá svölun.

Reyndar fékk ég ekki embættið, en ég held að það hafi ekki verið út af þessu svari.

Ég er alls ekki einn um að vera í sérstöku vinfengi við þennan texta og ég skal viðurkenna að ég kynntist honum ekki í guðfræðinámi mínu heldur uppi í Vatnaskógi þar sem ég starfaði sem biblíufræðari eitt haustið. Í Vatnaskógi hefur þessi texti verið klappaður í stein. Í bókstaflegri merkingu. Þetta var einn eftirlætisritningarstaða séra Friðriks Friðrikssonar og í Vatnaskógi er uppspretta í rjóðri skammt frá kapellunni þar sem er brjóstmynd af séra Friðrik og þessi ritningarstaður er grafinn í stein þar við lindina: „Þér munuðu með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ Það var gott eftir að erli dagsins var lokið að rölta út í þennan lund, setjast við lindina í bjartri sumarnóttinni og eiga hljóða stund með almættinu. Ég á í ákveðnu persónulegu ástarsambandi við þennan texta. Mér finnst þetta dýrðlegur vonarboðskapur.

Voveiflegur atburður

Í síðustu viku varð sá sorglegi atburður að hælisleitandi, sem gripið hafði til þess örþrifaráðs að hella yfir sig bensíni og kveikja í sér lést af sárum sínum. Hann var á þrítugsaldri og frá Makedóníu. Það er alvarlegt mál að saka einhvern um að hafa mannslíf á samviskunni og það vil ég forðast. Sá sem tekur líf sitt ber einn ábyrgð á þeim verknaði. En aðstæður þessa ógæfusama ungmennis voru á ábyrgð íslensks samfélags. Þeim sem til þekkja ber saman um að hann hafi sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis, örvæntingar og vonleysis um alllanga hríð þannig að í raun hafi verið fyrirsjáanlegt að þetta gæti ekki endað öðruvísi en voðalega ef ekki væri gripið í taumana. Enda fór það þannig. Ekki var gripið í taumana, jafnvel þótt vinir hans hafi farið þess á leit við yfirvöld að það yrði gert. Á endanum varð örvænting hans algjör og hann stytti sér aldur með þessum hroðalega hætti í kjölfar þess að honum var synjað um landvistarleyfi.

Ég ætla ekki að fullyrða hér að hann hefði átt að fá landvistarleyfi. Ég veit ekkert um það. En ég ætla að fullyrða að hann hefði átt að fá þá aðstoð sem hann þurfti til að ráða fram úr sálarangist sinni. Við berum ábyrgð á því að svo var ekki.

Einni viku eftir að þetta átti sér stað er það embættisskylda mín að tala við ykkur hér um lindir hjálpræðisins. Ef ég stæði ekki hér og talaði heldur sæti á kirkjubekknum og hlustaði myndi ég vilja fá að vita hvar þessar lindir hjálpræðisins voru fyrir þennan unga mann. Hverjir jusu með fögnuði úr þeim fyrir hann? Hvernig get ég staðið hér og sagt „þið munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins“ í samfélagi þar sem aðgangssstýringin að þessum lindum er með þeim hætti að sumir fuðra upp af hreinni örvæntingu án þess að nokkur ausi svo miklu sem einum dropa úr þessum lindum þeim til hjálpræðis?

Ég get það ekki.

Og mér sárnar það.

Hvellandi bjalla

Mér sárnar að þessi fallegi texti sem stendur hjarta mínu svo nærri láti í eyrum eins og hljómandi málmur eða hvellandi bjalla þegar hann er settur í samhengi við líðandi stund.

Lexía dagsins í dag er hvorki hljómandi málmur né hvellandi bjalla. Hún er full af kærleika.

Ég hef séð sáran þorsta slökktan í lindum hjálpræðisins.

Ég sjálfur tel mig hafa fundið svölun í þeim.

En manni getur sárnað.

Mér sárnar að heyra stjórnmálamenn tala um að Íslendingar hafi aldrei haft það betra á sama tíma og á þriðja þúsund manns þurfa aðstoð yfir jólin og 860 fjölskyldur hafa sótt um mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Í þessum fjölskyldum eru mörghundruð börn.

Ef ég væri fjármálaráðherra með bókhald ríkisins fyrir framan mig myndi þetta eflaust horfa svona við mér, ég efa það ekki. En ég er ekki fjármálaráðherra. Ég er sóknarprestur og fyrir framan mig er ekki ríkisbókhald í blússandi plúsi heldur lifandi fólk sem er að biðja um hjálp til að geta haldið jól.

Það hryggir mig að hér á landi skuli fólk búa við þannig aðstæður að því vöknar um augu af þakklæti við að þiggja hamborgarhrygg og gosdrykki að gjöf því það þýðir að þau geta gert sér dagamun í mat og drykk á fæðingarhátíð frelsarans. Mér sárnar að þannig sé búið að öryrkjum í þessu landi, þar sem stjórnmálamenn tilkynna okkur að það sé „fullt af peningum þarna úti“, að það að fá Bónuskort með nokkur þúsund króna innistæðu að gjöf frá kirkjunni – frá ykkur og samskotum ykkar hér í kirkjunni – skuli gera gæfumuninn fyrir hátíðirnar hjá þeim á sama tíma og ekki er hægt að veita meira fjármagni í málaflokkinn af því að skattar eru ofbeldi, en ekki það hvernig búið er að þeim verst settu hér í landi allsnægtanna.

Það að stór hópur Íslendinga skuli vera háður matargjöfum er ofbeldi. Það hvernig við tökum á móti fólki, sem hingað kemur um langan veg í þeim tilgangi einum að skapa sér og fjölskyldum sínum betra líf og verða nýtir borgarar, er ofbeldi. Að standa aðgerðarlaus álengdar og horfa á einstakling fyllast hægt og hægt af svo mikilli örvæntingu að öllum má vera ljóst að það getur ekki endað öðruvísi en með ósköpum, er ofbeldi. Skeytingarleysið og sinnuleysið er hreint og klárt ofbeldi.

Sælla er að gefa en þiggja

Svo sanngirni sé gætt þá kemur fólk ekki bara hingað í kirkjuna á aðventunni til að biðja um hjálp. Hingað kemur líka fólk til að bjóða hjálp og biður kirkjuna um að hafa milligöngu um að koma henni þangað sem hennar er þörf. Og það gerum við með fögnuði. Það er með fögnuði sem við hjálpum hinum hjálpar þurfi, við afhendum Bónuskort og hamborgarhryggi með fögnuði. Við tökum við þakklæti þeirra sem þiggja með fögnuði og skilum því þangað sem það á heima með fögnuði.

En svo ég sé fullkomlega hreinskilinn og tali bara hreint út fyrir sjálfan mig: Ég geri það líka með sorg í hjarta.

Í huga mér hljóma nefnilega orð brasílíska erkibiskupsins Helders Camara sem sagði:

„Þegar ég gef hinum fátæku brauð er ég kallaður dýrlingur. Þegar ég spyr af hverju þeir fátæku eigi ekki fyrir brauði er ég kallaður kommúnisti.“

Auðvitað er gefandi að þjóna kirkju sem er í hlutverki dýrlingsins. En ég veit ósköp vel að sjálfur er ég enginn dýrlingur. Það þarf ekkert að minna mig á það.

Þess vegna langar mig miklu frekar að tilheyra kirkju sem er – svo ég haldi mig við skilgreiningar föður Helders Camara – í hlutverki kommúnistans og spyr: „Af hverju er þetta svona?“

Hlutverk kommúnistans

Af hverju er fólk á meðal okkar sem er ekki sinnt betur en svo að það styttir sér aldur með hroðalegum hætti án þess að fá nokkurn tímann þá aðstoð sem er himinhrópandi augljóst að það er í sárri þörf fyrir? Af hverju er það hlutverk kirkjunnar að skipuleggja sætaferðir fyrir öryrkja að þiggja ölmusu? Af hverju þarf fullfrískt fólk sem er í fullri vinnu að leita til kirkjunnar eftir fjárhagsaðstoð af því að það á ekkert afgangs til að geta haldið jól?

Og síðast en kannski ekki síst: Hvernig voga ráðamenn sér að halda því fram að þjóð hafi aldrei haft það betra þar sem þetta er daglegur raunveruleiki þúsunda og fráleitt sé rétta hag þeirra með hærri sköttum á tekjur sem eru hærri tvær og hálf milljón á mánuði eða leggja frekari gjöld á fyrirtæki sem ár hvert skila eigendum sínum milljarða arðgreiðslum?

Við erum kirkjan, við öll – allir sem henni tilheyra. Hvernig væri að við spyrðum þessara spurninga? Hvernig væri að við hættum að klappa okkur sjálfum á bakið fyrir það hvað við erum góð hver jól að setja plástur á þetta opna samfélagssár og brettum í staðinn upp ermar og saumuðum það saman – lokuðum því?

Þá værum við í raun og sann að ausa vatni úr lindum hjálpræðsins. Og það myndi ég að minnsta kosti gera með sönnum fögnuði og enga sorg í hjarta.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

———-

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 18. 12. 2016 

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
1,431