Gamall maður hugsar
Gamall maður verður hugsi þegar hann les í blöðunum fréttir af því hvernig nokkrir alþingismenn tala um konur meðan þeir kneyfa bjór á öldurhúsi. Maður, sem man þá tíma, þegar miðaldra og eldri karlmönnum þótti tæplega við hæfi að konur fengju bílpróf, verður óhjákvæmilega hugsi. Sá sem tiltölulega ungur maður varð vitni að stóra kvennafrídeginum 1975 og hefur síðan í meira en 40 ár fylgst með og fagnað mörgum áfangasigrum kvenna, verður óhjákvæmilega dálítið sleginn.
Gamall maður fer að róta í bernsku- og æskuminningum í huga sér. Hefur hugsunarháttur karlmanna virkilega ekkert breyst síðan á sjötta áratugnum? Í þessum ævafornu minningum má reyndar finna tiltekin svör, en það reynast ekki endilega vera svörin sem við var búist. Gamall maður getur jú rifjað upp fyrir sér að hafa einu sinni í bernsku sinni heyrt konu kallaða kuntu. Sá sem það gerði fokreiddist við konuna og kallaði hana „uppskorpnaða gamla kýrkuntu“.
En hann sagði þetta beint og milliliðalaust við konuna sjálfa. Hann var ekki að baktala hana í ölæði.
Gamall maður rifjar upp æskuár sín og minnist þess að mörgum bændum þótti bölvað þegar kona fór í fyrsta sinn í haustleitir. Þá fannst þeim nefnilega ekki kurteislegt að syngja „Hátt upp hlíða“ eins og þeir voru annars vanir.
Gamall maður man vel eftir kokhraustum skólabræðrum. Faðir eins málruddans á öldurhúsinu hafði á unglingsárum sínum nokkuð einbeittan vilja til að vera sá hani á haugnum sem hæst galaði. En honum hefði aldrei dottið í hug að tala svona um skólasystur sínar.
Gamall maður man vel eftir sannkölluðu óbermi á fyrsta árinu í menntaskóla. Þeim pilti fannst út í hött að bekkjarsystir hans skyldi voga sér að tala á málfundum. Hún var nefnilega svo ferlega ljót, sagði hann. Sá hinn sami þvingaði sundur kjálkana á ungri stúlku með harkalegu taki og rak svo upp í hana tunguna. Stúlkan flúði grátandi út með vinkonu sinni, en þegar viðstaddir vildu í fullri alvöru fá að vita hvort níðingurinn væri með öllum mjalla, hló hann og sagði að stelpugæran mætti vera þakklát fyrir að einhver aumkvaði sig yfir hana og kyssti hana almennilega.
En þegar gamall maður rótar í minningunum, kemur í ljós að þetta heilasnauða fúlmenni er eiginlega eina undantekningin. Fyrir hálfri öld komu jafnvel kjaftforustu unglingar ekki tánum þangað sem háttvirtir alþingismenn hafa nú plantað hælunum. Fyrir hálfri öld töluðu karlmenn nánast án undantekninga um konur af sæmilegri kurteisi, kannski eitthvað mismikilli, en kurteisi og virðingu samt.
Gamall maður man fleira en bernsku sína og unglingsár. Hann hefur eðlilega upplifað stórar breytingar á samfélagi, samskiptum og hugsun. Flest er nú með öðru sniði en fyrir hálfri öld, fjölmargt betra, en sumt er því miður verra. Aukin harka, eigingirni, græðgi og fyrirlitning á flestu öðru en eigin rassi hafa ekki farið fram hjá gömlum manni.
Gamall maður veltir líka fyrir sér hvort talsvert yngri mönnum en honum sjálfum þyki kannski til vandræða að þurfa að standa í samkeppni við konur um starf yfirmanns á vinnustað, valdastöðu eða þingsæti. Kannski fara aðdáun á Tortólupeningum og andúð á kynjajafnrétti ágætlega saman.
Gömlum manni þykir líka dálítið skrýtið að af þeim þingmönnum sem sátu á öldurhúsinu skuli bara einn vera að „íhuga stöðu sína“ – og það skuli vera eina konan við borðið. Þessi kona tók þó til varna fyrir eina af stallsystrum sínum á þingi: „Víst er hún ágæt“, heyrist hún segja í upptökunni. Já, gömlum manni finnst pínulítið skrýtið að þessi kona skuli verða fyrst til þess að hugleiða að segja af sér.
Gamall maður veltir öllu þessu fyrir sér og á kemst endanum að þeirri niðurstöðu að svo sannarlega hafi sitthvað breyst síðan á sjötta áratugnum. Þá töluðu karlmenn nefnilega ekki svona um konur, jafnvel ekki þeir sem fannst að konur ættu helst ekkert að vera að keyra bíla.
Og gamall maður verður dálítið sorgbitinn.
__________________________
Pistillinn birtist einnig á jondan.is
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019