trusted online casino malaysia
Ritstjórn 07/07/2017

Beljandi eldgos, bullandi tilfinningakvika

Ritdómur – Þóra Hallgrímsdóttir skrifar

Blóðsól

Karl Th. Birgisson

(Herðubreið, 2017)

Ljóðabók sem heilsar með svartri glansandi kápu og mynd af eldrauðri sól.

Ég opna, þetta er eintak númer 16. Ég verð sextán ára aftur. Aldurinn sem hafði svo afdrífarík áhrif á þess tíma ungling. Sjálfræði. Eitthvað sem unglingurinn þráði þá en þráir að vera án þegar fram líða stundir.

Já, ég veit, þetta snýst ekki um mig. Þetta snýst um ljóð. Þetta knappa form sem getur geymt svo margt. Nokkrar línur af hæglætisveðri eða stinningskalda. Ferhenda alkuls eða sjóðandi hita.

Hvað hefur skáldið að segja mér með eftir að hann hefur heilsað með svo dramatískri áferð og áminningu? Í hvaða sólkerfi er eiginlega Blóðsól?

Eftir að hafa lesið öll tuttugu ljóð bókarinnar sátu fyrst í mér mannlýsingarnar I-VI. Ég er líka konan sem les af áfergju rit eins og Horfnir góðhestar I og II og Forystufé og er alin upp við að trúa á Íslendingasögulegar lýsingar af fólki frekar en Biblíuna. Í ljóðum mannlýsinganna (bls. 29-39) finnst mér ljóðskáldinu takast vel upp og ég hugsa að skáldið ætti að yrkja um fleiri menn. Mér finnst það margslungið og skemmtilegt.

Þegar ég las aftur yfir bókina þá fann ég allt í einu betur fyrir merkingu sólkerfisins sem ég hafði verið að hugsa um áður en ég byrjaði að lesa.

Sólkerfi Blóðsólar er sólkerfi samskipta. Sólkerfi um samskipti fólks sem ljóðskáldið langar til að skilja, finna og vera með. Fólk sem skáldið er hræddur um að vera án.

Nema.

Kannski er hann bara að skrifa um sig sjálfan. Kannski er hann hún og hún hann eða hann hann? (þið skiljið hvað ég meina ef þið lesið ljóðin á bls. 11-17)

Þegar ég las bókina í þriðja sinn get ég fullyrt að í raunsæi Breiðdælingsins er beljandi eldgos, bullandi tilfinningakvika og heitt hraun. Hraun sem ekki hefur enn mótast í þá stapa sem munu lifa í sólkerfi Blóðsólar. Öll hans Rauðufell.

Til þess þarf skáldið að skrifa meira.

Það vona ég svo sannarlega að skáldið geri.

Þóra Hallgrímsdóttir

——

(Tilkynnning um hagsmunatengsl: Karl Th. Birgisson er ritstjóri Herðubreiðar.)

Flokkun : Menning
2,048