trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 05/06/2019

Vanfær til vits og vinnu

Ég get ekki stillt mig um að segja frá samtali sem ég hleraði. Ég sat á sólskinsbekk á Austurvelli. Fullorðin kona og unglingspiltur komu þar að og settust á bekkinn hjá mér. Við þekktumst ekki og þögðum þar til konan spurði strákinn:

“Var ég búinn að segja þér frá honum Dodda frænda þínum?”

“Það man ég ekki svaraði unglingurinn.”  

“Hann var bráðger,” sagði hún, “og greindur. Þegar hann var á þínum aldri gerðist hann grillufangari og þótti skemmtilegur framan af. Upp úr því fór hann að skreyta sögur af mönnum og málefnum. Svo færðist hann í aukana og hélt því blákalt fram að hvítt væri svart, grunnt væri djúpt og langt væri stutt. Hann var þvermóðskufullur lét ekkert af með fullyrðingar sínar. Hann virtist trúa þeim. Hann hélt samt almennu viti fram í háskólanám. Þá höfðu þessir lestir hans aukist og hann varð vanfær til vits og verka og flosnaði uppfrá námi. Og nú er hann …”

Hún þagnaði þangað komin. Það söng þægilega í trjálaufunum yfir okkur.

“Amma,” sagði unglingurinn stuttu síðar og ekki meir. En það var spurn í framsögninni.

“Þetta er svo sem ekkert einsdæmi, sagði konan litlu síðar og reis á fætur. “Ég vildi bara að þú vissir þetta áður en við förum á þingpallana. Þeir eru víst farnir að tala um orkupakkann enn eina ferðina.”

Svo gengu þau samstiga í átt að þinghúsinu og ég heyrði ekki meir.

 

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,431