trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 25/04/2016

Fasismi er það og fasismi skal það heita

Ég bý í lýðræðisþjóðfélagi.

Það er gott.

Það þýðir að ég má – ef ég vil – stofna stjórnmálaflokk. Ég má kalla hann einhverju fallegu og lýsandi nafni eins og „Breiðfylking hinnar sveltandi alþýðu“ og hafa alræði öreiganna og samyrkjubúskap á stefnuskránni.

Þetta má ég.

Það sem ég má ekki er að gera þetta og kvarta svo undan því í kjölfarið að vera kallaður kommúnisti. Hafi ég stofnað stjórnmálaflokk af þessu tagi uppfylli ég einfaldlega öll skilyrði fyrir þeirri nafngift.

þjóðfylkinginÉg má líka stofna annars konar stjórnmálaflokk. Ég má kalla hann einhverju jafnlýsandi eins og til dæmis „Hina íslensku þjóðfylkingu“ og hafa herta innflytjendalöggjöf og mismunum fólks eftir trú og uppruna á stefnuskránni.

Ég má það – ef ég vil.

Það sem ég má ekki er að gera það og kvarta svo undan því í kjölfarið að vera kallaður fasisti.

Ótrúlega margir, einkum fólk sem aðhyllist fasíska hugmyndafræði, virðast halda að orðið „fasisti“ sé fúkyrði en ekki einfaldlega stjórnmálafræðilegt hugtak sem notað er til að lýsa einstaklingi með ákveðna tegund af skoðunum á þjóðfélagsmálum.

Þannig hef ég t.a.m. opinberlega verið sakaður um fasískar skoðanir á fasisma og algjöran skort á umburðarlyndi gagnvart skorti fólks á umburðarlyndi.

Við verðum að geta kallað hlutina sínum réttu nöfnum án þess að fara á límingunum þó ekki sé nema til þess að við séum með það á hreinu að við séum að tala um það sama.

Fasismi er það og fasismi skal það heita.

Lýðræðið tryggir fólki rétt til að hafa fasískar skoðanir og tjá þær.

En lýðræðið tryggir öðrum nákvæmlega sama rétt til að fyrirlita þessar skoðanir og tjá ímugust sinn á þeim umbúðalaust. Það tryggir mér rétt til að gera allt sem í mínu valdi stendur til að beita mér gegn því með oddi og egg að fasistar fái að hafa nokkuð um það að segja hvernig þjóðfélag við byggjum hér á þessari eyju.

Og það ætla ég að gera.

Og þegar fasistarnir nugga sér utan í Krist með því að hampa kristindóminum sem sérstökum augasteini sínum, sem þeir ætli að vernda og verja fyrir hinum vondu útlendingum, áskil ég mér rétt til að benda á að þeir, sem halda að þeir verndi kristindóminn með því að loka landamærum, hafa greinilega ekki hundsvit á grundvallaratriðum kristindómsins.

Með því að loka dyrum okkar á náunga í neyð verndum við ekki kristindóminn. Einmitt þannig drepum við hann.

Sem borgari í lýðræðissamfélgi hef ég rétt til að segja þetta hátt og skýrt hvar og hvenær sem er.

Og það mun ég gera.

Íslendingar fara um þessar mundir ekki varhluta af uppgangi fasismans í Evrópu og vestanhafs. Hver kosningaúrslitin af öðrum utan úr heimi eru til þess fallin að senda hroll niður eftir bakinu á öllu sæmilega réttsýnu fólki. Kanada er eina undantekningin frá þessu í sorglega langan tíma. Nú síðast berast skelfingarfréttir frá Austurríki þar sem íslamófóbía kjósenda virðist ætla að gera hreinræktaðan fasista að forseta. Pólland er fallið. Ungverjaland er fallið. Þýskaland og Norðurlöndin eru í hættu.

Þessar fréttir eru skelfilegar fyrir allt samfélagið, ekki bara múslimi. Íslamófóbía beinist nefnilega ekki aðeins gegn múslimum.

Sá sem segir „Ég vil ekki sjá að múhameðstrú skjóti rótum á Íslandi“ eða „Ég kæri mig ekki um að múslimir fái að reisa mosku í Reykjavík“ er nefnilega í raun að segja allt annað. Hann er að segja: „Ég vil ekki sjá 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.“

Þar segir:

„Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu og helgihaldi.“

Hann er líka að segja: „Ég vil ekki að 63, 64. og 65. grein Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands gildi.“

Þar segir meðal annars:

„Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins.“

„Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna.“

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Hættan er sú að fordómar fólks gegn múslimum laði það að fasismanum án þess að það átti sig á því að hatur fasista á frelsi fólks ristir mun dýpra en svo að hún nái aðeins til þeirra sem eru annarrar trúar og af öðrum uppruna en þeir sjálfir.

Kynnið ykkur til dæmis afstöðu þeirra til kvenréttinda og yfirráða kvenna yfir sínum eigin líkama eins og hann birtist í afstöðu fasista til fóstureyðinga. Frá Póllandi berast hryllilegar fréttir um þessar mundir.

Kynnið ykkur afstöðu fasistanna til réttinda hinsegin fólks og jafnra hjúskaparréttinda óháð kynhneigð eða kyngervi.

Þeim, sem þetta gera og eru ekki þeim mun óhæfari um að setja sig í spor annarra, held ég að renni fljótlega kalt vatn milli skinns og hörunds.

Það er óhætt að taka undir þá hvatningu íslenskra fasista að læra af því sem gerst hefur í Evrópu. Það sem þar hefur gerst er nefnilega að fasistar hafa komist til valda og þegar hafist handa við að skerða réttindi fólks, ekki bara útlendinga heldur kvenna, hinsegin fólks og öryrkja.

Það sem þar hefur gerst er að átök hafa blossað upp á milli innflytjenda og krúnurakaðra þjóðernisöfgamanna þar sem hinir síðarnefndu hafa nánast undantekningalaust átt upptökin.

Fasistarnir eru nefnilega ekki bara á móti múslimum og frelsi þeirra til að iðka trú sína.

Þeir eru á móti frelsinu sjálfu.

Líka þínu.

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
2,348