trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 22/09/2019

Var Guðjón í of stuttu pilsi?

Ótrúlega ósvífin greinargerð setts ríkislögmanns, Andra Árnasonar, í kærumáli Guðjóns Skarphéðinssonar hefur vakið hörð viðbrögð margra sem vonlegt er og vafalaust má draga af henni fjölmargar ályktanir. Allra mikilvægast sýnist mér tvennt. Annars vegar kemur þar í ljós að sýknudómur Hæstaréttar í fyrrahaust fól ekki endilega í sér neina endurupptöku GG-mála, heldur hörfaði réttarkerfið einungis eitt hænufet og kannski aðallega til að sýnast. Hins vegar lýsir greinargerðin svo ótrúlegum hroka að það kemur flestum verulega á óvart. Hugarfarsviðbjóðurinn sem þar er settur fram er með ólíkindum.

Gömlu dómarnir orðnir sönnunargögn

Á bls. 8 í 17 síðna langloku sinni vitnar Andri Árnason í núgildandi sakamálalög og segir að þar sé „tiltekið að dómur hafi fullt sönnunargildi „um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað“.“ Fái þessi fullyrðing staðist þýðir þetta ósköp einfaldlega að Hæstaréttardómurinn frá í fyrra hefur í rauninni ekkert gildi. Sakborningarnir eru jafnsekir eftir sem áður – þrátt fyrir að hafa verið sýknaðir. Voru þeir sem sagt bara sýknaðir í þykjustunni?

Hinn setti ríkislögmaður útskýrir þetta reyndar aðeins nánar, enda kannski ekki vanþörf á. Í þessum sama kafla (Um sönnunargildi dóma) segir hann að Hæstaréttardómurinn frá í fyrra „teljist bindandi „um úrslit sakarefnis“ … um þau atriði sem þar eru dæmd að efni til. Í dómi réttarins var á hinn bóginn ekki … fjallað um málsatvik en af því leiðir að dómurinn telst ekki hafa sönnurnargildi … um þau sérstaklega. Að því er málsatvik varðar ber því að líta til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 214/1978, nema að því leyti sem „það gagnstæða er sannað“.“ (Í þessari tilvitnun er einungis sleppt óþarfa innskotum á borð við málsgreinanúmer í lögum)

Í þessu sambandi má ekki gleymast að það voru hæstaréttardómararnir sjálfir sem ákváðu að fjalla ekkert um málsatvik. Það má raunar heita einsdæmi því yfirleitt er fjallað um fjölmörg málsatvik í löngu máli í dómum. Og í fyrra vantaði heldur ekki að farið væri fram á ýtarlega niðurstöðu. Í munnlegum málflutningi sínum fyrir dómi fjölluðu verjendur talsvert um margvísleg gögn sem verða að teljast fullgildar sannanir fyrir sakleysi. En dómarnir kusu sem sagt að hafa allan þann málflutning að engu. Og þar með skildu þeir dómana frá 1977 og 1980 eftir í fullu gildi, a.m.k. að áliti Andra Árnasonar. Gömlu dómarnir eru þannig allt í einu orðnir sönnunargögn.

Það er reyndar erfitt að fá sig til að trúa því að þetta standist og í Víglínunni á Stöð 2 reyndist Ragnar Aðalsteinsson hafa allt annan skilning á málinu, sem sé að gömlu dómarnir hefðu sjálfkrafa fallið úr gildi þegar Hæstiréttur tók málið til meðferðar að nýju. Skilgreining Ragnars er í ágætu samræmi við heilbrigða skynsemi og sé hún rétt þarf óhjákvæmilega að setja spurningarmerki við annaðhvort þekkingu Andra Árnasonar á lögum eða dómgreind hans og karakter.

Húskarl Katrínar

Nú er í sjálfu sér ekkert við það að athuga þótt Katrín Jakobsdóttir feli lögfróðum húskarli sínum að taka til varna þegar ríkinu er stefnt fyrir dóm. Hún fer með búsforráð íslenska ríkisins og þarf auðvitað að bregðast við. En það er fullkominn óþarfi að senda húskarlinn með skítadreifara fullan af fúleggjum.

Efnisinnihald greinargerðar er svo samfelldur viðbjóður að ég fæ mig eiginlega ekki til að trúa því að Katrín Jakobsdóttir hafi lagt blessun sína yfir hana. Ábyrgð hennar er þó ótvíræð. Húskarlinn rekur nefnilega ekki neins konar sjálfstætt embætti, heldur er hann bara húskarl og á ekki að gera neitt annað en honum er sagt. Og hann heyrir vel að merkja ekki undir dómsmálaráðherra, hafi einhver ímyndað sér það. Nei, það var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem fól honum verkefnið með bréfi þann 26. október í fyrra.

Í skítadreifara setts ríkislögmanns hrúgast fúleggin hvert ofan á annað. Guðjón getur bara sjálfum sér um kennt. Hann fór nefnilega að samsinna lögreglumönnunum þegar þeir voru búnir að tyggja söguna ofan í hann í hátt í þrjár vikur. Og fara með hann til Keflavíkur og sýna honum leiksviðið. Í rauninni er fullkomlega vafasamt að halda því fram að Guðjón hafi nokkurn tíma játað eitt né neitt, en hann var svo vinsamlegur að hjálpa lögreglumönnunum við að ganga frá sögunni. „Einhvern veginn urðum við að hafa þetta,“ sagði hann fyrir dómi sumarið 1977. Samt er því hikstalaust haldið fram að Guðjón hafi aldrei dregið neitt til baka.

Guðjón á auðvitað líka að borga allan málskostnað. Ríkislögmanninn varðar ekki hætishót um það þótt lögin kveði á um gjafsókn fyrir héraðsdómi. Lögmaðurinn lætur sig heldur ekki muna um að vitna í lög frá 1905 því til stuðnings að kröfuréttur Guðjóns hafi fyrnst fyri rnærri þrjátíu árum. Þetta bætist við það sem nefnt var að framan. Það er ekkert lát á óhroðanum í þessari greinargerð.

Sárust er þó vafalaust sú staðhæfing að þetta hafi allt saman verið Guðjóni að kenna. Þetta vekur hugrenningatengsl til ofbeldismanna sem útskýra nauðgun með klæðaburði konunnar. Og þar eð forsætisráðherra ber ábyrgð á þessum húskarli sínum, situr Katrín Jakobsdóttir uppi með stimpil ofbeldismannsins sem heldur því fram að Guðjón hafi verið í svo stuttu pilsi.

Ég trúi varla öðru en að hún þvoi þann stimpil af sér án tafar með því að reka húskarlinn og draga málatilbúnað hans til baka.

Flokkun : Pistlar
1,568