Ástarbrautin í Útey
Eftir Guðmund Andra Thorsson
Ástarbrautin í Útey er nú að hverfa undir gras
sem grær yfir hræðslusporin hröð
og hryllingsandköf og bæld óp
og hraðskreiða putta sem æða felmtraðir yfir
stafina á símanum til að ná að skrifa
áður en það er um seinan: Ég elska ykkur
og hraðfleygar hugsanir sem splundrast við
hvern svartan skothvell sem kveður við kalt
og hylur andrána um eilífð og breytir aldingarði í ódáðahraun.
Og Ástarbrautin í Útey er nú að hverfa undir gras
sem grær yfir unga kossa í heitu kvöldi
og loforð í blíðri golu um ævitryggð og eilíft faðmlag
uns dauðinn oss að skilur
grær yfir lífsviðtengingarháttinn sem varð í miðjum klíðum
hlutskipti þeirra Hönnu og Kaj og Tove og Birgitte, Gizems og Snorre
og allra hinna sem hér eftir myndu
og hefðu og hygðu, ynnu, syngju, grétu, sætu, stæðu, vektu, svæfu, færu, elskuðu, væru
grær yfir ófullnuð örlög
öll óortu ljóðin, ókveiktu ljósin, ósögðu orðin,
ódreymda drauma og ódrýgðar dáðir,
öll óreistu húsin, öll ófæddu börnin
En Ástarbrautin í Útey er nú að hverfa undir gras
sem grær yfir bjartar vonir og ilmandi stundir,
laumuleg bros vaknandi ástar og löngunarfullt gítarplokk
og leiddu mig í lundinn við lágnættisbil,
við skulum vaka og vera alltaf til
grær yfir hlátra sem óma kátt í kvikri kyrrð
þar sem fuglarnir hafa að öðru leyti öll völd
grær yfir hljóðskraf undir sólskýli
grær yfir blátt sumarkvöld við varðeldinn
sem ljómar í minni langrar ævi
þegar augu mættust í einu bliki sem
barst alla leið til himna og til baka í mildu regni
Grær því að Ástarbrautin í Útey er nú að hverfa undir gras
sem græðir allt og gefur allt
og grefur allt
uns það af jörðu skal aftur upp rísa
af jörðu sem breiðir sína líknandi blæju
yfir orðin sem sögð voru um
drauminn og friðinn og líf mannanna í sátt og réttlætið
grær yfir skæru og litfögru orðin sem sögð voru
og svifu inn í frjósöm hugskot og þaðan inn í
næsta rjóður þar sem þau tylltu sér hægt á
laust lauf til að verða eilíf í þögninni
sem ríkir á Ástarbrautinni í Útey sem nú er að hverfa
undir grasið sem grær
og óteljandi sveiga hugsana og orða sem lagðir eru þar
á stíginn frá okkur
til minningar um þau
sem aldrei hverfa.
Guðmdundur Andri Thorsson, í minningu þeirra sem létu lífið í Útey í Noregi 22. júlí 2011
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021