trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 09/09/2019

Yfirgangsmenn

Þann 26. janúar í fyrra birti ég grein hér á Herðubreið. Yfirskrift hennar var Óráðin fjegur. Þar var fjallað um tillögur nefndar sem falið hafði verið að finna ráð til þess að bæta hag einkarekinna fjölmiðla. Nú er enn einu sinni hafin umræða um að “bjarga” einkareknu fjölmiðlunum með því að deyða Ríkisútvarpið.  Af þeim sökum sé ég ástæðu til þess að endurbirta grein með örlitlum viðbótum (heitir víst á nútíma sérfræðimáli að greinin sé uppfærð):

Óráðin fjegur

Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði af sér 70 blaðsíðna skýrslu. Hana hefur höfundur þessa pistils ekki lesið, aðeins niðurstöður nefndarmanna, sjöliða tillögur. Þrjár þeirra má telja þess virði að hrinda beri þeim fram; lækkun virðisaukaskatts á afurðir rafrænna miðla, endurgreiðslu á hluta kostnaðar við textagerð og talsetningar, og gagnsæi við kaup hins opinbera á auglýsingum. Ákvæðið um auglýsingar ætti hiklaust að gilda um alla fjölmiðla þar sem birt yrði raunverð, afsláttarverð og greiðslur fyrir birtingu “frétta”.

Fjórar tillögur eru svo vondar að Viðskiptaráð hefur þegar fagnað þeim. Fyrst skal þar telja tillögu um að Útvarpið fái ekki að birta auglýsingar. Ein afleiðing yrði sú að rekstur þess yrði enn háðari fjárveitingum frá alþingi en nú er. Þing, sem skipað væri sérhagsmunafólki fjármálaaflanna að meirihluta, gæti því svelt það í hel við atkvæðagreiðslu.

Auglýsingabann á fjölmiðil er ein tegund ritskoðunar sem meðal annars kæmi í veg fyrir að auglýsingastofur geti gegnt því hlutverki að ráðleggja viðskiptamönnum sínum að birta auglýsingar þar sem bestur árangur næst og einstaklingum að birta tilkynningar í Útvarpinu. Því er ósvarað hvort slíkt bann er brot á tjáningarfrelsi, brot á stjórnarskrá.

Annað fagnaðarefni Viðskiptaráðs er tillaga um afnám á banni við áfengis- og tóbaksauglýsingum. Það telur ráðið skref í rétta átt. Það eru þó ekki lýðheilsusjónarmið sem ráða fögnuði þeirra heldur sú skáldaða blekking að afnám bannsins jafni “samkeppnisstöðu innlendra áfengisframleiðenda og fjölmiðla við samkeppnisaðila sína erlendis.”

Þriðja óráðið sem Viðskiptaráðið fagnar “heilshugar” er end­ur­greiðsla á hluta kostnaðar vegna fram­leiðslu á frétt­um og frétta­tengdu efni. Sem betur fer eru hér ennþá starfandi fjölmiðlar þar sem fréttamenn leggja metnað sinn í að flytja sannar fréttir og greinargóðar. Þeir eiga heiður skilið og njóta trausts. En. Ef greiða á kostnað við fréttaöflun þarf að flokka fréttirnar því varla er ætlunin að greiddur verði kostnaður við að útbúa fréttatilkynningar og gerð falsfrétta, eða hvað? Og hver á þá að vera í flokkunar- og kostnaðarmatsnefnd frétta? Ég, Úlfar Þormóðsson? Helsti talsmaður Viðskiptaráðs, Óli Björn Kárason, alþingismaður, Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi útvarps Sögu, Björn Bjarnason, formaður Varðbergs og tengdafaðir Sýnar og Stöðvar 2 ? Það má sjá það gleraugnalaust að þetta gengi ekki. Þetta er afleit hugmynd.

Fjórða vonda tillaga nefndarinnar er að veita megi undanþágur frá “textun” og talsetningu eins og hugmyndin er orðuð af nefndarmönnum. Þetta yrði til þess að veikja enn stöðu íslenskunnar. Það ætti varla að vera til umræðu á sama tíma og menntamála- og útvarpsráðherra er að leita leiða til þess að efla íslenskuna og tryggja henni framhaldslíf.

Af óráðum nefndarmanna má ljóst vera að ólabirnir heimsins og aðrir talsmenn viðskiptaráða vinna eftir orðtækinu eins dauði er annars brauð. Og þeir vita mætavel að yfirburðir eins yfir annan verða ekki jafnaðir með fégjöfum öðru vísi en að það leiði til ójafnaðar. Og það vilja þeir; ójöfnuð eða dauða. Sér í hag.

Þeir eru öflugir yfirgangsmennirnir, tengdafeður og aðrir birnir sérhagsmunanna. Þess vegna bið ég þá, heiti á þá, sem enn kunna að greina menningarlega metnað frá lágkúru, að hindra samþykkt óráðanna fjögurra sem hér hafa verið nefnd og allar aðrar tilraunir til þess að deyða mikilvirkustu fréttastofu landsins sem um leið er ein dýrmætasta menningarstofnun þess.

Og gleymum því ekki að Ríkisútvarpið er eina stofnunin sem hefur burði til þess að grein falsfréttir frá því sem sannara reynist. Og það er mikils virði.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,321