trusted online casino malaysia
Ritstjórn 29/07/2014

Varalið lögreglu: Rauður þráður frá rússnesku byltingunni (I)

Eftir Guðna Th. Jóhannesson Björn Bjarnason hershöfðingi

Laust fyrir jól 2007 tilkynnti Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra að eftir áramót legði hann fyrir Alþingi frumvarp til laga um varalið lögreglu.* Um leið lýsti hann því hvers vegna ríkisvaldið þyrfti á slíku liði að halda: „Sérstakar aðstæður, svo sem vegna öryggismála, kalla á að tímabundið getur þurft að fjölga mjög lögreglumönnum við störf. Opinberar heimsóknir, fjölmennir alþjóðlegir fundir, margvíslegt almannavarnaástand og önnur slík verkefni kalla í reynd á fleiri lögreglumenn en hægt er að tefla fram hérlendis.“

Sitt sýndist hverjum um áform dómsmálaráðherrans; sumir töldu löngu tímabært að stofna varalögreglu í landinu en aðrir voru efins. Í ljósi sögunnar ætti sá ágreiningur ekki að koma á óvart. Allar götur frá því að Íslendingar tóku stjórn eigin mála í sínar hendur hafa þeir deilt um það hvort styrkja þyrfti lögreglu landsins. Stundum hefur það verið gert en varalið hefur þó aldrei lifað til lengdar á Íslandi – að minnsta kosti ekki hingað til.

Rautt stríð og hvítt

Árið 1917 vakti rússneska byltingin ótta meðal valdhafa víða um Evrópu. Myndi hún breiðast út um álfuna alla, eins og forsprakkar hennar héldu statt og stöðugt fram? Svo fór ekki fyrst um sinn en ógnin virtist áfram vofa yfir: „Engum blandast hugur um, að Bolshevismanum vex geysilega fylgi í flestöllum menningarlöndum, þrátt fyrir alla mótspyrnu. Og það virðist svo, að sá tími sé óðum að nálgast, að upp úr logi milli hans og auðvaldsins.“ Þetta voru lokaorð jafnaðarmannsins Stefáns Pjeturssonar í bók sinni, Byltingin í Rússlandi, sem kom út í maí 1921. Síðar sama ár mátti jafnvel halda að byltingin hefði borist til Íslands. Ólafur Friðriksson, einn helsti leiðtogi Alþýðuflokksins (sem þá boðaði friðsamlega valdatöku verkalýðsins eins og aðrir sósíaldemókratískir flokkar), hafnaði þeirri kröfu stjórnvalda að rússneskum dreng í fóstri hjá honum yrði vikið úr landi. „Hvíta stríðið“ eða „Drengsmálið“ var útkljáð með valdi. Eftir snarpan bardaga við stuðningsmenn Ólafs, sem höfðu búist til varnar á heimili hans við Suðurgötu í Reykjavík, tókst lögreglu og sveit sjálfboðaliða að ná drengnum og vísa á brott.

Þeir sem gengu harðast fram kölluðu hvorir aðra „rauðliða“ og „hvítliða“ eftir stríðandi fylkingum í Rússlandi, og einhverjir góðborgarar í Reykjavík voru að sögn vissir um að „byltingu“ hefði verið afstýrt. Það var alrangt en samt hlaut yfirvöldum að vera órótt vegna þess að þau urðu að reiða sig á á liðsafla úr röðum óbreyttra borgara til þess að framfylgja vilja sínum. Yrði ekki að efla lögregluna með einhverjum hætti?

„Kósakkalöggæsla er undanfari bolsévismans“

Harðar vinnudeilur urðu nokkrum sinnum fyrstu árin eftir „Hvíta stríðið“. Í Blöndahlsslagnum svokallaða sumarið 1923 tókust sjómenn til dæmis á við lögreglu og aðstoðarlið hennar og hlutu sumir pústra í þeim slag. Um tveimur árum síðar lagði ríkisstjórn Íhaldsflokksins (forvera Sjálfstæðisflokksins) fram frumvarp til laga um varalögreglu. Stuðningsmenn þess sögðu „Hvíta stríðið“ og önnur átök sýna að stjórnvöld í landinu mættu ekki vera svo vanmegna að lítill hópur manna hefði í fullu tré við þau. Og ógnin að utan væri ekki síður varasöm: „Því er ekki að neita, að nokkrir menn gætu komið og „annekterað“ landið með lítilfjörlegum byssuhólkum að vopnum, ef ekki er ríkislögregla til varnar,“ sagði Bjarni Jónsson frá Vogi í umræðum á þingi.

Andstæðingar frumvarpsins þóttust hins vegar sjá að stofnun varaliðs, sem æfði sig í bardögum og vopnaburði og væri við öllu búið að staðaldri, gæti skipað þjóðinni í stríðandi fylkingar. „Það getur orðið upphaf nýrrar Sturlungaaldar á Íslandi,“ sagði framsóknarmaðurinn Tryggvi Þórhallsson og félagi hans Ásgeir Ásgeirsson (sem gekk seinna í Alþýðuflokkinn og varð enn síðar forseti Íslands) var sama sinnis: „Sú þjóð er á heljarþröm, sem ætlar að búa um sig rjett eins og bylting sje á hverju augnabragði að brjótast út. Kósakkalöggæsla er undanfari bolsévismans. Það á hvorttveggja jafnlítið erindi til okkar lands.“ Jafnaðarmenn voru ekki síður á móti öllum áformum um varalögreglu og Jón Baldvinsson, upprennandi þingmaður Alþýðuflokksins, var ekkert að skafa utan af því þegar hann sagði að það væri „í rauninni ekkert annað en „fascismi“ eftir ítalskri fyrirmynd, sem stjórnin vill koma hjer á“.

Varalögregla var ekki stofnuð í þetta sinn og vart verður séð að brýn þörf hafi verið fyrir hana. „Hvíta stríðið“ var einstakt og vinnudeilur hefðu líklega orðið enn harðari en ella ef yfirvöldin hefðu haft sveitir manna tilbúnar að skakka leikinn. Við sérstaka atburði eins og hátíðahöldin á Þingvöllum 1930, þegar þúsund ára afmæli Alþingis var minnst, dugði líka að stofna sérstaka gæsluflokka sem voru svo leystir upp. Áfram töldust lögregluþjónar í Reykjavík því aðeins á annan tuginn og þeir voru orðnir litlu fleiri þegar kreppuárin skullu á landanum með öllum sínum erfiðleikum, mótsetningum og stéttaátökum.

9. nóvember 1932

Hending ein réð því að lögreglumenn voru ekki lamdir til ólífis í Gúttóslagnum fræga í Reykjavík 9. nóvember 1932. Sárreiðir verkamenn mótmæltu því þá með handaflinu að bæjarstjórnin ætlaði að lækka laun í atvinnubótavinnu. Forystumenn Kommúnistaflokksins eggjuðu þá áfram og „Varalið verkalýðsins“, hópur um 30 ungkommúnista, lét líka til sín taka svo um munaði. Lögreglulið Reykjavíkur var svipað að fjölda og að kvöldi dags hafði það verið ofurliði borið.

Rétt eins og í götubardaganum við hús Ólafs Friðrikssonar rúmum áratug fyrr var „bylting“ fráleitt í vændum og ró færðist á ný yfir bæinn. En Gúttóslagurinn hafði þó sýnt hve veikt ríkisvaldið var á Íslandi. Þar að auki höfðu ungir þjóðernissinnar og nasistar komið upp eigin liðssveit um þessar mundir og Alþýðuflokkurinn sömuleiðis. Vildu forsprakkar þessara stjórnmálasamtaka svo við hafa, gætu þeir skipað liðsmönnum sínum að berja lögregluna sundur og saman.

Gat það gengið að lögreglan væri jafn fáliðuð eða fámennari en liðssveitir einstakra stjórnmálaflokka? Hermann Jónasson, lögreglustjóri í Reykjavík, vildi stofna varalið og taldi rétt að haga því „með eitthvað svipuðum hætti og gert er í smáríkinu Luxemburg“. Eftir Gúttóslaginn fullyrti höfundur „Reykjavíkurbréfs“ Morgunblaðsins jafnframt að þau átök hefðu staðfest „að lífsskilyrði, eða fjöregg hins íslenska ríkis er það að vald sje til í landinu er hafi þann styrkleika að haldið sje hér uppi lögum og reglu“. Altalað var að sjálfstæðismenn hefðu þá þegar viljað safna saman um 400 sjálfboðaliðum til að handtaka leiðtogasveit Kommúnistaflokksins. Af því varð ekki en á hinn bóginn var rúmlega 100 manna varalögreglu komið á laggirnar til þess að tryggja, eins og Jón Þorláksson, formaður Sjálfstæðisflokksins, komst að orði, „að sterkasta aflið í landinu standi ávalt bak við lögin“.

„Nú á að gera út um það, hvort ríkið á að standa eða falla“

Herlógó XDVerkalýðssamtök í Reykjavík – Verkamannafélagið Dagsbrún, Sjómannafélag Reykjavíkur og Alþýðusamband Íslands, sem þá var samofið Alþýðuflokknum – brugðust við stofnun varalögreglunnar með því að setja verkbann á alla liðsmenn hennar. Það gat komið þeim illa og eins var slæmt að liðið varð til utan laga. Byrjað var að bæta úr því í mars 1933 þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lagði fram frumvarp til laga um „ríkislögreglu“. Þar sagði meðal annars að lögreglustjórar mættu skipa borgurum landsins að ganga í varalið lögreglu þegar nauðsyn krefði.

Andúð á varalögreglunni kom glöggt fram, jafnt innan þings sem utan. Jón Baldvinsson, sem nú var orðinn formaður Alþýðuflokksins, staðhæfði að dómsmálaráðherra landsins yrði veitt vald til að „gera hvern þremilinn sem honum sýnist, ef hann bara kallar það að halda uppi „reglu og öryggi“.“ Þá yrði varalögreglan örugglega kölluð til í harðvítugum launadeilum og tók Jón þannig upp þráðinn frá því í umræðunum á þingi um áratug fyrr. Ólafur Thors, einn framkvæmdastjóra útgerðarrisans Kveldúlfs og frammámaður í Sjálfstæðisflokknum, sagði á hinn bóginn að gera þyrfti út um það, „hvort ríkið á að standa eða falla. Nú á að skera úr, hvort hver óaldarseggurinn á að fá að vaða uppi um annan þveran, án þess að ríkisvaldið hafi minnsta bolmagn til þess að standast þær árásir.“

Sjálfstæðismenn sýndu líka á landsfundi sínum í apríl 1933 að þeir töldu ekki seinna vænna að efla lögregluna í landinu. Þegar haft var á orði að slíkt myndi kosta skildinginn kvaðst Sigurður Sigurðsson sýslumaður, framsögumaður „ríkislögreglunefndar“, vilja spyrja á móti „hvort sú þjóð, sem ekki teldist hafa ráð á að halda uppi lögum og rjetti í landinu – hefði þá ráð á að halda uppi sjálfstæðu ríki?“ Og stæðu stjórnvöld sig ekki í stykkinu yrðu aðrir að gera það; landsfundurinn skoraði einum rómi á miðstjórn flokksins „að beita sjer fyrir því, að Sjálfstæðisflokkurinn geri fullnægjandi ráðstafanir til að vernda borgarana, ef ríkisvaldið bregst skyldu sinni í því efni“.

Flokksfélagið Vörður og ungliðasamtökin Heimdallur létu verkin tala og stofnuðu „fánalið“ sem skyldi meðal annars tryggja að andstæðingar sjálfstæðismanna gætu ekki hleypt upp fundum þeirra. Á þingi varð frumvarpið um varalögreglu svo að lögum en liðið reyndist skammlíft: Þegar jafnaðarmenn mynduðu „Stjórn hinna vinnandi stétta“ með Framsóknarflokknum sumarið 1934 (undir forsæti Hermanns Jónassonar sem lét þá af embætti lögreglustjóra) fengu þeir þeirri kröfu sinni framgengt að hún yrði lögð niður. Á hinn bóginn var fjölgað í lögregluliði Reykjavíkur þannig að það taldi nær 50 manns.

Varalið lögreglu festist aldrei í sessi á fjórða áratug síðustu aldar vegna þess að það tengdist um of stéttaátökum og vinnudeilum. Félagar og stuðningsmenn Alþýðuflokksins – svo ekki sé minnst á Kommúnistaflokkinn – hefðu aldrei litið á varalögreglu sem hlutlausa varnarsveit á vegum hlutlauss ríkisvalds. Líklega var friður í landinu betur tryggður þegar varalögreglan hvarf úr sögunni.

„Skotæfingar, skammbyssur, rifflar og hríðskotabyssur“

Í september 1936 setti Jónatan Hallvarðsson, nýráðinn lögreglustjóri í Reykjavík, á blað hugleiðingar um framtíðarskipan lögreglunnar í Reykjavík. Hún þyrfti meðal annars að þjálfast í því að beita byssum og táragasi, og hugsanlega fá „vatnsbíl“ til að sundra óeirðaseggjum. Einnig benti lögreglustjórinn á þann vanda að í landinu væri enginn her „og hefir ríkisvaldið því ekkert við að styðjast, annað en lögregluna, og lögreglan engan bakhjarl er í nauðir rekur“.

Rúmum þremur árum síðar, þegar heimsstyrjöld var skollin á, tók Hermann Jónasson í sama streng. Hann var enn forsætisráðherra en fór nú fyrir „Þjóðstjórninni“, stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. „Þótt þess sé ekki að vænta að við verðum nokkru sinni megnugir þess að verja okkur gegn erlendri ásælni“, sagði Hermann í umræðum á Alþingi um öflugri löggæslu, „verðum við að tryggja öryggið innanlands með sæmilegri lögreglu, því að fyrsta skilyrðið til þess að geta talizt sjálfstæð menningarþjóð er að geta haldið uppi löggæzlu innanlands“.

Ný lögreglulög voru samþykkt á Alþingi árið 1940 og fékk dómsmálaráðherra mun rýmri heimild en áður til að kveðja varalögreglu til starfa. Einnig var ákvæði í lögunum um sjálfboðaliðssveitir lögreglumanna á landsbyggðinni „í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að samkomur í fámennum sveitum og sjávarþorpum færu úr böndum vegna drykkjuskapar“, eins og segir á söguvef lögreglunnar. Þá var sá mikilvægi fyrirvari settur í lögin að lögregluþjónar mættu ekki hafa „önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar eins og annarsstaðar uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum“.

Agnar Kofoed-Hansen varð nýr lögreglustjóri. Hann hugðist skipa 300 manna varalið ef vá bæri að höndum og yrði það undir stjórn sérvalinna lögregluþjóna. Liðið gæti aldrei barist við erlent innrásarlið en því var ætlað að ráða við allra aðra ógn við öryggi ríkisins. Í mars 1940 fór Agnar með foringjaefni varaliðsins í æfingabúðir á Laugarvatni og þjálfaði eftir föngum eins og hann lýsti síðar: „Það voru skotæfingar, skammbyssur, rifflar og hríðskotabyssur – og beiting táragass til að dreifa mannfjölda, æft hvernig fáeinir lögreglumenn geta ráðið við mikinn fjölda manns.“

Í maí 1940 hernámu Bretar Ísland og sumarið eftir tóku Bandaríkin við vernd landsins. Erlendur her kom sér fyrir til að verjast þýskri árás en varalögregla liðsinnti líka hinni almennu lögreglu ef svo bar undir. Varaliðar báru svartmálaða breska hermannahjálma með hvítri stjörnu og stöfunum VL undir henni.

Árið 1944, þegar Ísland fékk fullt sjálfstæði, virtust stríðslok í vændum og þar með skyldi erlent herlið hverfa úr landi. Hermanni Jónassyni varð þá aftur hugsað til þess að Íslendingar ættu að stofna þúsund manna heimavarnarlið, svipað því sem væri við lýði í Lúxemborg. „Ég vildi ekki að einn vopnaður togari gæti hertekið landið,“ sagði Hermann þegar hann rifjaði upp þessa hugmynd sína fjórum árum síðar. Þá var kalda stríðið komið í algleyming og ótti við frekari hernaðarátök hafði magnast víða á Vesturlöndum. Hér á landi voru liðssveitir Bandamanna aftur á móti horfnar á braut og landið eins varnarlaust og það hafði verið fyrir stríð. Enn og aftur voru þeir til sem spurðu, áhyggjufullir, vonsviknir og jafnvel hræddir: Getur þetta gengið?

Þrjú þúsund manna þjóðvarðlið

Á árum kalda stríðsins ræddu landsmenn ekki eins mikið um varalögreglu og á fjórða áratugnum. Aftur á móti jókst tal um íslenskan her eða þjóðvarðlið og þegar vel var að gáð gátu slíkar sveitir gegnt svipuðu hlutverki og sú varalögregla sem hafði áður verið í deiglunni.

Í vetrarlok 1948 fjölluðu þingmenn og almenningur venju fremur mikið um íslenskan her vegna þess að þá lagði Jónas Jónsson frá Hriflu til á Alþingi að ríkið stofnaði 3.000 manna þjóðvarðlið. Nú var það breytt frá árunum milli stríða að hér hafði verið herlið sem fólk gat fylgst með í návígi. Ekki var því laust við að menn gerðu grín að hugmyndum um sveitir Íslendinga, marsérandi í takt með alvæpni í einkennisbúningum undir stjórn borðalagðra og stjörnum prýddra herforingja. Þannig skrifaði Gísli J. Ástþórsson í Morgunblaðið að Íslendingar væru kannski búnir „að týna niður nokkru af skapinu, sem þarf til þess að kljúfa landann í tvo hluta“. Æfingar yrðu líka erilsamar, „að þurfa t.d. að hendast á fætur eldsnemma á morgnana og fara í hermannaleiki upp við Öskjuhlíð eða þá að rjúka upp til handa og fóta um miðjar nætur til að skjóta uppvöðslusama útlendinga og aðra slíka þrjóta“.

Tillaga Jónasar frá Hriflu hlaut ekki brautargengi en í ágúst 1948 hélt Gunnar A. Pálsson, lögfræðingur og starfsmaður dómsmálaráðuneytis, að beiðni Bjarna Benediktssonar, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, til sjö landa í Vestur-Evrópu og kynnti sér öryggis- og landvarnir þeirra. Að sögn Gunnars undruðust ráðamenn hvarvetna að Íslendingar hefðu ekkert heimavarnar- eða varalið og enn virtist góða fyrirmynd helst vera að finna í Lúxemborg. Gunnar sagði að herinn þar stæði tæplega undir nafni, enda teldi hann aðeins um 2.000 manns. Hins vegar væri hann í raun „vel skóluð og vel vopnum búin vara- eða öryggislögregla“. Lúxemborgarar gætu aldrei varist innrás erlends ríkis en talið væri að „ekkert það ástand geti skapast innanlands í Luxemburg, sem lögregluliðin og herinn geti ekki ráðið við“. Og heildarniðurstaða Gunnars A. Pálssonar var þessi: „Íslensku lögregluna vantar algerlega traustan bakhjarl, er lögreglulið allra framangreindra ríkja eiga, ýmist í mynd einhverskonar vara- eða hjálparliðs eða þá hers.“

Bandaríkjamenn sem til þekktu tóku undir þetta sjónarmið. Charles Bonesteel hershöfðingi, sem hafði verið yfirmaður setuliðsins eftir komu Bandaríkjahers, heimsótti landið sumarið 1949 og bað vin sinn Agnar Kofoed-Hansen að beita sér fyrir stofnun „eins konar heimavarnarliðs Íslendinga“. Agnar vísaði þeirri málaleitan á bug og sagði að hvorki þjóð né þing gætu sameinast um málið. Það var rétt metið en á hinn bóginn hafði það enn á ný komið á daginn að lögreglan í Reykjavík gat orðið undir þegar fjöldi manna sótti að henni.

30. mars 1949

Eitt varalið lögreglu er líklega þekktara en önnur í Íslandssögunni. Það er liðssafnaðurinn sem var í og við Alþingishúsið 30. mars 1949 þegar drjúgur meirihluti þingmanna samþykkti stofnaðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.

Fyrr um árið höfðu leiðtogar Sjálfstæðisflokksins komist að þeirri niðurstöðu að vænta mætti átaka og því þyrfti flokkurinn að hafa komið saman varnarliði, helst um þúsund manns. Að morgni 30. mars hafði það markmið náðst. Innan veggja Alþingishússins höfðu um 90 manns komið sér fyrir, með löggildingu sem aðstoðarlið lögreglu (meðal annars svo bætur fengjust frá hinu opinbera ef þeir slösuðust eða létust). Utan dyra stilltu um 800-900 sjálfboðaliðar sér svo upp en leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hvöttu landsmenn til að fjölmenna á Austurvöll.

Miklar óeirðir urðu við Alþingishúsið þennan dag. Þeir sem voru mest á móti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu grýttu þinghúsið og létu öllum illum látum. Vel mátti halda að þeir vildu ráðast til inngöngu og hindra með valdi að meirihluti þingsins fengi að leiða málið til lykta. Darraðardansinum lauk ekki fyrr en varaliðið braust fram úr fylgsni sínu og lögregla beitti táragasi til að sundra mannfjöldanum við þinghúsið.

Þótt lögreglan hafi vissulega þurft sérstakan liðsauka þennan dag vildu flestir eða allir yfirmenn hennar örugglega frekar loka götum að Alþingishúsinu heldur en að stefna almenningi þangað, og nota svo strax táragas ef fólk brytist í gegnum raðir lögregluþjóna og varaliðs. Þessa vörn hafði Agnar Kofoed-Hansen hugsað sér á stríðsárunum þegar hann boðaði til allsherjaræfingar í því að verja Alþingi gegn árás æsts lýðs. Sú ákvörðun að skora á almenning að standa vörð um þinghúsið var öðrum þræði pólitísk og henni var ætlað að hafa þær pólitísku afleiðingar að styrkur stuðningsmanna NATO-aðildar kæmi í ljós svo ekki yrði um villst.BJörn Bjarnason flughershöfðingi

„Hjemmeværnet“ og „Icelandic Civil Defense Organization“

Þeir sem vildu stofna varalið lögreglu á Íslandi tvíefldust í þeirri trú eftir átökin á Austurvelli 30. mars 1949. Áfram urðu líka tilefni til viðbúnaðar. Í janúar 1951 kom Dwight D. Eisenhower, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins (og tveimur árum síðar forseti Bandaríkjanna) í opinbera heimsókn og var hópur sjálfboðaliða reiðubúinn að kljást við andstæðinga bandalagsins ef þörf krefði.

Í maí þetta ár kom bandarískur her til landsins á nýjan leik og urðu ytri varnir landsins þá tryggari. Einnig var gert ráð fyrir því að herliðið léti til sín taka ef íslenskir kommúnistar reyndu að ræna völdum. Á hinn bóginn var liðinu alls ekki ætlað að stilla til friðar í innanlandserjum eða sinna verkefnum sem „heimavarnarlið“ gegndu víða í nágrannalöndunum.

Sumar og haust 1951 fór Gunnar A. Pálsson enda á ný til útlanda að beiðni Bjarna Benediktssonar og kynnti sér í þetta sinn sérstaklega danska heimavarnarliðið, „Hjemmeværnet“. Hershöfðingi fór fyrir því en það laut líka borgaralegri stjórn. Í orði kveðnu voru allir fullfrískir karlmenn skyldir til þátttöku í liðinu en í raun var það skipað sjálfboðaliðum, ekki síst til að geta haldið kommúnistum utan þess. Ekki var konum ætlað veigamikið hlutverk í heimavarnarliðinu, helst „skrifstofu- og boðberastörf, símaþjónusta, matargerð, heilbrigðisþjónusta og önnur skyld störf“, eins og Gunnar skrifaði í skýrslu um það. En karlarnir áttu að vera til í tuskið, einkennisklæddir og með létt vopn heima hjá sér; skammbyssur og riffla, og jafnvel vélbyssur og handsprengjur.

Yfirmaður liðsins, Generalmajor E. S. Johnstad-Möller, sagði Gunnari Pálssyni að liðið hefði mikið siðferðilegt og uppeldislegt gildi og yki auk þess mjög innra öryggi í Danmörku. Liðsmenn gætu fylgst með umsvifum kommúnista og við árás á landið myndu þeir „veita t.d. innrásarmönnum eða upphlaupsmönnum ið fyrsta viðnám og halda þeim í skefjum, unz ið reglulega landvarnarlið, herinn, kemst á vettvang“. Að lokum kvað Johnstad-Möller liggja í augum uppi að Íslendingar þyrftu á svipuðu liði að halda og og bauð fram aðstoð Dana við stofnun þess.

Bandaríkjamenn voru líka til þjónustu reiðubúnir. Um leið og þeir sömdu við íslensk stjórnvöld um veru hersins hér á landi buðust þeir til þess að veita Íslendingum vopn, aðrar birgðir og þjálfun „þegar og ef“ þeir kæmu upp liðssveitum sem þyrftu á slíku að halda. Þegar varnarliðið var búið að koma sér fyrir sáu yfirmenn þess sömuleiðis fyrir sér að þeir gætu aðstoðað við stofnun íslensks almannavarnaliðs, „Icelandic Civil Defense Organization“. Þetta lið gæti verið til taks þegar auka þyrfti löggæslu við sérstök tilefni; heimsóknir tiginna gesta, fjölmenn mannamót eða öryggisstöðu við mikilvægar byggingar þegar árás á landið virtist í aðsigi.

Almannavarnaliðið var ekki stofnað en allan sjötta áratug síðustu aldar þóttust bandarískir embættismenn vita að vinveitt stjórnvöld á Íslandi gætu myndað varalögreglu úr röðum Heimdellinga og annarra traustra sjálfstæðismanna. Búnaður var til fyrir 200 manna „varalögreglulið“, gasgrímur, samfestingar og hjálmar.

Sem fyrr vantaði þó skýran lagalegan ramma fyrir slíkar sveitir. Á gamlársdag 1952 skrifuðu tveir foringjar stjórnarflokkanna, Hermann Jónasson og Bjarni Benediktsson, um nauðsyn þess að koma á laggirnar innlendu varnarliði af einhverju tagi. Báðir bentu á dóm sögunnar, ef svo má segja: Bjarni sagði að „reynslan frá söguöldinni, er við töpuðum sjálfstæði okkar vegna skorts á nógu styrku ríkisvaldi, mætti þvert á móti vera okkur hollur lærdómur enn þann dag í dag“. Og Hermann minnti á að Jörundur hundadagakonungur hefði framið „þann auðvelda leik að gera hér byltingu og þurfti ekki annað að koma til en að sýna landsmönnum fáeina ónýta byssuhólka“.

(Fyrri hluti – fyrst birt í mars 2008)

∗ Tilvísanir í heimildir fylgja ekki þessari grein en þeir sem vilja sjá hana með þeim neðanmáls geta haft samband við höfund í netfangið gudnith@hi.is.

1,569