Verulega vond blaðamennska
Ein af fréttum föstudagsins var áreiðanlega grein bandaríska sendiherrans á Íslandi, sem hann hafði sent Morgunblaðinu til birtingar en þótti birtingin ganga seint og ákvað því að nota facebook til að koma skoðun sinni á framfæri.
Hér verður ekki tekin afstaða til efnis málsins, aðeins vinnubragða og umfjöllunar fjölmiðla.
Eyjan greindi fyrst frá málinu og þar kemur skýrt fram að sendiherrann vildi bregðast við frétt sem birtist í Morgunblaðinu 4. janúar. Ekki er ljóst hvenær sendiráðið kom viðbrögðum sínum á framfæri við Morgunblaðið, en fram kemur að það vonaðist til þess að greinin birtist í föstudagsblaðinu 8. janúar.
Þegar það gerðist ekki vildi sendiráðið ekki bíða lengur og ákvað að nota facebook.
Þetta eru einu staðreyndirnar sem liggja fyrir þegar þetta er skrifað seint á föstudagskvöldi. Allt að einu kaus Eyjan að fullyrða: „[Greinin] fékkst ekki birt þar.“ Í Morgunblaðinu semsagt. Fyrir þessu liggja engar upplýsingar. Svo getur farið að grein sendiherrans birtist í fyrramálið (laugardag) eða jafnvel á mánudag.
Enginn annar fjölmiðill gekk svo langt að fullyrða að Morgunblaðið hefði neitað að birta grein sendiherrans. Þeir greindu skilmerkilega frá óskum og vonum sendiráðsins um tiltekna dagsetningu, og meðfylgjandi vonbrigðum.
Nema einn. Einn fjölmiðill gekk miklu lengra. Sjónvarpsstöðin/vefmiðillinn Hringbraut fullyrti í fyrirsögn: „MOGGINN: ÞAGGAR NIÐUR Í SENDIHERRA“.
Látum nú vera hvernig Morgunblaðið getur þaggað niður í sendiherra, en hitt er verra að fyrirsögnin stenst enga skoðun, ekki efnislega, hvað þá faglega. Þegar blaðamaður/vefritstjóri Hringbrautar kynnti „fréttina“ á facebook bætti hann um betur og sagði að Morgunblaðið „neitaði“ að birta grein sendiherrans.
Engin þessara fullyrðinga á sér stoð í staðreyndum. Jafnvel þótt þær séu settar fram í hástöfum.
Það er verulega vond blaðamennska.
- Breytingar eru vondar - 27/04/2019
- Það þarf ekki alltaf falsfréttir - 14/03/2019
- Að reka hausinn í – tvisvar - 14/02/2019