Jón Baldvin ætlaði í framboð til forseta. Bréf til ungrar frænku Bryndísar komu í veg fyrir það
Stundum er athyglisverðara hverjir bjóða sig ekki fram til forseta en hitt, hverjir stíga skrefið.
Þetta er eitt af fjölmörgum umfjöllunarefnum í væntanlegri bók Karls Th. Birgissonar um forsetakjörið 2012.
Snemma í mars 2012 hafði Ólafi Ragnari Grímssyni snúist hugur – eins og fjórum árum síðar – og hann ákvað að sækjast aftur eftir kjöri. Sú yfirlýsing setti strik í reikning margra sem voru að hugsa sinn gang. Rétt eins og gerðist fjórum árum seinna.
Herðubreið birtir hér stutt kaflabrot úr bók Karls um þessar undurfurðulegu kosningar, með leyfi útgefanda:
——–
Þrátt fyrir allt var þetta ljóst eftir 4. marz: Ólafur Ragnar ætlaði í framboð einu sinni enn.
Aðrir gátu þá tekið mið af þeirri staðreynd í hugleiðingum sínum og ákvörðunum. Og nú hófst fyrst fyrir alvöru leitin að öðrum frambjóðendum sem gætu veitt Ólafi keppni og jafnvel velt honum úr sessi.
Sú fegurðarsamkeppni var með hefðbundnu sniði í aðdraganda forsetakosninga á Íslandi: Þjóðin skrafaði, velti fyrir sér hinum og þessum, útilokaði þennan og hinn, á vinnustöðum, kaffihúsum, í fjölmiðlum og á förnum vegi.
Allir voru upp með sér sem nefndir voru, sumir tókust jafnvel á flug tímabundið, aðrir hlustuðu, hringdu nokkur símtöl, skynjuðu að þetta var saklaus samkvæmisleikur, kímdu eða hnussuðu, og sneru sér að öðru.
Þrír menn biðu þó ekki eftir neinu svoleiðis. Jón Lárusson rannsóknarlögreglumaður á Selfossi tilkynnti þegar snemma í janúar að hann hygðist bjóða sig fram og hinn eilífi Ástþór Magnússon boðaði til blaðamannafundar 2. marz, tveimur dögum áður en Ólafur Ragnar tilkynnti um framboð sitt.
Ástþór bauð sig fram til forseta 1996 og 2004, en hlaut í bæði skiptin innan við þrjú prósent atkvæða. Hann sagðist á blaðamannafundi enn vera á sömu slóðum með sömu hugmyndir, baráttu fyrir friði, betri heimi og betra Íslandi […].
Þriðji maðurinn hafði lengi hugleitt alvarlega að bjóða sig fram til forseta, en það var Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, utanríkisráðherra og síðar sendiherra.
Árið 1996 lét Jón Baldvin kanna hugsanlegt fylgi við sig, en dró þá ályktun af tölunum að hann myndi ekki hafa erindi sem erfiði.
Snemma árs 2012 mat Jón stöðuna svo, eftir að Ólafur Ragnar hafði tilkynnt þá „ákvörðun“ sína að hann ætlaði ekki fram aftur, að hans tími væri kannske kominn.
Eftir samráð við fjölskyldu sína og fleiri ákvað Jón Baldvin að stefna að því markmiði að verða næsti forseti Íslands.
Umfjöllun tímaritsins Nýs lífs í febrúar um óviðurkvæmileg samskipti Jóns Baldvins við systurdóttur eiginkonu hans, Bryndísar Schram, varð hins vegar til þess að setja þessi áform í uppnám. Jón Baldvin hætti við framboðið.
Nánasta fjölskylda Jóns velti fyrir sér hvers vegna þetta mál kom upp á yfirborðið nákvæmlega á þessum tíma – enda hafði það verið lengi á margra vitorði og jafnvel á borði lögreglunnar um skeið – og taldi í alvöru að ein ástæðan gæti verið að koma í veg fyrir fyrirhugað forsetaframboð Jóns.
Ekki verður lagður dómur á þá skýringu hér, en altjent varð niðurstaðan sú að Jón Baldvin varð ekki forsetaframbjóðandi árið 2012 frekar en 1996. Í þetta skipti ekki vegna skoðanakannana, heldur umfjöllunar fjölmiðla um persónuleg málefni.
——–
(Úr 3. kafla: Allt nema Ólaf Ragnar)
Lesa má önnur stutt kaflabrot úr bók Karls hér, hér, hér, hér og hér.
Hægt er að taka þátt í og tryggja útgáfu bókar Karls með því að smella hér.