Við þurfum fleiri jafnaðarmannaflokka
Um þessar mundir er tilfinnanlegur skortur á jafnaðarmannaflokkum á Íslandi. Mér sýnist að fyrir þessar kosningar muni ekki nema svo sem kannski sex slíkir bjóða fram. Það er augljóslega allt of lítið.
Það er nefnilega þannig að jafnaðarmenn hafa talsvert mismunandi skoðanir á fjöldamörgum málum. Jafnaðarmenn eiga það að vísu allir sameiginlegt að vilja aukinn jöfnuð, en það er eiginlega allt og sumt. Og auðvitað þurfa allir jafnaðarmenn að geta fundið sér flokk við hæfi.
ESB-sinnaðir jafnaðarmenn eiga Samfylkinguna. ESB-andstæðir jafnaðarmenn eiga sér athvarf í VG. Verðtryggingarsinnaðir jafnaðarmenn stofnuðu Lýðræðisvaktina fyrir síðustu kosningar og til skammar að hún skuli hafa gefist upp. Verðtryggingarfjandsamlegir jafnaðarmenn stofnuðu Dögun, sem nú býður fram aftur. Mikið er það góð tilhugsun.
Afburðamiðjusæknir jafnaðarmenn vildu sjá bjartari framtíð og stofnuðu hana hreinlega upp á eigin spýtur. Gott hjá þeim. Og afskaplega miðjufælnir jafnaðarmenn létu sér ekki nægja VG, heldur stofnuðu Alþýðufylkinguna. Gott hjá þeim líka. Þorsteinn bóndi á Unaósi er vinsæll maður og hefur sennilega ekki séð aðra leið til að komast hjá þingsetu. Skynsamur strákur.
Fáeinir jafnaðarmenn áttuðu sig á því að það gæti verið varasamt að geyma skattahluta ríkisins af lífeyri í vogunarsjóðum til lengdar og hafa nú stofnað Flokk fólksins. Virkilega gott og þarft verk.
Merkasta framtakið hingað til er þó enn ótalið. Furðu margir jafnaðarmenn öðluðust fyrir síðustu kosningar þann einfalda skilning að auðveldasta leiðin að jöfnuði er aðferð Hróa hattar: Að stela frá ríkum og gefa fátækum. Þetta góða fólk kallar sig ræningja og þegar ójöfnuður er orðinn mjög mikill, fylgir því heiti talsvert aðlaðandi hljómur.
En þetta er bara ekki nóg.
Þannig sé ég til dæmis engin merki um Leigjendaflokkinn, þar sem ættu að safnast saman allir þeir sem borga 2.500-kall á fermetra eða meira í húsaleigu. Þess konar jafnaðarmenn eru orðnir svo fjölmennir að þeir gætu hæglega slysast til fá nokkra þingmenn.
Ég á líka eftir að sjá Samvinnuflokkinn hennar Eyglóar Harðardóttur. Sá flokkur á að vera fyrir kaupfélagsjafnaðarmenn sem vilja að í rekstri fyrirtækja hafi hver maður eitt atkvæði, óháð þyngd ýstrunnar.
Á hinn bóginn gleður það mig til muna að fram skuli kominn þjóðfylking jafnaðarmanna, sem krefst fullkomins jöfnuðar í innflytjendamálum – að því einu tilskyldu að staðlaðir íslenskir smokkar rifni ekki við stöðuprófun í Leifsstöð.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019