Viljum við vaxtaokrið?
Ein af meginspurningum íslensks samfélags varðar vaxtaokrið. Viljum við búa við það um ófyrirsjáanlega framtíð að borga hærri vexti en við þurfum?
Óskum við börnunum okkar þess að koma yfir sig þaki og treysta afkomu sína á verðlagningu fjármagns sem er margföld á við það sem fólk í helstu nágrannalöndum okkar hefur búið við um árabil? Og vel að merkja; í dag á þetta fólk að heita í samkeppnislöndum okkar, en hefur þetta mikla og augljósa forskot sem um munar.
Réttlátt? Sanngjarn leikur? Við þurfum hér á heiðarlegu svari að halda. Ekki lýðskrumi. Ekki innantómri flokkapólitík.
Það mátti greina þunga undiröldu á nýafstöðnu Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í umræðunni um rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Vissulega var komið inn á lélega framleiðni í íslenskum atvinnurekstri sem er varla á pari við nokkurt okkar nágrannaríkja – og eins var vitaskuld fjallað um þá fátæklegu áherslu sem hér á landi er lögð á iðn- og tæknigreinar.
Þyngst lá mönnum þó rómur þegar kom að vaxtabyrðinni sem er að sliga öll venjuleg fyrirtæki sem ættu að blómstra við þau skilyrði sem þekkjast víðast hvar, en eru mörg hver að niðurlotum komin vegna þess að peningurinn kostar of mikið.
Sama gildir um heimilin í landinu. Eiga þau enn um sinn og kannski eilíflega að búa við þau ósköp að greiða af húsnæðisskuldum sínum í hálfa aðra mannsævi á meðan það tekur íbúa í öðrum ríkjum fáeina áratugi?
Réttlátt? Sanngjarn leikur?
Erum við að bjóða börnunum okkar upp á langtum meiri byrðar en þau þurfa í raun og veru að axla. Og erum við kannski í reynd að vísa þeim úr landi?
Þetta eru stórar spurningar sem við verðum að hafa svör við; heiðarleg svör, ekki skrumskæld, af því spurnin er bara þessi og hefur ekkert með þjóðhollustu að gera:
Þykir okkur vænna um krónuna en eigin hag?
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Hringbraut, 9. mars 2015
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021