trusted online casino malaysia
Björn Valur Gíslason 02/10/2016

Við þurfum að tala um krónuna

Stjórnmálamenn leggja oft mikla áherslu á mikilvægi stöðugleika sem þurfi að varðveita og alls ekki ógna. Við heyrum þetta úr ákveðnum áttum í dag. Víst skiptir máli að stöðugleiki ríki í samfélaginu á sem flestum sviðum í þeirri merkingu að við þurfum ekki að óttast kollsteypur af einhverju tagi t.d. efnahagslegar, félagslegar, siðferðilegar eða pólitískar. Allur slíkur óstöðugleiki og óvissa hefur neikvæð áhrif á líf okkar til lengri og skemmri tíma.Peningar, auðmenn

Því eigum við t.d. að gleðjast yfir því hversu vel okkur sem þjóð hefur gengið að ná vopnum okkar eftir Hrunið mikla haustið 2008 þar sem í því felast fyrirheit um að geta skapað stöðugleika í daglegu lífi okkar allra. Allar ríkisstjórnir frá Hruni til dagsins í dag eiga hver með sínum hætti sinn þátt í því hvernig til hefur tekist að reisa landið við eftir þær hörmungar. Það væri ósanngjarnt að halda öðru fram þó um þau mál hafi staðið hörð pólitísk átök. Þó það nú væri. En hér erum við nú samt stödd átta árum frá Hruni í allt annarri og betri stöðu en nokkurn óraði þá fyrir og yfir því eigum við að gleðjast.

Það breytir því samt ekki að á undanförnum þremur árum hafa verið stigin stór skref í átt til aukins ójafnaðar í landinu. Ríkisstjórn hægriflokkanna sem nú er að hrökklast frá völdum hefur ausið peningum úr ríkissjóði til efri tekjulaga samfélagsins og í bankakerfið. Skuldaniðurfærslan, sem svo hefur verið kölluð, náði til að mynda aðeins til um helmings íslenskra heimila, þeirra tekju hærri. Hinn helmingurinn var skilinn eftir. Að lokum fór þessir peningar svo rakleitt inn á útlánsreikninga bankanna, þ.e. ríkissjóður niðurgreiddi skuldir valins hóps fólks með því að greiða skuldir þess við fjármálafyrirtækin. Þetta var því fyrst og síðast framlag úr ríkissjóði til bankanna. Sú aðgerð ein og sér jók mjög efnahagslegan ójöfnuð. Það sama hefur gerst með skattalækkunum á efnafólk og fyrirtæki. Ójöfnuður eykst.

Það er ekki óvarlegt að á þessum ríflega þrem árum hægristjórnarinnar nemi skatta- og gjaldalækkanir um 70-80 milljörðum króna.

Félagslegur ójöfnuður hefur aukist  á undanförnum árum. Það hefur gerst í heilbrigðiskerfinu. Það höfum við séð gerast í skólakerfinu, framhalds- og grunnskólum sem og á leikskóla- og háskólastiginu. Og við höfum horft upp á aukinn ójöfnuð milli kynslóða. Ungt fólk hefur það verr en í dag en áður. Kjör elsta aldurshópsins hafa einnig versnað og það hafa kjör öryrkjar sömuleiðis gerst.

Þetta gerist á sama tíma og talsmenn ríkisstjórnarinnar hreykja sér af efnahagslegum árangri og stöðugleika.

Við höfum orðið vitni að því hvernig stjórnarflokkarnir ganga blyðgunarlaust erinda hagsmunasamtaka með lækkunum á sköttum og gjöldum sem koma þeim einum fyrst og síðast til bóta en ekki öðrum. Dæmi um þetta eru stórlækkuð veiðigjöld, hækkun á matarskatti, lækkun á gjöldum á vöru og þjónustu sem hefur langt frá því skilað sér til almennings í þeim mæli sem sagt var myndi gerast. Allt ýtir þetta undir ójöfnuð.

Mest af öllu hefur þó ríkt pólitískur og siðferðilegur óstöðugleiki ef svo má kalla síðustu þrjú árin. Þetta höfum við séð gerast í átökum milli stjórnarflokkanna á mörgum sviðum sem hafa kostað samfélagið gríðarlegar upphæðir og skert lífskjör í landinu. Þannig tafðist uppgjör við kröfuhafa föllnu bankanna vegna átaka milli flokkanna og þar af leiðandi urðu tafir urðu á öðrum málum s.s. á að hægt yrði að létta á gjaldeyrishöftum ásamt fleiru því tengdu. Uppgjörið vegna Icesave tafðist sömuleiðis vegna ósættis á milli stjórnarflokkanna aðallega þó vegna þess að framsóknarmönnum þótti sá biti súr að kyngja að þurfa að loka því máli með samningum ásamt hárri greiðslu úr ábyrgðarsjóði innstæðutrygginga. En það gerðu þeir samt á endanum eins og alltaf hafði verið stefnt að. Hefur annars einhver séð þennan samning? Fór hann ekki örugglega fyrir þingið?

Linnulítil átök milli stjórnarflokkanna og innan þeirra hafa valdið óstöðugleika í stjórnarfari landsins. Orkustangir hafa verið sendar á milli ráðuneyta flokkanna starfsfólki þeirra til háðungar vegna meintrar leti og dugleysi. Ráðherrar hafa sagt af sér vegna spillingarmála svo dæmi séu tekin. Að lokum féll ríkisstjórnin vegna spillingar í röðum beggja stjórnarflokka sem nú ganga til kosninga meira og minna í tætlum, ýmist á hnjánum eða herðablöðunum, nema hvort tveggja sé. Spilling og skortur á almennu siðferði í bland við hroka og stærilæti af hálfu forystufólks ríkisstjórnarflokkanna hefur haft neikvæð áhrif á ímynd landsins, tafið eðlilega þróun í efnahagslífinu og rýrt lífskjör almennings.

Þannig er það pólitískur óstöðugleiki í bland við ragnar pólitískar ákvarðanir sem viðhalda öðru fremur háu vaxtastigi í landinu. Sé það raunverulegur vilji stjórnmálamanna að ná niður vöxtum þá hleypa þeir ekki tugum milljarða króna inn í hagkerfið í formi skattalækkana líkt og gert hefur verið. Það ýtir undir á háa vexti. Þannig hafa skattalækkanir undanfarinnar ára sem koma fyrst og síðast efnafólki til góða m.a. haft áhrif á að vextir hafa ekki lækkað eins og annars hefði getað orðið. Almenningur borgar fyrir það. Þetta ættu þeir stjórnarliðar og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að hafa í huga þegar þeir hafa uppi mótmæli við háum vöxtum í landinu. Þeir ættu að líta í spegil.

Haldi einhver að ég sé að gera lítið úr mikilvægi þess að í landinu ríki stöðugleiki þá er það ekki svo. En það þarf að vera stöðugleiki á öllum sviðum og með jákvæðum formerkjum. Stöðugleiki á einu sviði á kostnað annars leiðir til ójafnaðar og ójöfnuður leiðir aldrei neitt gott af sér. Svo einfalt er það.

Það hefur sem sagt augljóslega ríkt mikill pólitískur og efnahagslegur óstöðugleiki síðustu þrjú árin. Því þurfum við að breyta. Það verður okkar hlutverk, fáum við til þess nægilegan stuðning í kosningunum eftir mánuð.

Og verkefnin framundan eru bæði umfangsmikil og krefjandi.

Hvernig hyggjast stjórnmálamenn haga leikreglum fjármálakerfisins í framtíðinni? Hvernig fjármálakerfi viljum við Vinstri græn skapa? Hvað eigum við að gera við bankana sem ríkið á? Ætlum við að eiga þá? Ætlum við að selja þá að hluta eða öllu leyti og þá hvernig? Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að vel geti farið á því að sameina í einn þá tvo banka sem ríkið á, Landsbankann og Íslandsbanka sem verði í meirihlutaeigu ríkisins. Það þarf að skilja annars vegar á milli fjárfestinga og viðskiptahluta bankanna og hins vegar á milli innlendrar og erlendrar starfsemi þeirra þó ekki væri nema í ljósi sögunnar. Það síðarnefnda jafnvel mikilvægara.

Vextir verða alltaf háir á Íslandi og hærri en í samanburðarlöndum okkar á meðan við búum við langvarandi óstöðugleika og örgjaldmiðil að auki. Við verðum að ræða um gjaldmiðilinn og þá ekki bara hvort hann heitir króna, evra, pund eða eitthvað annað. Það skiptir ekki öllu máli heldur hitt hvernig við getum sem best tryggt góð lífskjör fyrir almenning í landinu. Í mínum huga er fullreynt með þá séríslensku mynt sem við notum og enginn annar vill eiga í viðskiptum með. Við í Vinstri grænum höfum ekki rætt mikið um gjaldmiðilinn og hugsanlegar breytingar á honum. Það er fyrst og síðast vegna þess að við hengjum þá umræðu oftast á aðild Íslands að ESB. En það þarf ekkert endilega að vera þannig. Við sem ábyrgur stjórnmálaflokkur verðum að ræða þessi málefni með opnum huga, fordómalaust og með hagsmuni almennings í forgrunni. Fyrir fjórum árum gaf Seðlabanki Íslands út mjög yfirgripsmikla og gagnlega skýrslu um valkosti Íslands í gjalmiðils- og gengismálum. Sú skýrsla og valkostirnir sem dregnir eru fram í henni fengu hins vegar aldrei sanngjarna og nauðsynlega umræðu heldur tóku stjórnmálamenn hana með sér í gamla góða skotgrafahernaðinn, með eða á móti krónu, með eða á móti Evrópusambandinu og þar er hún enn. Þetta gengur ekki og við getum hreinlega ekki leyft okkur að taka þessi mál ekki föstum tökum og ræða þau í fullri alvöru. Við verðum að ræða um krónuna.

Verðtrygging er fylgifiskur þess vantrausts sem pólitískur og efnahagslegur óstöðugleiki leiðir af sér. Stöðugleiki til skamms tíma mun ekki verða til þess að verðtrygging lána heyri sögunni til. Enn síður er það til árangurs líklegt að banna fólki að taka verðtryggð lán eins og mér sýnist stefnt á að gera. Slíkt bann breytir engu um eðli málsins. Pólitískur og efnahagslegur stöðugleiki til langs tíma sem á sér einhverja sögu sem hægt er að vitna í og styðjast við er hins vegar mun líklegri til þess. Þangað verðum við að stefna.

Vegna viðvarandi óstöðugleika áratugum saman og vegna þess örhagkerfis sem við búum við og vegna þess að við notumst við okkar eigin örmynt sem hefur ekkert gildi utan landsteinanna, munum við alltaf búa við höft af einhverju tagi. Gjaldeyrishöft. Höft í formi hárra vaxta. Höft í formi gengissveifla. Höft í formi handstýringar á gengi. Höft af öllum gerðum og stærðum sem við Íslendingar þekkjum svo vel á eigin skinni og af sárri reynslu. Í dag er það gengi krónunnar umfram annað sem er áhyggjuefnið og við eigum að vera að horfa til að mínu mati. Erum við kannski of upptekin af því að uppfylla verðbólgumarkiðin á kostnað stöðugleika í gengi krónunnar? Það er hætta á því að mínu mati að nú geti farið af stað kunnuglegt ferli sem við þekkjum svo vel þegar gengi krónunnar styrkist um of, lækkar verðmæti útflutnings og býr til kaupmátt sem ekki er full innistæða fyrir. Við erum sem sagt flest alin upp í allskonar efnahagslegum höftum, búum við höft og virðumst vera ákveðin í því að bjóða börnunum okkar upp á það sama. Þetta er óásættanleg staða. Við Íslendingar getum ekki lengur boðið okkur sjálfum upp á slíkt umhverfi. Við verðum að feta okkur inn á nýjar slóðir.

Við skulum samt ekki falla í þann fúla pytt sem aðrir hafa fallið í að halda því fram að það sé létt verk að koma á þeim samfélagslega stöðugleika sem þarf að vera til að skapa hér á landi lífskjör, sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Þannig er það ekki. Það er í raun drullu erfitt og þarfnast sterkrar pólitískrar framtíðarsýnar og markmiðssetningar og það mun taka tíma.

Þess vegna erum við hér í dag.

Með þessum fundi hefjum við formlega kosningabaráttu. Það gerum við með því að leggja fram ýtarlega útfærslu á leiðum sem við viljum fara til að ná settum markmiðum. Markmiðin eru að afla tekna til að fjárfesta í innviðum, snúa undanhaldi í velferðar-, mennta- og heilbrigðismálum í sókn og auka jöfnuð í samfélaginu. Fyrir fundinum liggja til afgreiðslu tillögur stjórnar flokksins um fjármögnun ríkissjóðs til næstu ára sem fela einmitt þetta í sér.

Ég vona að fundarmenn kynni sér þessar tillögur vel og ræði þær sín á milli og í umræðum á fundinum síðar í kvöld.

Í kosningabaráttunni sem framundan er næstu fjórar vikurnar skulum við vera ákveðin í málflutningi okkar. Við skulum ekki forðast átök um stefnumál okkar eða annarra. Við skulum ekki vera hrædd við að vera umdeild vegna skoðana okkar og vera óhrædd að bjóða þeim byrginn sem vilja takast á við okkur um framtíðina.  Stjórnmálamenn eiga að vera umdeildir og áberandi, rökfastir og óragir í pólitískum átökum, sókndjarfir en um leið rökfastir og sanngjarnir í málflutningi sínum. En umfram allt eiga þeir að vera sjálfum sér trúir, fara fyrir hópnum og láta sameiginlega hagsmuni ráða en láta ekki blindast af persónulegum metnaði. Það er til nóg af stjórnmálamönnum sem rekur um í logninu og líður best í kjölfari hinna sem ryðja veginn. Okkur Vinstri grænum vegnar líka alltaf betur í sókn en vörn. Við skulum því sækja fram, leiða en ekki elta og láta kosningarnar snúast um þau málefni sem við viljum að kosið verði um.

Pólitísk og málefnaleg staða Vinstri grænna er sterk og betri en annarra stjórnmálaflokka og það eigum við að nýta okkur. Látum því finna fyrir okkur um leið og við vinnum stefnu okkar og áherslum fylgis.

Þetta bið ég frambjóðendur sem og stuðningsmenn okkar um að hafa hugfast á næstu vikum.

(Ræða flutt á flokksráðsfundi Vinstri grænna 30. september 2016.)

Latest posts by Björn Valur Gíslason (see all)
Flokkun : Pistlar
1,653