trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 21/09/2018

Í meðvitundarleysi gleðinnar

Björn Bjarnason, fyrrverandi eitt og annað, er glaður. Það eru nokkur tíðindi. Svo áköf er gleði hans að hann skrifar grein undir nafni í Morgunblaðið. Hún fjallar um Bandaríkjaher og Nató og hernaðarmáttinn sem er öllum mætti dýrmætari ef marka má skrif hans undangengna áratugi.

Gleði höfundar ljómar af fyrirsögn greinarinnar: Bandaríkjamenn ræsa Atlantshafsflota sinn. Þegar textinn er lesinn er ljóst að Björn er ekki lengur hræddi karlinn í Fljótshlíðinni. Hann er kátur. Orð hans eru upphafin og sett fram af manni sem gjörþekkir innstu koppa í búri bandaríska hersins og Nató. Það má heyra hann tala út úr textanum, tala eins og vél sem búið er að prógrammera.

Björn vitnar í sínar fyrirmyndir í manndrápum og hernaði. Þar á meðal er grein í tímariti Bandarísku flotastofnunarinnar, US Naval Institute, USNI News, eftir Sam LaGrone, þar sem vísað er í samtal við Bob Work, fyrrverandi vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Herrann sá segir (að)Keppnin við Rússa sé einkum háð neðansjávar. Besta leiðin til að fylgjast með þeim sé að hleypa þeim ekki út á úthöfin.”

Og annar vottur: “Magnus Nordenman, sérfræðingur í flotamálum á N-Atlantshafi, sagði við USNI News: „Í ákvörðuninni um að fela 2. flotanum hlutverk í Barentshafi felst viðurkenning á einum mikilvægasta þætti nýrrar flotasamkeppni á Norður-Atlantshafi. Þetta gerist mjög norðarlega, ekki við eða fyrir sunnan GIUK-hliðið og snýst ekki um að verja skipalestir bandamanna á leið yfir Atlantshaf.“

Þetta skrifar sami hræddi Björn og hefur haldið því fram að við værum í Nató til þess að verja skipaleiðir, til að verjast Rússum sem væru að sníglast hér upp undir land á sjó og ofan í honum með það fyrir augum að hernema land og þjóð. Og talar blygðunarlaust.  Þótt það gangi þvert á það sem hann hefur áður sagt okkur í áratugi. Eftir allan þann orðaflaum kemur í ljós það sem sögð var argasta lygi er hreinasti sannleikur: Að það væri ekki verið að verjast heldur að búa til óvin, egna hann á sig og keppa síðan við hann um yfirráð.

Þó að þetta gerist sömu daga og átök eiga sér stað á vopnamarkaðinum, sömu daga og Kaninn ákveður að refsa Kínverjum fyrir kaup á hergögnum frá Rússlandi, og bera með því logandi kveik að eldfimasta vörumarkaði heims, já, þó að og þrátt fyrir þetta, sér íslenska Nató-talvélin, Björn Bjarnason ekki hvað er að gerast í raunheimum heldur fagnar því að bandaríski herinn, flotaherinn, sé kominn til Íslands, og lýkur greininni í gleðivímu: Íslendingar eru ekki stikkfrí áhorfendur heldur verða að leggja sitt af mörkum. Heræfingin hér er liður í því. Er tímabært að til hennar sé efnt.”

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,403