Buldi við brestur [að gefnu tilefni]
Vegna nýlegra deilna um listsköpun prests í þjóðkirkjunni er viðeigandi að rifja upp grein sem Gunnar Benediktsson rithöfundur skrifaði í Tímarit Máls og menningar árið 1979.
Greinin talar fyrir sig sjálf, en Gunnar var fæddur árið 1892 og var því 87 ára þegar hún var skrifuð.
———-
Buldi við brestur
Það átti víst svo að heita, að ég lærði kver Helga Hálfdanarsonar undir fermingu. En ég efast um, að ég hafi nokkurn tíma lært það orði til orðs, því að þegar kom til fermingarundirbúnings og væntanleg fermingarbörn tóku að skila kverlærdómi sínum á methraða, þá mætti okkur það óvænta fyrirbæri, að séra Benedikt Eyjólfsson, sem var á sínu fyrsta ári í prestakallinu, sussaði á okkur og sagðist ekki gera kröfu til þess, að greinunum í kverinu væri skilað orði til orðs, en hann vildi, að við gætum talað við hann um efni þeirra. En hversu mikið sem á hefur vantað, að ég kynni mitt kver orði til orðs, þá hefur mér alltaf þótt vænt um þetta kver, og sumar greinar þess kann ég enn orði til orðs. Þar á meðal er grein um bænina, sem hljóðar svo: „Bænin er vor þarfasta iðja, því að hún losar hjartað við heiminn, en dregur það að guði, veitir oss styrk í veikleikanum, huggun í hörmungunum, styður trú vora og eflir elsku vora til guðs“. Ég geri ráð fyrir, að hin frábæra hrynjandi málsins ásamt látlausu málfari hafi ekki átt minnstan þátt í því, að gera mér grein þessa hugnæma og festa hana í minni. Önnur grein hefur þó orðið mér enn minnisstæðari. Hún er um manninn og er eitthvað á þessa leið: „Maðurinn er æðsta skepna jarðarinnar, því að hann er gæddur skynsemi til að hugsa og skilja, frjálsræði til að velja og áforma, málfæri til að birta hugsanir sínar og ódauðlegri sál“.
Auðvitað voru ekki allar greinar kversins svona skemmtilegar, og pata hef ég af því, að ýmis boðskapur þess hafi verið hörkuógeðslegur, en það fór alveg fram hjá mér á þeim árum. En það var þetta með skynsemina og frjálsræðið, sem festi djúpar rætur í sálu minni, enda var greind og menntun og frelsi höfuðkeppikefli þjóðlífsins á þeim marglofsungnu aldamótaárum. Þjóðlífið var þrungið af menntunar og frelsisþrá, og það menningarstig átti sér langan og samfelldan aðdraganda. Aldrei fæ ég mig fullsaddan af að prísa, hve mikinn þátt þjónar íslenzku kirkjunnar áttu í þeirri þróun. Prestar landsins stóðu alltaf fremstir í fylkingu við hlið forustumanna okkar frá því fyrsta til hins síðasta. Einn af öndvegisklerkum landsins var „den tykke“, sem var einn af þremur ásamt Jóni Sigurðssyni og Jóni Guðmundssyni sýslumanni Skaftfellinga, sem dönskum dátum var fyrirskipað að beina að byssukjöftunum, ef alvarlega horfði um mótþróa íslendinga á þjóðfundinum 1851. Þá var það sóknarpresturinn að Hofi í Vopnafirði og prófasturinn í Norður-Múlasýslu, sem varð fyrir umtalsverðu aðkasti fyrir að taka undir mótmælahróp Jóns Sigurðssonar gegn rangsleitni konungsvaldsins. Þennan sama prófast hafði konungur sjálfur valið til þingsetu sem fulltrúa síns valds. Það gerði hann auðvitað aldrei framar. En sóknarbörnin sendu prestinn sinn á þing eftir öðrum leiðum.
Íslenzku prestarnir komu víðar við sögu íslenzkrar endurreisnar fram á þessa öld en í sjálfstæðisbaráttunni. Prestur vestur í Sauðlauksdal gerðist á 18. öld brautryðjandi í ræktun jarðepla. Um aldamótin síðustu gerðist prestur í Grindavík forustumaður í útvegsmálum á Suðurnesjum og hreint og beint brautryðjandi um vitamál, svo að ferðir um miðin og landtaka yrði öruggari. Samtímis sat formaður Búnaðarfélags Íslands á kennarastóli Prestaskólans og síðar á sjálfum biskupsstólnum og var lífið og sálin í að leggja grundvöllinn að svo gagngerri byltingu í íslenzkum landbúnaði, að stefna þykir til vandræða með offramleiðslu matvæla í banhungruðum heimi.
En þátttaka prestastéttarinnar og kirkjunnar í frelsisstríði íslenzku þjóðarinnar og uppbyggingu lífvænlegra atvinnuvega á viðreisnartímum eru smámunir miðað við það menningarhlutverk, sem fjöldi presta víðsvegar um land innti af hendi á umliðnum öldum. Margir þeirra bjuggu á hungurmörkum eins og alþýðan umhverfis þá, en þeir höfðu víðari sjónhring til leiðsögu í hinum margbreytilegasta vanda. Þeir eru ekki fáir afreksmenn liðinna alda, sem á æskuskeiði í eymd og umkomuleysi öreigalýðsins voru uppgötvaðir af prestinum sínum sem mannefni, sem þjóðin yrði að fá að njóta sem forustumanna. Og þeir tóku þessa ungu menn að sér og studdu þá til menntunar lengur eða skemur eftir því sem geta leyfði.
Djarfir unglingar, sem báru þrá í brjósti og dreymdi um möguleika til bjartari lífskjara en umhverfi þeirra bauð, áttu mörg sporin til prestsins um ráð og leiðbeiningar. Prestarnir standa víða í brjósti fylkingar við uppbyggingu skólasetra, þegar þau taka að rísa upp á ný á síðari hluta fyrri aldar. Guðfræðingurinn og prestssonurinn Jón A. Hjaltalín tekur sig upp frá virðulegu starfi í Bretaveldi til að taka að sér nýstofnaðan skóla á Möðruvöllum í Hörgárdal, og hefur sú stofnun frá upphafi til þessa dags verið æðsta menntastofnun Norðurlands. Prófasturinn Þórarinn í Görðum á Álftanesi gerðist forgöngumaður um stofnun Flensborgarskólans í Hafnarfirði og átti mestan þátt í að móta hann sem áhrifamesta alþýðuskóla sunnanlands. Sá skóli varð brautryðjandi í sérmenntun til kennarastarfs og fyrirrennari Kennaraskóla íslands, sem reis á fyrsta tugi þessarar aldar. Þegar Kennaraskólinn var svo settur á stofn, þá var prestur í Árnesþingum kvaddur til forstöðu, við af honum tekur svo guðfræðingur, og undir þeirra forsjá mótast meginfloti menntuðustu manna kennarastéttarinnar fyrr og síðar. Rétt eftir síðustu aldamót setti Sigtryggur Guðlaugsson, sóknarprestur Dýrafjarðarþinga, héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og stjórnaði honum í aldarfjórðung. Sá skóli var höfuðmenntasetur Vestf jarða þar til fyrir fáum árum, að menntaskóli var settur á stofn á ísafirði.
Hér hefur verið stiklað á stóru, aðeins minnzt þess, er fyrst kom í hugann. En andstaðan gegn brjálæði svartasta miðaldamyrkursins og forusta í niðurrifi trúarhégilja hefur mér alltaf fundizt varpa mestum ljóma yfir prestastétt landsins og framlag kirkjunnar í menningarmálum. Eg get ekki látið hjá líða að minnast frammistöðu Brynjólfs biskups Sveinssonar, sem stóð eins og klettur úr hafinu í galdratrúarbrjálæðinu, sem gekk eins og Svarti dauði yfir Vestur-Evrópu á 17. öld og er eitt ofboðslegasta fyrirbæri íslenzkrar menningarsögu. Þó var það ekki nema svipur hjá sjón miðað við það, sem næstu menningarþjóðir mega minnast í þeim sökum. (Mætti ég innan sviga bera fram þá frómu ósk, að biskupar kirkju vorrar í nútíð og framtíð megi velja sér hann til sem gleggstrar fyrirmyndar, þegar að vilja steðja sams konar hættur, og mun þá vel fara). En mesta undrun mína og aðdáun hefur það þó vakið, hve mikinn þátt íslenzka prestastéttin og forustumenn kirkjunnar áttu í atlögu þeirri, sem á síðustu öld var hafin gegn steinrunnum rétttrúnaði í boðun kirkjunnar í lok fyrri aldar og áfram haldið á fyrstu tugum þessarar með frábærum árangri á heimsmælikvarða. Þar var Páll Sigurðsson prestur í Gaulverjabæ í fararbroddi. Prédikunarsafn hans kom út 7 árum eftir dauða hans og voru um það skiptar skoðanir. Séra Bjarni Símonarson á Brjánslæk sá um útgáfuna og skrifaði formála fyrir henni. Þar lætur hann í það skína, hvaða sökum þessar ræður væru bornar, en réttlætir þær meðal annars með þessum orðum: „Hér er það einkum sýnt og mest áherzla lögð á, hvernig þetta ljós (þ.e. kristindómsins) á að bera birtu í daglega lífinu“. Séra Páll var annar tveggja presta, sem ollu umtalsverðri óværu í sálarbjórum kalkaðra rétttrúnaðarsinna, þar sem grundvallarkrafan var, að hvergi væri hreyft nýjum hugmyndum. Hinn var þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Séra Páll féll frá á bezta aldri, innan við fimmmgt, og þar með var hans sök afskrifuð. Matthías varð aftur á móti allra karla elztur og slapp því ekki við sögulegan endi á sínu prestsstarfi. Rétttrúnaður var viðurkenndur að nafninu til, og brot Matthíasar gegn honum var óumdeilanlegt. Þá var biskup Pétur Pétursson, einn af tignustu mönnum þjóðarinnar á sinni tíð, prófastssonur frá Miklabæ í Skagafirði. Hann var ekki aðeins biskup. Hann var alþingismaður í 37 ár, til þess valinn af sjálfum kónginum í Kaupmannahöfn, og á flestum þingum þess tímabils var hann forseti sameinaðs þings eða efri deildar. Þá var hann einnig fyrsti forstöðumaður Prestaskólans í Reykjavík. Svona menn gerðu það ekki að gamni sínu á þeim árum að verða sér til skammar í augum almennings, en hins vegar máttu þeir ekki vanrækja skyldur sínar. Og þegar Pétur er orðinn biskup, þá dynja á honum klaganir út af orðbragði Matthíasar Jochumssonar, sem var í óumdeilanlegri þversögn við það, sem þá var „hinn eini sanni kristindómur“. Embættisskyldu sinnar vegna gat hann ekki látið þær eins og vind um eyrun þjóta. En barn menningarog mannúðaranda nítjándu aldarinnar hafði fleiri skyldum að gegna en vörn fyrir kalkaðar kennisetningar aftan úr myrkri miðalda. Hinn ákærði prestur var ástsælasta skáld þjóðarinnar og hafði kveðið sig inn í hjarta hennar með dýrlegum lofsöng um skapara himins og jarðar og fléttað hann saman við heitustu bæn þjóðarinnar, björtustu vonir og sæluþrungnasta draum um frelsi og farsæld um ókomnar aldir. Hinn menntaði höfðingi mátti ekki láta það henda sig, að mesti andans maður þjóðarinnar og hjartfólgnasta trúarskáld kirkjunnar væri niðurlægður sem villutrúarmaður. Og þessi menntaði kirkjuhöfðingi afgreiddi vandamál sín með frábærum glæsileika. Að því er bezt verður séð, kom hann því til vegar, að alþingi Íslendinga samþykkti skáldalaun til þjóðskálds síns, ekki lægri upphæð en svaraði prestslaunum, en með þeim skilyrðum þó, að hann hyrfi frá prestsskap. Þar með gat hann helgað skáldagyðjunni og trúarvingli sínu alla sína krafta í fullkomnu frelsi andans.
Og það voru fleiri prestar en þeir Páll og Matthías, sem höfðu við að stríða veikleika andans, þótt þeir færu betur með. Séra Jónas á Hrafnagili samdi kirkjuræður sínar svo, að enginn varð þess var, að honum skrikaði fótur út á bannsvæði. En við hlið „guðleysingjans“ Gests Pálssonar gerðist hann brautryðjandi í raunsæissagnagerð. Á gagnfræðaskólaárum mínum á Akureyri og þá á efri árum séra Jónasar heyrði ég þess getið honum til lofs og frama, að á norðlenzkri prestastefnu hafi hann ásamt hinum virðulega klerki Birni prófasti á Miklabæ tekið upp vörn fyrir frjálslyndisstefnuna í trúarefnum gegn þeim, sem risu til gagnsóknar gegn þróun þess tíma. Aldrei var séra Björn þó stimplaður sem vingltrúarmaður. Því síður átti það við um eftirmann hans í prófastsembætti Skagafjarðar, séra Zóphanías í Viðvík. En það var ekkja hans, bróðurdóttir Péturs biskups, sem sagði við mig sumarið 1928, þegar „villutrú“ mín reis einna hæst, að hún hefði lesið allt, sem eftir mig hafði birzt, og ekki rekist á neitt, sem maðurinn hennar sálugi hefði ekki sagt henni. — Þá vil ég ekki láta þess ógetið, hvernig virðulegir prestar, sem skipuðu þingbekki um aldamótin, risu upp hver af öðrum til fulltingis við skáldalaun handa Þorsteini Erlingssyni, sem lofsöng hvern þann, er sundur vildi höggva „hverja stoð, er himnana ber“. Þar til má færa ekki óvirðulegri nöfn en séra Sigurð í Vigur, séra Jón á Stafafelli og séra Eggert á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Enginn þeirra mat rétttrúnað kirkjunnar til jafns við íslenskt snilliverk af meistara orðsins.
Guðfræðideild Háskólans hafði um skeið algera forustu í baráttunni gegn trúarkreddum liðinna formyrkvunaralda. Það er unaðslegt að geta minnzt þess ljóss, er rann upp fyrir manni við að soga í sig það andrúmsloft, sem ríkti um guðfræði þeirrar stofnunar. Biblíurannsóknir voru teknar sömu tökum og aðrar rannsóknir í bókmenntum og sögu. Okkur var kennt að gera skýran greinarmun á því, hvað teljast mátti örugg sagnfræði, hvað líklegt og hvað með öllu röklaust. Þess átti að gæta vandlega að slá hlutum ekki of föstum, hve sterk rök sem fyrir væru, því að síðar gátu komið fram í dagsljósið nýjar staðreyndir, sem enn voru huldar. A þennan hátt losnuðum við úr eintrjáningshyggju rétttrúnaðarins, fundum okkur bræður og systur í röðum þeirra, sem komizt höfðu að niðurstöðum öndverðum þeim, sem við höfðum aflað okkur, en áttu sameiginlega með okkur áhugann fyrir því að brjóta málin til mergjar og halla okkur síðan að því, sem hverjum fyrir sig þótti sennilegast. Með nýrri yfirsýn gengust kirkjuyfirvöldin sjálf fyrir breytingum á helgisiðakerfi sínu til að lagfæra eitthvað lítils háttar hortitti eða botnlausar vitleysur. Sem dæmi vil ég nefna þátt trúarjátningar kirkjunnar í sambandi við skírn og fermingu.
Við skulum fara 100 ár aftur í tímann. 1879 kemur út ný handbók presta, en það var nafn helgisiðabókanna á þeirri tíð. Samkvæmt henni skuldbundu guðfeðginin barnið til ákveðinnar lífsstefnu og lífsskoðunar til æviloka. Helgi skírnarsáttmálans var fólgið í þrem atriðum. I fyrsta lagi var barnið skuldbundið til að „afneita djöflinum og öllum hans verkum og öllu hans athæfi“. Í öðru lagi var barnið játað undir lútersku trúarjátninguna, og í þriðja lagi var gefið loforð um að standa við afneitunina á djöflinum og stöðugur í hinni játuðu trú til æviloka. Við ferminguna var hið skírða barn síðan krafið staðfestingar á því, sem við skírnina var staðfest fyrir þess hönd, með þreföldu jáyrði og handsali. Undir þessa kvöð var ég leiddur í Slindurholtskirkju á vordögum 1907.
En 1910 kom svo ný helgisiðabók. Þar stóð þessi formáli fyrir lestri trúarjátningarinnar við skírnina: „Heyrum nú játning trúar vorrar, sem barnið á að skírast til“. Þar eru engin loforð gefin fyrir barnsins hönd, og við ferminguna er einskis jáyrðis krafizt af táningnum og einskis handsals. Vaxandi mannúðarstefna og tilfinningin fyrir persónulegum rétti barnsins og unglingsins setur mót sitt á breytinguna. Í nýrri helgisiðabók, sem út kom 1934, er annað hænufetið stigið í sömu átt. Á titilsíðu þeirrar bókar er það tekið fram, að hún komi út „að tilhlutun prestastefnunnar og kirkjuráðs hinnar íslenzku þjóðkirkju“, og er hún þannig vitnisburður um lýðræðislega þróun í stjórnun kirkjumálanna. Þar er enn breytt inngangi að lestri trúarjátningarinnar. Það er ekki sagt, að barnið eigi að skírast til hennar. Nú var þekking á innihaldi og tilorðningu trúarjátningarinnar orðin svo kunn og viðurkenning á staðreyndum svo sjálfsögð, að prestar kinokuðu sér við að vanhelga skírnina með játningu trúaratriða, sem skröltu óraleiðir í burtu frá áhugaefnum samtíðarinnar. Það er aðeins bent á það, að kirkjan hafi „við skírnina kynslóð eftir kynslóð og allt til þessa dags játað trú sína þannig“. Hér er þessi játning aðeins lesin vegna fornhelgi hennar, en ekki játuð.
2
Þessa mola, sem hér hafa verið rifjaðir upp um gengna tíð íslenzku þjóðkirkjunnar, hef ég víst nokkrum sinnum rifjað upp áður í einu og öðru sambandi, þegar mér hefur þótt gefast tilefni til. Nú um síðustu áramót gafst nýtt tilefni af sérstakri gerð. Í jólabókahrotunni barst á markaðinn lítil bók, sem lét ekki mikið yfir sér, hvorki að yfirbragði né innihaldi. Hún bar hið látlausa og hlýlega heiti „Félagi Jesús“, og svo virtist sem útgefendur ætluðu að láta það vera því sem næst eitt um það að vekja eftirtekt á henni sem neyzlu- og söluvarningi. Við hana var ekki beitt neinum auglýsingatöfrum af neinu tagi. Henni brá aldrei fyrir í hópi þeirra bóka, sem mest voru auglýstar og sumar með valinkunnum leikurum í sjónvarpi, og ekki aðeins í öllum regnbogans litum, heldur í hástemmdasta litaflúri fullkomnustu fjölleikahúsa. Það var rétt aðeins, að Félaga Jesú brá fyrir í blaðaauglýsingu, en ég að minnsta kosti minnist þess ekki að hafa heyrt hana í útvarpi.
En svo buldi allt í einu við meiri háttar brestur. Þessi auðmjúka bók, sem heilsað hafði upp á bókamarkaðinn í lítillæti hjartans og fáir höfðu veitt eftirtekt, er skyndilega komin á hvers manns varir, og innan skamms er hún uppurin í öllum bókabúðum í Reykjavík og þótt víðar væri leitað.
Hvað kom til? — Hinir djúplægari rótarangar liggja gróflega djúpt, og væri þaö ofdirfska að ætla sér að grafast fyrir þá alla í tímaritsgrein, svo að fullu gagni verði til skýringar á fyrirbærinu. En hið ytra er það tiltölulega einfalt og óbrotið. Það getur ekki talizt til stórtíðinda, þótt einhver fulltrúi á löggjafarsamkundunni kveðji sér hljóðs utan dagskrár. En þó ber svo til núna rétt fyrr jólin, að einn þingmanna kveður sér hljóðs utan dagskrár með þeim eftirköstum, að næstu daga mátti svo heita, að sérhvert dagblað höfuðstaðarins væri útbíað af umræðum um þetta utandagskrármál. Var þá víða skarpt til orða tekið, þótt ekki væru allir sammála um, hvað sagt var. En að því er sumir sögðu, var þegar í frumræðu farið að tala um stjórnarskrárbrot, einnig hegningarlög í sambandi við guðlast og að lokum um hneykslanlega meðferð á fjölþjóðasjóðum. En þetta var ekki nema rétt nokkurra daga hrota. Þá kom til annað og svo miklu meira, að það má ætla því fastan sess í íslenzkri kirkjusögu um aldir fram.
Tilefni nefndrar utandagskrárumræðu var hin áðurnefnda lítilmótlega bók, Félagi Jesús. Auk þeirra saka, sem lýst var á hendur bókinni og heyra fyrst og fremst undir refsilöggjöfina, þá var hún einnig borin sökum mannúðarleysis. Hún hafði sært viðkvæm guðsbarnahjörtu holundarsárum.
Að sama skapi sem hin réttarfarslega hlið þessarar bókar hvarf af sviðinu, færðist í aukana þáttur mannúðarinnar. Á sjónarsviði birtist einn meiri háttar kvartett, þar sem strengir voru stilltir af þvílíkri fullkomnun, að svo hljómaði sem einn væri. Þeir er strengina knúðu voru engir hversdagsmenn, hvort heldur litið var til hins stundlega eða hins eilífa. Fullkomnari heilög ferning verður vart fundin með vorri fámennu þjóð á hjara veraldar og mörkum hins byggilega heims. Þar var yfirbiskup sjálfrar íslenzku þjóðkirkjunnar. Þar var ennfremur arftaki Jóns biskups Arasonar undir fána móðurkirkju vorrar hinnar katólsku. Þá voru þar fyrirmenn sérstakra kristinna safnaða, sem ekki hafa þótzt geta átt samleið með höfuðkirkjunum, þar sem þær sýndu ekki nóga alvörugefni í trú sinni, og voru þeir um skeið nafnkenndastir fyrir það, með hve hárri röddu þeir vísuðu hinum fordæmdu til helvítis. En svo mikill fögnuður sem það var mörgum sannkristnum manni að sjá hina kristnu félaga fella niður allt pex og þref og sameinast í anda friðarins í vörn gegn árásum á „sannindi kristinnar trúar“, þá urðu aðrir furðu lostnir út af því, hve sameiginlegt átak þessara bylmingskrafta með guð allsherjar á bak við sig gat verið máttlítið og sneytt öllum menningarbrag.
Trúarleiðtogarnir gáfu út sameiginlega yfirlýsingu. Það leyndi sér ekki, að þeim var heitt í hamsi, en þar gætti næsta lítið kristilegrar hógværðar og hjartans lítillætis. Þar var mikið um þung og ruddaleg orð. Þau geta verið áhrifamikil, þar sem rétt er á haldið, svo sem þegar þeim þóknaðist að framganga af munni Jóns biskups Vídalíns. Að öðrum kosti geta þau orðið eins og þungur sleggjuhaus á veigalitlu axarskafti og líklegust til að valda mælendum meiðslum. Í yfirlýsingu kirkjufeðranna fjögurra í dómum um bókina er meðal annars sagt, að hún sé „afskræming á þeim heimildum um hann (þ.e. Jesú), sem samtíðarmenn hans létu eftir sig“, að bókin sé „blygðunarlaus storkun við helgustu tilfinningar kristinna manna“, „blygðunarlaust áróðursrit gegn sannindum kristinnar trúar“. Í einu orði sagt er bókin „ólyfjan“ í munni hinnar „kristilegu“ ferningar.
En það er ekki einu sinni sýnd viðleitni til að rökstyðja þessi stóru orð, hvorki á skiljanlegu né óskiljanlegu máli. Þau falla því steindauð til jarðar sem ruddaleg slagorð, sem minna meira á munnsöfnuð óknyttastráka en virðulegra kirkjuhöfðingja. Yfirlýsingin stendur eftir sem „blygðunarlaus storkun“ við almenna velsæmiskennd og mannlega skynsemi.
Ég geri ráð fyrir, að allgóð eining gæti náðst um þann dóm, að á degi hverjum sé borið inn á heimili landsins meira og minna af óæskilegu efni í blöðum og útvarpi og í sjónvarpi í glansandi myndum, án þess að höfðingjar guðs kristni í landinu hafi æmt né skræmt. Þegar þessir sömu höfðingjar hefja nú upp raust sína með grófyrtum formælingum, þá vildi ég mega gera þá kröfu til þeirra, að þeir hjálpi heyrendum til að skilja, í hverju hin geigvænlega hætta er fólgin. Mér er það hulið, hvar í umræddri bók er að finna „ólyfjan“ eða „blygðunarlausa(ri) storkun við helgustu tilfinningar kristinna manna“ en finna mætti í flestum dagblöðum landsins flesta daga, að ég ekki tali um ósköpin í sjónvarpinu. „Afskræmingu“ á heimildum get ég ekki heldur fundið, en tvö atriði þykja mér líklegast að átt sé við með nefndri dómsáfellingu, og er annað kynferðislegs en hitt hernaðarlegs eðlis. Svo að við víkjum fyrst að hinu síðarnefnda, þá er mörgum það óneitanlega viðkvæmt mál, ef því er haldið fram eða það gefið í skyn, að félagi Jesús hafi verið foringi vopnaðrar uppreisnar. En það er engin ný bóla, að það hafi verið sett fram í töluðu og rituðu máli hér á landi svo sem víðar um hinn svonefnda kristna heim, svo að það virtist lítil ástæða til að kirkjuhöfðingjar glötuðu sálarlegu jafnvægi út af litlu bókinni Félaga Jesú. Fyrir nærri hálfri öld sendi undirritaður frá sér bækling um ævi Jesú, þar sem fram voru færð rök fyrir því, að Jesús hafi verið dæmdur til dauða fyrir forustu vopnaðrar uppreisnar. Þann möguleika heyrði ég fyrst ræddan í guðfræðideildinni, þegar verið var að skýra frásögnina af því, þegar Pétur postuli hjó eyrað af Malkusi. Auðvitað var minn bæklingur „storkun við helgustu tilfinningar“ ýmissa trúaðra manna. Það var ritað gegn viðhorfum hans bæði af lærðum og leikum, en það datt engum í hug að nefna viðhorf mitt „afskræmingu“ á þeim heimildum, sem stuðzt var við. Einn af prófessorum guðfræðideildarinnar skrifaði ýtarlegan dóm í Prestafélagsritið og gerði sér far um að benda á veilur í minni rökfærslu, því að vitanlega orkaði þar eitt og annað tvímælis. En hann gerði það ekki með ruddalegum slagorðum, heldur kurteisri rökleiðslu, eins og siðmennruðum manni sæmir. — Þá er það hin kynferðislega hlið málsins.
Það eru teikningar í Félaga Jesú. Þar á meðal er ein af Jesú, þar sem hann hvílir hjá stúlku, en er að ræða við félaga, sem leituðu fundar hans. Það þarf ekki að segja mér, hvernig farið hefur um „helgustu tilfinningar“ ýmissa „kristinna manna“ frammi fyrir þeim ósköpum, því að í þokkabót er stúlkan alveg hreint bráðhugguleg. En þetta er vissulega engin afskræming á heimildum. Guðspjöllin segja frá því berum orðum, að á páskadagsmorguninn hafi þær komið til grafar Jesú báðar tvær María móðir hans og María Magðalena, eins og um nánustu ástvinina væri að ræða. Skáldsagnahöfundar, sem byggt hafa verk sín á rituðum heimildum, hafa óátalið skáldað meira inn í en þótt ástarlíf sé látið vera með í spilinu. En svo einkennilega vill til, að þrátt fyrir ótvíræð ummæli biblíunnar um það, að Adami og Evu hafi verið uppálagt að aukast og margfaldast og uppfylla jörðina, þá hefur kirkjan reiknað kynhvötina til höfuðsynda mannkynsins. Þar af er víst komið allt bramboltið með að feðra félaga Jesú. En eigi þessi afstaða gagnvart kynhvötinni að heyra til þungamiðju kristilegs viðhorfs, þá höfum við Íslendingar víst aldrei verið hákristnari en það, að fáu níðangurslegra er slett á einhvern í fúlli alvöru en að hann sé náttúrulaus. Í skáldskap á íslandi hefur líka vissulega verið gengið öllu lengra í þá átt að svívirða heilagleikakenninguna um kynleysið í sambandi við það, þegar okkar ágæti félagi Jesús kom undir en í okkar margumtalaða jólakveri. Í leikritinu „Sálin hans Jóns míns“ er íslenzk bóndakona látin brigzla Maríu Jesúmóður um það, að hún hafi átt einn króga og ekki getað feðrað hann, og okkur þykir það ekkert guðlast, þótt spáð sé, að það rit verði sígilt í menningu okkar.
Og það eru ekki nema fá ár síðan að nýr sjónleikur var færður á svið, þar sem ung stúlka verður barnshafandi á dansleik, og hún klórar sig út úr hneykslinu með því að nota sér það, að barnsfaðirinn gekk undir uppnefninu Stormur, því að hann þótti nokkuð mikill á lofti, eins og títt er um atkvæðakvennamenn. Og stúlkan var tekin trúanleg og talið víst, að átt væri við þann storm, sem stundum er talað um í veðurfregnum, en slíkur stormur var einmitt nefnt ballkvöld. Það var ekki farið neitt dult með, hvert stefnt var. Leikhúsgestir skemmtu sér konunglega. En enginn kirkjunnar þjónn hreyfði mótmælum né varaði við þeirri „ólyfjan“, sem fram var reidd.
3
Í hugleiðingum þessum var áður minnzt á guðfræðideild Háskóla íslands um aldamótin og á fyrstu áratugum þessarar aldar og þann þátt, sem hún átti í trúarlegri mótun og reisn í menningu þjóðarinnar. Nemendur deildarinnar báru henni líka brátt lofsamlegan vitnisburð með því að skipa sér fylktu liði í fylkingarbrjóst til menningarlegrar sóknar. Á þriðja tugi aldarinnar voru þeir orðnir áberandi afl í þjóðlífinu. Hreyfing þeirra vakti mesta athygli og þá, sem enn er mest í minnum, með útgáfu tímaritsins Strauma. Það vakti ekki mesta athygli vegna nýrra skoðana, heldur nýrra viðhorfa til skoðanamyndana í gegnum hreinskilna umræðu. Þá var ekkert útvarp til að flytja öllum landslýð tíðindi af því, sem gerðist í höfuðborg landsins, en þó fylgdist öll þjóðin með því, þegar Stúdenta félag Reykjavíkur gekkst fyrir því, að í höfuðstaðnum var heil vika helguð trúmálaumræðum. Þá bergmáluðu um allt land leiftrandi setningar, sem hrutu af vörum og hittu mark, af því að þeim fylgdi kyngi heitrar sannfæringar, sem hikstaði ekki við að segja sannleikann berum orðum, hvað sem leið „helgustu tilfinningum“ einstakra fanga aldagamalla kennisetninga. Þótt að forminu til stæði Stúdentafélagið fyrir þessari trúmálaumræðu, þá var það á engan hátt í myrkrunum hulið, að hinn almenni trúmálaáhugi, sem átti umtalsverðan hluta róta sinna í áhrifum frá guðfræðideildinni, bar umræður trúmálavikunnar uppi, og yngstu nemendurnir frá deildinni stóðu í fararbroddi með að hleypa fyrirtækinu af stokkunum.
Í þessu sambandi tel ég rétt að vekja eftirtekt á því, að á þessum tíma, sem um var rætt, voru það margir guðfræðinganna frá deildinni sem hurfu frá að leggja út í lífið undir fána kirkjunnar. Það var eins og þeim fyndist sem annar vettvangur væri þeim heppilegri til menningarauka fyrir þjóðina, og það er vert sérstakrar athygli, hve þeir menn verða atkvæðamiklir í þjóðlífinu og sérstaklega í sambandi við félags- og menntamál. Má þar fyrst nefna spekinginn Jakob Kristinsson, sem var um skeið skólastjóri á Eiðum og síðan fræðslumálastjóri. Ásgeir Ásgeirsson fór inn á stjórnmálasviðið, var um skeið fræðslumálastjóri og endaði feril sinn sem forseti ríkisins. Hann reið á vaðið með opinbera árás á rétttrúnað kirkjunnar með bæklingnum „Kver og kirkja“. Freysteinn Gunnarsson sneri sér að kennslu og uppeldismálum og tók síðan við stjórn Kennaraskólans eftir séra Magnús Helgason. Steinþór Guðmundsson sneri sér einnig að skólamálum að háskólagöngu lokinni, en vann jafnhliða sem berserkur til æviloka á níræðisaldri að hvers konar hugsjónamálum og þó sérstaklega á sviði stjórnmála sem eldheitur og einlægur sósíalisti. Einar Magnússon og Sigfús Sigurhjartarson fóru báðir einnig inn á þær brautir. Með Einari varð kennarinn yfirsterkari, og lauk hann opinberum starfsferli sínum sem rektor gamla menntaskólans í Reykjavík. En Sigfús helgaði sig stjórnmálunum af lífi og sál og hefur á því sviði skráð nafn sitt í sögu þjóðarinnar um aldir fram. Þá vil ég að síðustu geta Ludvigs Guðmundssonar. Hann nam um skeið guðfræði við Háskólann, gekk aldrei undir fullnaðarpróf, en brann af hugsjónaeldi um hin fjölbreytilegustu menningarmál, en skipti þar um svið, eftir því sem honum fannst þörfin brýnust hverju sinni.
Heiðríkjan yfir trúmálum á Íslandi á háskóla- og prestskaparárum mínum hefur oft rifjast upp fyrir mér á síðari árum. Tilefni þess hafa verið ýmis konar, en oftast hefur það verið loðmulla frá prédikunarstóli í gegnum útvarpið á helgidögum, og þó einkum frá munni hinna yngri presta.
En aldrei hefur þó kveðið eins skarpt að og nú um hin síðustu áramót. Um eitt atriði hefur þegar verið fjallað í þessum línum, þar sem rætt er um frammistöðu yfirvalds þjóðkirkjunnar. Annað nýlegt fyrirbæri rifjaði upp fyrir mér minningarnar um félagana í guðfræðideildinni og síðar í prestastétt. Að undanförnu hafa verið fluttir í útvarpinu þættir, sem hafa átt að innihalda fróðleik um helztu trúarbrögð mannkynsins, og umsjónarmenn þeirra hafa verið tveir nemar við guðfræðideild Háskólans. Eg hlýddi á þáttinn um kristindóminn og hlustaði vandlega. Meginefni þáttarins voru viðræður við Sigurbjörn Einarsson biskup sem fulltrúa kristninnar. Að samtalinu var nokkur inngangur af hendi forstöðumanna þáttarins. Þeir sögðust ætla að binda þáttinn við „sameiginlegt inntak kristninnar“. Þeir fóru ekki víða um í leit að þessu inntaki. Þeir létu sér nægja að hafa yfir nokkurn veginn orði til orðs lútersku trúarjátninguna, sem prestastefna og kirkjuráð íslenzku þjóðkirkjunnar rétt eftir 1930 sáu sér ekki fært að segja berum orðum að börn væru skírð til, en vildu þó sýna þá virðingu að mæla hana fram við skírnina. Þeir sögðu, að hún tjáði „hið mikilvægasta“. Nú er það staðreynd málsins, að fá eru þau kenningarfyrirbæri, sem fjær eru áhugaefnum okkar mannanna, þótt nú í seinni tíð sé stritazt við að innleiða hana sem helgidóm með hóplestri sem þátt í guðsþjónustum víða um land. Ungu mennirnir voru svo hreinskilnir, að þeir létu þess getið, að trúarjátningin minnist ekkert á það, hvað við eigum að gera, en það var ekki hægt að merkja það á orðum þeirra, að þeim þætti neitt við það að athuga. Mér flaug rétt svona í hug, hvort þessir ungu menn hefðu aldrei lesið söguna, sem höfð er eftir Jesú um dóminn á efsta degi. Þar er sagt mjög skýrum orðum, að hver og einn sé dæmdur eftir því, hvort hann hafi mettað hungraða, klætt nakta, vitjað sjúkra og þeirra, sem eru í fangelsi, — við erum sem sé dæmd eftir afstöðu okkar til meðsystkinanna.
Við skulum enda þessar hugleiðingar með því að rifja það upp, að þessa áramótadaga hefur fleira nýstárlegt á sviði trúmála komið fram í kastljósi okkar viðsjárverðu samtíðar en það, sem hefur verið meginviðfangsefni þeirra. Saman við jólaboðskapinn blönduðust að þessu sinni skelfileg tíðindi úr vestrinu af fjöldamorðum, sem almennt hafa verið rakin til sjúklegs trúarofstækis og virðist ekki einu sinni hafa átt sinn líka í svartasta miðaldamyrkrinu. Samtímis barst annar fréttaþáttur úr austri, sem er enn í fréttum hvers dags, og enginn veit, hve langt líf hann á enn fyrir höndum eða hvernig honum lyktar. En það er búið að lýsa yfir styrjöld, sem háð skal um ríkisvaldið undir fána trúarbragða. Þar jafngildir andstaða gegn stjórn „guðlasti“, og guðlast er stórt orð í heittrúarheimi. Trúarbragðastyrjaldir eigum við að þekkja af orðspori, og voru nefndar heilög stríð. Þær voru á sinni tíð flestum öðrum grimmari, eins og gefur að skilja, þar sem trúin er helgidómur, sem helgað getur hvert það meðal, sem nauðsyn þykir að grípa til. En svo grimmar sem trúarstyrjaldir voru fyrrum, þá voru þær þó lausar við nifteinda- og vetnissprengjur. Þá er það síst til fagnaðar, að á sama tíma skuli glotta upp úr gröfum liðins tíma trúarleg viðhorf frá svartasta skeiði lénskúgunarinnar, þar sem kirkjan var einn voldugasti lénsaðilinn og það tímabil myrkasti kaflinn í sögu hennar.
Gunnar Benediktsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021