trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 10/09/2018

Hverjum datt í hug að ráða þessa sveitastelpu?

Karl Th. Birgisson skrifar

Jæja. Gamli flokkurinn minn var að ráða sér framkvæmdastjóra. Og það er eins og við manninn mælt.

Upp rís hópur fólks og er ógurlega hneykslaður á ráðningunni. Nema hvað? Við þurfum jú hneyksli dagsins og af öðrum var átakanlegur skortur í dag.

Nýi framkvæmdastjórinn heitir Karen Kjartansdóttir. Hún hefur verið fréttamaður, almannatengill og ýmislegt fleira, og er bæði bráðklár og flink.

En það sem stendur upp úr hinum hneyksluðu er að hún vann um tíma hjá LÍÚ og tók að sér samskipti við fjölmiðla fyrir skítakísilverksmiðjuna þarna í Keflavík. Þetta síðarnefnda er að vísu orðum aukið, því að hún var í raun að sinna störfum fyrir Arion-banka, sem hafði af vizku sinni ákveðið að fjármagna fyrirtækið og fékk draslið þess vegna í fangið.

Þetta er náttúrlega ekki nógu gott, eins og hinir hneyksluðu benda réttilega á. Samfylkingin þarf hreint engan flugumann frá LÍÚ og stóriðjunni inn á sinn kontór. Hvað er þetta lið eiginlega að hugsa?

Og hvað með tengslin við launþegahreyfinguna? Er jafnaðarmannaflokkur Íslands virkilega að ráða einhverja auðvalds- og forréttindapíku sem framkvæmdastjóra sinn? Er flokkurinn alveg búinn að tapa sér?

Þetta eru góðar spurningar. Nokkrum mætti bæta við.

Hvers vegna í dauðanum er flokkurinn eiginlega að ráða sveitastelpu úr Landeyjunum? Á nú að fara að lúffa fyrir landbúnaðarmafíunni?

Er hún ekki sjómannsdóttir að auki? Er nú verið að snobba niður fyrir sig? Hefur ekki Gunnar Smári einkaleyfi á því?

Jú, svo er mamma hennar víst hjúkrunarfræðingur. Ekki að spyrja að því – þetta lið kemur sér alls staðar fyrir á ríkisspenanum. Piff.

Svona mætti áfram telja um þessa fráleitu ráðningu gamla flokksins míns.

Öll þessi réttmæta hneykslun er samt byggð á ofurlitlum misskilningi. Framkvæmdastjóri stjórnmálaflokks mótar ekki stefnu hans eða býr til pólitík hans að öðru leyti. (Og vel að merkja – man einhver svona í fljótheitum hverjir eru framkvæmdastjórar hinna flokkanna og hvernig þeir ráða stefnu þeirra?)

Ég tala hér af svolítilli reynslu eftir allnokkurt skrens í þessu starfi á sínum tíma. Starfslýsingin er enn sú sama. Og herregud hvað ég hefði viljað hafa völdin sem sumir telja Karen Kjartansdóttur nú hafa öðlazt.

En – og af þessu sprettur líklega misskilningur hinna hneyksluðu – framkvæmdastjórinn getur haft áhrif. Ef hann er lunkinn. Hann getur gefið ráð og einkum getur hann með slíkri ráðgjöf hugsanlega komið í veg fyrir að fólk segi eða geri einhverja bölvaða vitleysu.

Mér tókst það stundum, en alls ekki nógu oft.

Og af því að ég þykist vita að Karen sé miklu lunknari en ég, þá ætla ég að fagna þessari ráðningu míns gamla flokks.

Þrátt fyrir LÍÚ og skítaverksmiðjuna.

Ég hef miklu meiri áhyggjur af tengslunum við landbúnaðarmafíuna. Og venjulegt fólk.

1,404