trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 01/05/2017

Verstöðin Ísland

Það er bæði gróska og titringur í íslenska vinstrinu og hérna hinum megin við tjörnina á víst að stofna nýjan sósialískan stjórnmálaflokk eftir … hálftíma. Og aldrei þessu vant kem ég ekki nálægt því!

Reyndar á það eiginlega við um stjórnmálalíf heimsins eins og það leggur sig. Það er titringur víða og við erum að ég held, stödd í auga stormsins. Kannski fer þetta allt saman vel en það veltur líka á okkur og hvernig okkur tekst að vera rödd skynseminnar á þessum miklu örlaga tímum.

Átökin í stjórnmálunum virðast ekki lengur snúast bara um hægri og vinstri heldur frjálslyndi og alþjóðahyggju gegn popúlískum hræðsluáróðri einangrunarsinna. Við sem skilgreinum okkur sem „góða fólkið“ – stöndum ráðþrota frammi fyrir uppgangi Trumps, Le Pen, Brexit, múslimahatara og flugvallarvina þessa heims.

Mörg okkar hafa reynt að taka umræðuna; rökstyðja af hverju alþjóðasamvinna sé góð og trúfrelsi sjálfsögð mannréttindi. Segja hvers vegna við viljum ekki tilveru byggða á hatri og hræðslu heldur umburðarlyndi, ást og gleði. „Hrædda fólkið“ svarar fullum hálsi og segir okkur einföld og barnaleg. Auðvitað sé heimurinn stórhættulegur. Netið geymir svo ótal greinar, blogg, myndir og „gögn“ sem slengt er fram til að sanna hina réttu skoðun, óháð raunverulegu sannleiksgildi gagnanna. Falskar fréttir eru orðnar að daglegum raunveruleika.  „Góða fólkið“ verður táknmynd ríkjandi stéttar sem vill óbreytt ástand og hr. Google sýnir okkur bara það sem við viljum sjá.

Stóra spurningin er hvernig við getum breytt þessu? Ég ætla ekki að þykjast hafa einhverja einfalda lausn á öllum heimsins vanda. En … ég er með kenningu um uppgang hægri popúlistanna. Og jafnvel vinstri popúlistanna líka.

Fólk hefur misst trúna á kerfið og það er ekki að ástæðulausu. Venjulegt fólk upplifir sig valdalaust. Okkur er sagt að við búum í lýðræðisþjóðfélagi. Við erum heppin.

Samt er það svo að höndlað er með svo margt af því sem skiptir mestu máli utan hins lýðræðislega ramma. Fiskurinn í sjónum syndir í net útvalinna. Arðurinn af auðlindum okkar nýtist ekki í menntakerfið. Landspítalinn nýtur ekki góðs af orkunni í iðrum jarðar. Ferðamenn koma og skoða okkar stórbrotna land án þess að ferðaþjónustan greiði fyrir það sem hún er að selja. Hún vill ekki einu sinni greiða virðisaukaskatt! Fjölskylda forsætisráðherra heldur áfram að hagnast á viðskiptum við ríkið.

Það er verið að ræna okkur alla daga.

Í dag er 1. maí. Dagur verkalýðsins – dagur kjarabaráttunnar. En hvað er kjarabarátta? Hvað skiptir mestu máli? Kjör eru ekki bara það sem við fáum í launaumslaginu um hver mánaðarmót. Kjör okkar ráðast ekki síður af umhverfinu sem við lifum og hrærumst í.

Þegar allt hrundi og tilveran snérist á hvolf var það svo augljóst að launin skiptu ekki mestu máli. Kjörin og lífsgæðin fólust í svo miklu fleiri hlutum. Til dæmis vöxtum og verðtryggingu. Þá á ekki og má ekki vera ígildi áhættufjárfestingar að stofna fjölskyldu og heimili. En þannig er það á Íslandi.

Á Íslandi, einu Norðurlandanna, er venjulegu launafólki beint út á almennan húsnæðismarkað. Markaðurinn á bara að sjá um þetta.

En vitiði bara hvað? Markaðurinn er ótrúlega lélegur í að sjá manneskjum fyrir öruggu húsnæði á hagstæðu verði. Hann er eiginlega miklu betri í að skapa skortstöður og færa verðmæti í hendur þeirra stóru sem geta þá grætt enn meira á því að leigja eignirnar á uppsprengdu verði.

Við eigum ekki að henda unga fólkinu okkar út á markaðinn þar sem lögmál frumskógarins gilda. Samfélagið á að tryggja húsnæðisöryggi allra.

Húsnæðismál eru líka kjarabarátta. Það skiptir engu máli hvort maður fær 50 þúsund krónum meira eða minna í laun ef maður hefur engan stað til að búa á.

Bankinn minn, sem er meira að segja ríkisbanki nú um stundir, stendur í stórri auglýsingaherferð þessa daganna. Herferðin gengur út á að telja ungu fólki trú um að ef það geti ekki keypt sér eigið húsnæði þá sé það ekki samfélagslegt eða kerfislægt vandamál heldur sé það bara ekki nógu skipulagt. Bankinn minn segir að maður þurfi bara að hafa plan, þá sé þetta vel hægt.

Nánari útlistun fylgir reyndar og ófáar reynslusögur. Það er t.d. vel hægt að kaupa sér íbúð ef maður á tímavél og getur fært sig aftur til ársins 2001. Þá var bara vel hægt að kaupa sér íbúð! Það er líka gott plan að fá pabba og mömmu til að borga útborgunina. Gengur kannski ekki alveg upp ef pabbi og mamma lentu illa í hruninu og voru meðal þeirra sem misstu allt sitt til bankanna vegna þess að skuldirnar og allar nauðsynjar ruku upp en launin lækkuðu eða breyttust jafnvel í atvinnuleysisbætur, greiddar út í matador-peningum. Þriðja leiðin sem, samkvæmt bankanum mínum, sem vænleg er til árangurs – gott plan – er að búa í Grindavík.

Sko, það er ekkert að því að búa í Grindavík, per se, t.d. ef maður vinnur þar eða á þar vini og fjölskyldu. En ef maður vinnur ekki í Grindavík og þekkir engan þar getur það vart talist gott plan. Ekki einu sinni ásættanlegt plan. Auk þess eru sennilega engar lausar íbúðir í Grindavík lengur eftir að Bláa lónið keypti heila blokk þar undir starfsfólkið sitt.

Það voru margir sem hrópuðu húrra fyrir IKEA þegar fyrirtækið tilkynnti að það hyggðist draga upp sexkantinn og skrúfa saman eina blokk fyrir starfsfólkið sitt. „Svona eiga fyrirtæki að vera“ og „Vei!“

En svo spurði einhver hvað gerðist ef íbúarnir hættu að vinna fyrir IKEA. – Nú, þá þyrftu þeir auðvitað að flytja.

Erum við sátt við að Ísland sé bara einhver verstöð? Ég bara spyr? Á fólkið okkar að búa í verbúðum hjá vinnuveitendunum einhvers staðar úti í hrauni í Grindavík eða Garðabæ?

Menntakerfið okkar er fjársvelt  og það er eins og það skipti engu máli. Við þurfum hvort sem er ekkert fólk sem kann að beita gagnrýninni hugsun á verstöðinni Íslandi. Við þurfum ekki menningu og listir – bara afþreyingu sem slekkur á óþægilegu röddunum í hausnum á okkur. Röddunum sem segja okkur að það sé eitthvað bogið við þetta.

Því það er eitthvað bogið við það að ein ríkasta þjóð í heimi geti ekki haldið úti sómasamlegu og ómygluðu þjóðarsjúkrahúsi. Það er eitthvað bogið við það að rukka sjúklinga fyrir læknisaðstoð og lyf í landi sem er svo ríkt af auðlindum að við getum varla talið þær. Og það er eitthvað verulega bogið við það að við skulum ekki sem samfélag sjá sóma okkar í því að tryggja unga fólkinu okkar almennilega og gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónustu.

Það er líka eitthvað bogið við það að árið 2015 hafi kostað 8,1 milljarð að reka lífeyrissjóðina okkar. Mér finnst líka eitthvað bogið við það að á Íslandi fyrirfinnist fátækt og börn fari jafnvel svöng að sofa.

Viðskiptabankarnir þrír sem komu okkur á kaldann klakann en voru endurreistir hafa hagnast um 545 milljarða frá hruni. Það er ekkert eðlilegt við það og það er heldur ekkert eðlilegt við vaxtaokrið og þau skilaboð sem send eru unga fólkinu okkar – að þau þurfi bara að hafa plan. Stóra planið í þessu öllu saman er nefnilega að gera okkur háð fjármálavaldinu. Sá sem skuldar er fastur. Sá sem skuldar getur ekki bara lifað á núðlum í mánuð og farið í verkfall. Hann verður að halda áfram að hlaupa til að greiða yfirdráttinn, kreditkortareikninginn og síðast en ekki síst húsnæðislánið eða leiguna.

Í þessu umhverfi mætti ætla að boðskapur jafnaðarmanna að félli í ljúfan jarðveg.  Ýmislegt fleira ætti að vinna með flokki eins og Samfylkingunni.

OECD hefur fullyrt að mikill ójöfnuður sé skaðlegur og hamli beinlínis hagvexti. Bæði AGS og Alþjóðabankinn, þær kapítalísku stofnanir, hafa meira að segja tekið undir þetta. Mikilsmetnir hagfræðingar hafa einnig í vaxandi mæli mælt gegn ójöfnuði, nægir að nefna Thomas Piketty í því samhengi. Við vitum líka að Íslendingar eru – inn við beinið – flestir jafnaðarmenn.

Samfylkingin virðist þó ekki ná í gegn og það er ekkert lát á kenningum þar um og ætla ég ekki að bæta við þær. En nú er mál að linni. Við þurfum sterkan jafnað­ar­manna­flokk að nor­rænni fyr­ir­mynd á Íslandi. Hugsanlega ætlar Sósíalistaflokkur Íslands sér að verða sá flokkur en á það ættum við ekki að treysta heldur standa undir ábyrgð. Samfylkingin þarf að girða sig í brók, tala skýrt og ákveða að gefa engan afslátt þegar kemur að rétt­læti, sann­girni og lýð­ræði.

 

 

Ræða flutt á Verkalýðskaffi Samfylkingarfélagsins í Reykjaví í Iðnó 1. maí 2017

socialism_social_democracy

 

Flokkun : Efst á baugi
1,263