Fokking
Ég fylgdi manni inn á nýjan veitingastað í Reykjavík í gær.
Hann hét einu sinni Vegamót. Einmitt af því að hann var við Vegamótastíg.
Hann var afar vinsæll bæði kvölds og hádegis um helgar.
Nýi staðurinn er í sama húsnæðinu, en heitir ekki lengur Vegamót og ekki einu sinni Crossroads, sem gæti þó rímað sæmilega við tíðarandann.
Nei. Hann heitir Bastard.
Jamm. Og það er nú svo.
Eflaust kunna eigendurnir góðar skýringar á nafngiftinni – til dæmis þá að víða um heim heita veitingastaðir þessu sama nafni – en mér er eiginlega alveg sama um það.
Bara breytingin úr Vegamótum í Bastard nægir mér. Úr nafni sem vísar í tiltekinn stað og sögu yfir í alþjóðlega viðurkennt skammarheiti eða raunar í flestum tilvikum blótsyrði.
Nú gef ég mér að nafnið vísi ekki til Vilhjálms hins sigursæla, sem var líka kallaður bastarður, og lagði undir sig England á elleftu öld.
En þetta er fróðlegt.
Og fróðlegt hvaða nöfn gætu og ættu að breytast í kjölfarið.
Nágranni Bastarðarsins, Penninn uppi á Skólavörðustíg, hlýtur að verða Le Pen. Það er á allan hátt mun fínna, upp á frönsku en ekki einhverja vúlgar almúgaensku.
The Bookstore of Language and Culture niðri á horni Laugavegar og Bastard Lane hljómar beinlínis eins og þar sé nafli alheimsins. Sem hann vitaskuld er.
Prikið hlýtur til samræmis að verða The Prick.
Þið megið svo föndra við að búa til nöfn á Kaffibarinn, Bókina hans Braga, Aðalvídeóleiguna, Krambúðina og allar hinar forretningarnar sem heita núna óforfrömuðum nöfnum.
Ég sleppi alveg prjónabúðinni frá Íslenskum heimilisiðnaði.
En í næsta húsi ofan við Bastarðinn er krá sem í árdaga fékk nafnið Ölstofa. Fín krá, en ekki mikið hugmyndaflug í nafngiftinni.
Þegar Bastard er orðinn nágranni Ölstofunnar liggur aðeins ein leið beint við í nýrri nafngift fyrir hana, eins og góður maður hefur bent á.
Fokking.
K.
- Maðurinn og manneskjan - 30/12/2018
- Fokking - 18/05/2018
- Mikið manndatt - 15/01/2018