trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 21/08/2014

Úteygður rusti, flæsandi nösum – þáttur af Oddi lögmanni

Eftir Guðmund Andra ThorssonÞingvellir

Oddur Sigurðsson lögmaður sem lifði og starfaði á mótum 17. og 18. aldar var viss tegund af íslenskum valdakarli: stórbokki, ofsamaður, frekjuhundur, fantur og fíkill. Líf hans leið við veisluglaum, slagsmál, drykkjutúra og stefnur. Upphefð hans var meiri en annarra manna og fallið hærra. Jón Ólafsson frá Grunnavík lýsir honum svo í sögu sinni:

Hann var mikill vexti, föngulegur og höfðinglegur á velli, mikilúðlegur og tigulegur á svip og vænn ásýndum, opinmynntur,stóreygður og úteygður. Þegar honum þótti var eins og hann flæsti nösum og hefir það jafnan verið talinn órækur vottur um geðríki og sterkar tilfinningar.

Ég ætlaði einu sinni að skrifa skáldsögu um Odd en gafst upp á því áður en leið á löngu því að ég náði engum tökum á þessum úteygða og stóreygða manni flæsandi nösum í eilífum æsingi, eins og kókaínkall í nútímanum. Ég fann ekki tóninn. Ég vildi ekki skrifa söguna í þessum „sú-var-tíð-segir-á-bókum“-stíl sem íslenskir höfundar hafa alltaf notað þegar þeir hafa skrifað um þetta tímabil en fann ekki mína rödd í þessu drullusvaði sem mér fannst sagan vera. Og ég veit satt að segja ekki hvað við getum lært af sögunni um Odd lögmann umfram það sem blasir við um forgengileik og fallvaltleik, gæfu og gjörvileik. En ég á hér uppí hillu dálitla skruddu um þennan fulltrúa íslenskrar karlamenningar og allt í lagi að blaða í gamalli harmsögu á meðan við bíðum þess að þær nýju hljóti sín endalok.

Bókin heitir Oddur Sigurðsson lögmaður (1682-1741) ævi- og aldarlýsing og hún er gefin út árið 1902 á Bessastöðum af Skúla Thoroddsen. Hún er eftir Jón Jónsson sagnfræðing sem seinna tók sér nafnið Jón J. Aðils og er stundum nefndur Jón Aðils eldri til aðgreiningar frá syni sínum, leikaranum og nasistanum – þessum sem var á ljósmyndinni í 79 af Stöðinni; og nánast ríkti yfir þeirri mynd af því að hann var svo ógæfusamligur.

Jón Jónsson var á sinni tíð kallaður Jón sagnfræðingur til aðgreiningar frá öllum hinum Jónunum, eini sagnfræðingurinn í þessu landi sagnaritaranna. Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur sem hefur skrifað um töluvert um Jón telur að hann hafi skapað íslensku þjóðinni þjóðernislega sjálfsmynd (Hún gaf út bók um efnið: Hinn sanni Íslendingur, 2004). Jón sagnfræðingur var fullur af hugmyndum um þjóðareinkenni og arf Íslendinga. Það verður þó ekki sagt að hann fegri mikið í bókinni um Odd, enda gerist hún á því tímabili sem hann taldi niðurlægingarskeið þjóðarinnar (þegar best lét líktust Íslendingar forn-Grikkjum að mati hans). Hann skrifar fjörlega og skemmtilega, er á einhverjum mörkum bókmennta og sagnfræði sem nú eru horfin. Hann skrifar á bókmenntamáli sem kannski er líka að fara forgörðum. Hann stundar sín fræði í landi sagnaritara eins og þeir tíðkuðust hér á landi frá 13. öld og fram á miðja þá 20., að þeir hurfu ofan í gjótuna sem myndaðist milli vísindalegrar sagnfræði og skáldskapar – því miður. Hann er alveg ofan í efninu, innlifaður því á einhvern hátt sem ekki tíðkast lengur; veður inn í hugskot fólks; fimbulfambar um tilfinningar og ættarfylgjur en ekki til að vera listrænn eða meðvitaður um „stílbragð“; honum er hin skáldlega nálgun á karaktera eiginleg; hann notar meira að segja lýsingarorð sem eru jafn forboðinn orðflokkur hjá nútíma sagnfræðingum og sagnir hjá embættismönnum …

Á fyrstu árum 20. aldarinnar var hann „Jón sagnfræðingur“ og hann átti eftir að móta sýn margra áhrifamanna á þjóðerni og þjóðareðli Íslendinga, eins og Sigríður rekur í bók sinni, hvort heldur Jónasar frá Hriflu og Íslandssögu hans eða Halldórs Laxness og Íslandsklukku hans. Það má kalla hann höfund að hinni opinberu og viðteknu söguskoðun Íslendinga sem haldist hefur furðu óhögguð alveg fram á síðustu ár þrátt fyrir ýmsar atlögur sagnfræðinga að henni, og gekk aftur uppvakin eins og ekkert hefði í skorist, og sagnfræðingarnir væru ekkert til, í síðustu góðærisbólu í ræðum ráðamanna, framgöngu bankamanna og ályktunum Viðskiptaþings og ekki síst í Skýrslunni Ímynd Íslands sem forsætisráðherra lét gera árið 2007, þegar yfirvöld landsins fólu markaðsfræðingum að rita Íslandssöguna,  eftir að gerð hafði verið skoðanakönnun um það hvernig Íslandssagan hefði verið.

(Um söguskoðun góðærisins er til ágæt grein eftir Guðmund Hálfdanarson sagnfræðing,Sagan og sjálfsmynd(ir) íslensku þjóðarinnar sem birtist í  riti guðfræðinga, Glímunni 7, og er á netinu, http://gudfraedi.is/system/files/gliman7_6.pdf.) Sennilega að verða tímabært að rifja það allt saman upp.)

Jón sagnfræðingur

Jón sagnfræðingur

Jón sagnfræðingur hélt alþýðufyrirlestra á vegum Stúdentafélagsins í byrjun 20. aldar um íslenskt þjóðerni en seinna voru þessir fyrirlestrar gefnir út í þremur bókum: Íslenzkt þjóðernikom út 1903, Gullöld Íslendinga 1906 og Dagrenning árið 1910. Sjálfur dó Jón árið 1920. Hann taldi að hér hefði sest að „blóminn af norrænum ættum úr Vesturlöndunum“ og að þjóðernið á söguöldinni hefði hvorki verið „norskt né keltneskt, heldur íslenzkt, það er blöndun af hvorutveggja“:

Hér rann saman í eitt andlegt fjör, hugvit og snild Keltanna, og djúpskygni, staðfesta og viljaþrek Norðmannanna, og fæddi af sér þjóðlíf, sem varla hefur átt sinn líka í sögunni. Þessir erfðakostir beggja þjóðanna koma bezt í ljós í tveim sérstökum hliðum þjóðlífsins, sem heita má að hvor fyrir sig svari nákvæmlega til einkenna þessara tveggja kynþátta, en þessar tvær hliðar eru: forníslenzkar bókmentir og forníslenzk stjórnarskipun.

Jamm. En hvaða erfðakostir skyldu hafa komið í ljós í Oddi Sigurðssyni? Þessum úteygða rusta flæsandi nösum? Hann er ein af furðuverum Íslandssögunnar en þó svo kunnuglegur; hann er yfirgnæfandi í sögu 18. aldarinnar en um leið hálfgerður huldumaður í Íslandssögunni. Við höfum vandlega gleymt honum. Kannski er ein ástæðan fyrir þeirri gleymsku sú að Halldór Laxness treysti sér ekki til að hafa hann með í Íslandsklukkunni. Þar hefði hann breytt öllu og prúðmennið og nipurmennið Arnas Arnæus (sem var leikinn af Þorsteini Ö. Stephensen í eitt skipti fyrir öll og svo drengilegur að hann var ekki til) alveg fallið í skuggann. Það hefði ekki passað fyrir hugmyndagrundvöll verksins að sýna Odd sem fyrirferðarmesta mann landsins; andlit aldarinnar, þrútið af drykkju og frekju.

Samtímamaður Odds Sigurðssonar, Jón Ólafsson frá Grunnavík, ritaði ævisögu hans sem fyrr segir  en fyrir utan rit Jóns sagnfræðings hefur fátt eitt verið ritað um hann, nema Björn Th. Björnsson birti þátt um hann í bókinni Úr plógfari Gefjunar. Oddur er hér og þar á sveimi í þjóðsögum og í  Íslenzkum æviskrám eftir Pál Eggert Ólason er þáttur af Oddi.  Þar stendur meðal annars, og takið eftir öllum spriklandi lýsingarorðunum sem Páll Eggert sáldrar í kringum sig:

Hann var ofstopamaður og þó trygglyndur og brjóstgóður, mikilúðlegur og sukksamur, en lét þó eftir sig eignir, enda hafði hann erft mjög mikið og var hagsýnn í aðra röndina. Talinn vel viti borinn, er hann gætti sín […]

Og síðast en ekki síst höfum við skáldskapinn, Tímarímu eftir Jón Sigurðsson, háðsádeilu um Odd og móður hans, sem ort var undir rós eins og í alræðisríkjum 20. aldar.

Bók sína um Odd byrjar Jón á því að lýsa nokkuð aldafarinu kringum aldamótin 1700. Sautjándu öldina kallar hann hjátrúaröldina og heldur áfram: „ …öld heimskunnar, öld fáfræðinnar, öldmyrkranna og dauðans í andlegum skilningi. Það er eins og einhver óumræðilegur kjarkleysis- og volæðisblær yfir öllu. “ Hann segir líka að aldrei hafi verið hér á landi:

…meiri kreddu- og skinhelgisöld, aldrei meiri vandlætingarsemi í trúarefnum – og aldrei minni sönn og lifandi trú. Aldrei ef til vill jafn mikið kák og kukl í ýmsum greinum vísindanna – og þó um leið jafn vesalt og fátæklegt andlegt líf. Aldrei hangið jafnsamviskusamlega í bókstafnum – og brotið jafn tilfinnanlega á móti andanum. Aldrei tildrað upp jafn mörgum lagagreinum og ákvæðum í nafni réttvísinnar – og þó aldrei mannúðin og réttlætistilfinningin jafn herfilega fótum troðin.

Jón rekur ýmis dæmi um glundroðann í löggjöf og landstjórninni á þessum tíma.Sjálfur lagagrundvöllurinn var allur genginn úr skorðum. Ýmist var farið eftir Jónsbók, réttarbótum og konungsbréfum eða alþingissamþykktum og ofan á þetta allt saman bættist tilskipun um að sníða Jónsbók eftir Norskulögum Kristjáns fimmta árið 1688.

Íslendingar hafa löngum þrasglaðir verið en í þessu lagaumhverfi keyrði um þverbak og í þeim málum sem gengu í gegnum öll ómstig – héraðsrétt, lögþingsrétt, yfirrétt og hæstarétt – stóðu dómar sjaldnast frá einum rétti til annars, enda byggðu dómarar hver á sínum lagagrundvelli, eftir því sem hentaði hverju sinni. Allt varð til þess að hvetja menn til að leggja út í út í látlausar deilur og endalaust málaferli út af málum sem hægt hefði verið að afgreiða skjótt eða jafnvel bara yppa öxlum yfir. Þannig var Sigurður Björnsson lögmaður í 22 ár að baksa við að fá manni refsað fyrir illyrði og óhlýðni. Sigurður var faðir Þórdísar þeirrar sem var fyrirmyndin að Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni,og Eydalín lögmaður í þeirri bók er að einhverju marki sniðinn eftir honum.

Þegar maður les lýsingar Jóns sagnfræðings á hinu háa alþingi skilur maður hvers vegna það var um síðir lagt niður. Svo átti að heita að það væri haldið á hverju ári en það var ekki nema með mestu eftirgangsmunum að menn fengust til að mæta og gegna skyldu sinni og þinghaldið fór að jafnaði meira og minna í handaskolum að sögn Jóns. Þetta er eins og útihátíð um Verslunarmannahelgi:

Menn komu of seint til þingsins,sátu í veislum hver hjá öðrum til skiptis fram á nætur, og komust ekki úr rúminu fyrr en einhvern tíma seinni hluta dagsins. Stundum voru dómararnir orðnir svo drukknir þegar þeir komu í Lögréttu að þeir voru með öllu óhæfir til að gegna dómarastörfum.

Jón vitnar til skjala Gottrúps lögmanns um ástandið í landinu árið 1701 og er það átakanlegur lestur. Um Þingeyjasýslu segir til dæmis:

Ástandið hér er hið versta og aumlegasta og hafa elstu menn hvorki séð né heyrt annað eins. Mikill hluti fénaðarins er fallinn úr hor, og fiskirí hefur með öllu brugðist, svo fátæk alþýða hefir ekki haft annað að láta upp í skuldir sínar hjá kaupmönnum og landsdrottnum en katla, potta, skrínur og ýmislegt annað, sem þeir þó nauðsynlega hafa þurft að halda á sjálfir, sumir hafa jafn vel orðið að láta fötin utan af sér upp í skuldir. Fólk er tekið að hrynja niður af hungri. Í Svalbarðsstrandarhreppi hafa á síðastliðnum vetri dáið 20 manns af 14 bæjum; í Reykjadalshreppi 90 af 60 bæjum; í Höfðahverfi 40 af 30 bæjum, og álíka margir í Tjörnes- Kelduhverfis- og Núps-sóknum.

Þannig heldur þessi raunarolla áfram hringinn í kringum landið. En höfðingjarnir, ríkismennirnir – kvótaeigendurnir – gera sér glaðan dag. Þetta er kunnugleg lýsing okkur sem horfðum á bóluárin hér upp úr síðustu aldamótum:

Stórveislur og samsæti, skart í klæðaburði og gegndarlaust óhóf í nautn matar og víns var eitt af einkennum aldarinnar. Auðvitað voru það einkum höfðingjarnir og hinir heldri og ríkari menn, sem létu til sín taka í þessu efni, en alþýðan dró dám af þeim, og fetaði dyggilega í fótspor þeirra, þegar nokkur kostur var á því. Þegar amtmaður, fógeti, biskupar og heldri menn riðu til alþingis, höfðu þeir með sér mat, vín og ölföng á mörgum hestum, og svo höfðu reyndar allir, sem til alþingis riðu. Var opt meðan þingið stóð yfir, slegið upp stór-veislum og drukkið fast. Helstu höfðingjarnir héldu sumir útlenda steikara eða matreiðslumenn í þjónustu sinni, og létu daglega fjölda manns sitja að borðum með sér, einkum ef þeir áttu mál fyrir rétti, og þurftu að koma sér við dómsmennina. Á kvöldin var svo sest að drykkju fram á nætur. Við allra festar og brúðkaup var Bakkus dýrkaður af svo miklu kappi, að gestirnir vissu varla sitt rjúkandi ráð í nokkra daga samfleytt. […]

Þetta er sögusviðið.

Oddur hinn hávi

Þess er getið í sögum að um þær mundir er Oddur Sigurðsson var að komast til valda á Íslandi hafi tveir menn verið á gangi nálægt kirkjugarðinum í Kirkjubæ og heyrt kveðnar þessar hendingar úr einni gröfinni:

Vögum vér og vögum vér

með vora byrði þunga.

Er nú svo komið sem áður var

í öld Sturlunga.

Í öld Sturlunga.

Þeim hefur þótt Oddur kunnuglegur draugunum frá Sturlungaöld. Enda  var hann af Ættum. Langafar hans voru þeir Oddur biskup Einarsson og Gísli Hákonarson lögmaður sem elduðu grátt silfur á fyrri hluta sautjándu aldar, annar forvígismaður hins geistlega valds, hinn leiðtogi veraldlegra höfðingja. Oddur biskup Einarsson var talinn einn helsti menntamaður á Íslandi á sinni tíð, hafði meðal annars lagt stund á stjörnufræði hjá sjálfum Tycho Brahe. Hann var óvæginn í fjárkröfum og safnaði miklum auði á biskupsárum, var fremur óvinsæll og illa þokkaður af mörgum. Hann stóð í ýmsum deilum, ekki síst við danska höfuðsmanninn Herluf Daa sem leiddi að endingu til þess – segir sagan – að höfuðsmaður reyndi að byrla biskupi eitur í veislu á Bessastöðum þegar sá síðarnefndi drakk full konungs. Sonur Odds biskups var Sigurður prófastur og hans sonur síðan Sigurður faðir Odds lögmanns.

Skálholt

Skálholt

Móðir Odds var Sigríður Hákonardóttir og komin af fyrrnefndum Gísla Hákonarsyni. Þau hjón voru auðug bæði að löndum og lausafé og eignuðust tvö börn, Odd og Helgu. Sigurður prófastur lést árið 1690 þegar Oddur var átta ára og voru þau mæðgin tvö eftir það. Sigríður þótti drambsöm og sá ekki sólina fyrir ættarlauknum syni sínum. Allir lutu hinni stórlyndu móður – og hún laut Oddi.

Oddur fór á unga aldri úr móðurgarði og í Skálholtsskóla. Þar mætti hann í fyrsta sinn valdi sem hann gat ekki beygt undir sig að vild og hlaut sína fyrstu alvarlegu hirtingu í lífinu.Hann hafði skrifað móður sinni að Rauðamel og látið falla einhver hnjóðsyrði um skólameistarann, Pál Vídalín, síðar lögmann. Bréfið tafðist á leiðinni, lenti á flækingi og kom aftur til baka, svo trosnað að hver og einn gat lesið það. Þannig barst það í hendur Páli skólastjóra. Ofan á bréfið bættist við að herbergisþjónn skólameistara bar í hann þær fréttir að Oddur færi með kukl í skólanum. Af þessu öllu varð Páll svo reiður að hann tók Odd, þótt heldri mannasonur væri, og hýddi hann með hrísvendi svo duglega að skyrta hans varð alblóðug á bakinu. Sagan segir að Oddur hafi geymt skyrtuna og sýnt móður sinni. Þarna voru fyrstu upptökin að óslökkvandi hatri Odds á Páli lögmanni æ síðan.

Oddur útskrifaðist úr skólanum fimmtán ára gamall, árið 1697 og hélt svo utan til háskólanáms í Kaupmannahöfn ári síðar. Þar tók hann embættispróf átján ára gamall og kom heim aftur. Hann er sagður hafa verið með glæsilegustu mönnum, fríður sýnum, hár og þrekvaxinn, mikið skartmenni.

Um þessar mundir trúlofast Oddur Guðrúnu dóttur Guðmundar ríka á Narfeyri sem var sonur Þorleifs Kortssonar lögmanns sem við munum mörg eftir í túlkun Arnars Jónssonar um árið í leikritinu Skollaleikur – með tunguna lafandi af flærð og fégræðgi. Guðmundur var þá ríkasti maður landins og skyldi kvonfangið sitja í festum meðan mannsefnið aflaði sér mannvirðinga hjá konungi, enda var hún þá aðeins barn að aldri.

Auðugur, ættgöfugur, glæsilegur, vel menntaður og gáfaður – og þar að auki manna kurteisastur og háttprúðastur þegar hann vildi það við hafa: hann virkaði vel á menn í stjórnarráðinu og var umsvifalaust veitt varalögmannsembættið norðan og vestan á Íslandi árið 1707 og skyldi taka við lögmannsembættinu þegar Lauritz Gottrúp félli frá. Meðferðis frá Kaupmannahöfn hafði Oddur bréf þar sem hann var skipaður sækjandi af hálfu hins opinbera í ýmsum málum á Íslandi sem snertu valdamikla menn.

Þetta bréf siglir nú Oddur með heim og les upp með nokkrum fyrirgangi á Alþingi sem hafði þótt tíðindalítið og dauflegt fram að því, en nú tóku að æsast leikar og bjuggust menn við stórtíðindum á næsta þingi.

Oddur reið svo til móður sinnar að Rauðamel og tók nú ofsi hans sífellt að magnast. Hann var kallaður„Oddur hinn hávi“ enda með hæstu mönnum, þó að sennilega væri líka vísað til þess að honum lá mjög hátt rómur, hrópaði á menn í stað þess að tala við þá –að ógleymdu oflætinu. Hann virðist alltaf hafa verið fullur. Hann flaugst á við aðra höfðingja, gerði þeim fyrirsát, réðst á konur og nauðgaði þeim, óð um einsog naut í flagi – flæsandi nösum.

Viðurstyggilegasta óhæfuverk hans var þegar Helga systir hans varð barnshafandi af völdum Jóns unnusta síns. Þá reiddist Oddur hinn hávi og barði vanfæra systur sína til bana.

Dauðinn er allt í kringum hann. Og nú verða þau tíðindi að heitmey Odds sem nú var orðin fimmtán ára lést úr Stórubólu eins og raunar öll hennar systkini. En þótt Oddur missti þannig konuefnið gilti ekki það sama um tengdaföðurinn  sem nú setti allt sitt traust á Odd í ellinni og gaf honum Narfeyri með búinu öllu. Fylgdi það skilyrði gjöfinni að Oddur skyldi reynast honum sem góður sonur. Nú fluttist Oddur að Narfeyri en Guðmundur var til húsa hjá honum með nokkrar skepnur.

„Hinir fullmektugu“

Enn jukust mannvirðingar Odds þegar stiftamtmaður skipaði hann fulltrúa sinn á Íslandi 1708 og skyldi hann ásamt fulltrúa amtmanns hafa eftirlit með embættismönnum og réttargæslu á hendi, vald til að svipta menn embætti til bráðabirgða og skipa nýja og veita ný embætti.  Þessu fylgdu gríðarleg völd, einkum ef þeir tveir sem gegndu þessum embættum væru samtaka í aðgerðum sínum. Þá myndi ekkert standast fyrir þeim: þeir höfðu vald til að víkja mönnum frá fyrir litlar sem engar sakir, allar embættismannaumsóknir og bænaskrár fóru um þeirra hendur, þeir réðu lénsjarðaveitingum og gátu umbunað mönnum með klaustrum og umboðum. Það var því ekki að ástæðulausu að þeir voru í daglegu tali kallaðir „hinir fullmektugu“.

Félagi Odds var danskur maður að nafni Paul Beyer og lýsir Jón honum sem ómenntuðum manni, meinlausum og vægum við fátæklinga en svaðafengnum við öl.

Sumarið 1708 áttu þeir í fyrsta sinn að gegna fulltrúastörfum sínum á alþingi. Þingið var sett 8. júlí en fáir voru mættir og stemmning dauf. Beyer vildi fagna því að hann væri sestur að völdum og sló því upp veislu í amtmannsbúðinni um kvöldið. Bauð hann til hennar helstu mönnum og var Oddur meðal þeirra og settist beint í öndvegi.

Síðan segist Jóni svo frá:

Þóttist hann bezt að því tignarsæti kominn, þar sem hann var fulltrúi stiftamtmannsins. Var nú drukkið fast, nema af þeim lögmönnum báðum, Gottrúp og Páli Vídalín. Von bráðar gekk Gottrúp á burt, og kom ekki aptur, en þeir Vídalín og Jón Eyjólfsson sátu eptir. Þegar leið á nóttina tók að svífa til muna á þá fulltrúana, og sló að lokum í illdeilur með þeim. Gripu þeir báðir til vopna og vildu berjast, en Páll og Jón létu þá ekki ná saman.Völdu þeir hvor öðrum hin verstu smánaryrði og varð af háreysti mikið, svo þingheimur flykktist að búðinni alla vegu til að horfa á leikinn, og þótti góð skemmtun. Páll lögmaður gekk lítið eitt frá í bili, en Oddur hafði þá þegar brandinn á lopti, og sögðu menn, að hann hefði snortið eyrað á konu Beyers sem fylgdi þeim lögmönnunum í að stilla til friðar. Oddur var æstur mjög og krafðist vitnisburðar um orð Beyers, en Páll Vídalín kvað það ráð að sofa af um nóttina, og vita hvað þeir myndi til orðanna að morgni. Nú fór Jón Eyjólfsson að fá nóg af skemmtuninni og gekk á burt, og var þá Páll einn eptir af embættismönnum. Vildu þeir Oddur og Beyer þá óðar hlaupa saman, en Páll fékk á endanum hrakið Odd út úr tjaldinu og í búð hans, en kona Beyers vafðist fyrirhonum á meðan.

Svona var þinghaldið: „hinir fullmektugu“ blindfullir að hnoðast á sínu fyrsta þingi um það hvor þeirra sé æðstur á meðan embættismennirnir sem þeir eiga að hafa yfir að segja eru í óðaönn að stilla til friðar. Maður hefur svo sem heyrt svipaðar sögur af íslenskum valdakörlum okkar daga.

Daginn eftir sættust þeir hins vegar og tóku að skipta með sér verkum. Fljótlega þótti koma á daginn að Oddur hefði tögl og haldir og réði því sem hann vildi ráða. Hann var nú tuttugu og sex ára og kominn til æðstu valda á landinu. Það má gera sér í hugarlund hvernig eldri valdamönnum, Páli Vídalín og Sigurði Björnssyni og ýmsum sýslumönnum (til dæmis Jóni Sigurðssyni sem orti Tímarímu), hefur líkað það að sjá þessa miklu fremd Odds hins háva. Fyrirrennarar hans höfðu verið útlenskir,komu naumast til Íslands. Oddur er hins vegar skyndilega orðinn yfirmaður manna sem sumir hafa horft á hann vaxa úr grasi – hýddu hann sem skólasvein – og þurfa nú að halda honum á fylleríi svo að hann sníði ekki eyra af eiginkonu nánasta samstarfsmanns síns.

Flatur með mínum herra“

Meðal þeirra mála sem til þings koma árið 1708 er mál Jóns gamla Hreggviðssonar sem Jón sagnfræðingur rekur nokkuð (þetta er löngu áður en Halldór skrifar Íslandsklukkuna) og er sú frásögn mjög samhljóða þeirri sem við þekkjum úr Íslandsklukkunni, nema hér eru það þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín sem dæma Sigurð Björnsson lögmann frá embætti vegna meðferðar hans á máli Jóns. Oddur aðstoðaði hins vegar Sigurð við að ná aftur embætti sínu, og varð af mikil og langvinn málaflækja þar sem fleiri sakamenn komu við sögu.

Þingvellir

Þingvellir

Þeir Oddur og Beyer, hinir fullmektugu, stóðu í stórræðum næstu árin, þóttu afskiptasamir og röggsamir og þótt menn mögluðu gat enginn rönd við reist eða vefengt vald þeirra og myndugleik. Nema einn var sá maður sem taldi sig hafa að minnsta kosti jafn gott umboð til valda og Oddur Sigurðsson og það var Jón biskup Vídalín sem taldi sig fremur hæfan til að hafay fir prestum að segja en Odd.

Það má segja að Jón sagnfræðingur sé hálfpartinn í öngum sínum þegar kemur að því að lýsa deilum þessara manna. Hann byrjar mál sitt með hátíðlegum inngangi:

Allar þjóðir í veröldinni sem nokkra sögu eiga, eiga um leið sínar söguhetjur, sín átrúnaðargoð. Það stendur eins og bjarmi af nafni þeirra einu saman. Þjóðin á bágt með að viðurkenna, að þeir séu háðir mannlegum ástríðum og mannlegum breiskleika eins og vér hinir, og það mælist venjulega illa fyrir ef farið er að hreyfa við þeim eða tæpa á nokkru sem getur kastað skugga á þá. En hins vegar heimtar sagan að sannleikskröfunni sé fullnægt. Sagnaritarinn er því í talsverðum vanda staddur, þegar um slíka menn er að ræða.

Allt er þetta vegna þess að nú eru leidd fram í bókinni mörg bréf sem lýsa því hvernig Jón Vídalín heimsækir Odd lögmann dauðadrukkinn og gerir honum lífið leitt sem mest hann má, eins og Oddur rekur síðan í löngu máli fyrir stiftamtmanni – hér er úr einum vitnisburði sem maður á vegum Odds skrifar – og þarf ekki að taka fram að ótal frásagnir eru líka af árásum Odds á Jón:

Einnig þann 21. júlí á sama alþingi um kvöldið seint kom greindur biskup til vísilögmannsins (þ.e. Odds) tjalds, og sýndist mér þá téður biskup af sterku víni drukkinn vera, hvar fyrir vísilögmaðurinn með báðum höndum hjálpaði honum að ganga inn í sitt tjald, og skömmu þar eftir studdi téður vísilögmaður biskupinn mjög hæglátlega svo sem sinn besta vin út úr tjaldinu aftur og á hestbak. En sem þráttnefndur biskup var á hestbak kominn, reikaði hann svo mjög að mér sýndist að hann mundi af hestinum ætla að falla,hvar fyrir vísilögmaðurinn tók báðum höndum yfir um og undir biskupsins brjóstog herðar, svo hann dytti ekki af hestsbaki, og hjálpaði svo vísilögmaðurinn honum frá því falli. En á meðan vísilögmaðurinn svo studdi hann, þá spýtti og spúði biskupinn miklu vatni og óhreinindum frá sínu brjósti ofan á vísilögmannsins handlegg, og sá eg þá að greindur biskup kastaði upp klýju úr munninum, sem féll ofan yfir vísilögmanninn, og upp á hans klæði.

Og þannig heldur þetta lengi vel áfram. Og áttu deilur þeirra eftir að magnast enn með gagnkvæmum svívirðingum og vitnaleiðslum um ósæmilegt hátterni.

Enn afdrifaríkari urðu hinsvegar deilur Odds við frænda Jóns og gamlan fjandmann, Pál lögmann. Oddur lagði Pál í einelti – lét rigna stefnum yfir hann, réðst á hann við Kalmanstungu og beit hann illa, klagaði hann til stiftamtmanns og lét síðan kné fylgja kviði árið 1713 og svipti hann embætti fyrir misjafnlega vel grundaðar sakir.

Sumarið 1714 tók Oddur að fullu og öllu við lögmannsembættinu norðan og vestan af Gottrúp og ári síðar siglir hann til Danmerkur í því skyni að láta kné fylgja kviði og koma Páli endanlega út úr húsi hjá Gyldenlöve stiftamtmanni, æðsta manni landsins sem sat í Kaupmannahöfn og kom aldrei til Íslands.

Páll eltir hann, siglir í kjölfar hans sem virðist ekki hafa hvarflað að Oddi að Páll hefði bolmagn til að gera. Honum bregður mjög þegar Páll birtist enda var hann búinn að segja stiftamtmanni ýmsar sögur af Páli sem gat reynst erfitt að sanna en auðvelt að hrekja. Í þessari utanför var Oddur því stöðugt milli vonar og ótta, í sífelldri geðshræringu – allt er undir, æðstu metorð, hæsta fall – og fór svo loks að í æsingnum skar hann sig á háls meðrakhníf.

Hann lifði af þetta sjálfsbanatilræði en þetta átti eftir að koma oftar fyrir – að hann skæri sig á háls í hugaræsingi og vanstillingu. Samtíðarmenn áttu erfitt með að átta sig á þessari vitfirringu og smám saman myndaðist þjóðsaga um þetta athæfi. Hún er á þá leið að Oddur hafi eitt sinn á æskuárum setið við lestur hjá móður sinni í stofu inn af baðstofunni. Allt í einu heyrir hann undarleg hljóð frammi, tekur ljósið og gengur á hljóðið. Kom hann þar að manni sem hafði skorið sig á háls og varð mjög mikið um.

Það er hins vegar af málalyktum í Kaupmannahöfn að segja að Dönum tókst að lægja öldurnar að sinni og héldu báðir virðingu sinni. Páll hélt embætti og æru þótt margir dóma hans væru taldir rangir og órökstuddir. Um þessar mundir var Beyer boðaður utan til að gera grein fyrir reikningum sínum, og sigldi hann árið 1717 en komst aldrei alla leið, lést í Noregi á leiðinni. Þar með var lokið yfirráðum þeirra fullmektugu.

Vegur Odds stóð hins vegar sem hæst um þessar mundir. Hann var einn af ríkustu mönnum landsins, fulltrúi stiftamtmanns, lögmaður norðan og vestan, hélt Snæfellssýslu, Stapaumboð og Dalasýslu annað veifið, átti jarðir víða um land og bjó myndarbýli á Narfeyri.Þar safnaðist kringum hann knárra sveina flokkur af skjólstæðingum og viðhlæjendum og var tónninn í á kvöldskemmtunum væntanlega eitthvað svipaðurþeim sem er í orðum sem sagt er að Sumarliði Klemensson sýslumaður Strandasýslu hafi jafnan haft uppi þegar hann drakk Oddi til – sem oft mun hafa verið:  Flatur með mínum herra.

með því hann er innfæddur Íslendingur …“

Þegar Gyldenlöve stiftamtmaður hafði pata af því að þeir Oddur og Jón Vídalín væru enn lagstir í deilur tók hann á sig rögg og svipti Odd umboði sínu. Hann hafði þá skömmu áður sent  hingað til lands norskan mann, Niels Fuhrmann sem kom hingað að áliðnu sumri 1718, fyrst sem aðstoðaramtmaður og síðar sem amtmaður. Hann þekkjum við af válegum kvennamálum hans – en Appolonia Schwartzkopf elti hann hingað á Bessastaði þar sem hún ku eigra enn um stofur á köldum nóttum, en hún var drepin á eitri. Það er önnur saga: nú fékk Fuhrmann umboð Odds í hendur. Og enn átti eftir að halla undan fæti fyrir honum: Árið 1719 lést Gyldenlöve stiftamtmaður og var Raben nokkur flotaforingi skipaður í hans stað. Gyldenlöve hafði haldið hlífiskildi yfir Oddi þrátt fyrir allt, bar í bætifláka fyrir hann og studdi hann í langvinnum deilum hans við Jón Vídalín, á bak við tjöldin að minnsta kosti.

Og nú tóku fjölmargir óvinir Odds að hugsa sér til hreyfings. Og snögglega tók vinum hans líka að fækka, allir fylktu sér um hinn nýkomna mann sem Jón segir um:

Fuhrmann var ekki lengi að átta sig á málunum. Hann sá það fljótt að hér voru aðeins tveir kostir fyrir hendi:að kúga þenna mann til hlýðni við sig eða steypa honum algerlega. Fyrr gat hann ekki sagt að hann væri búinn að tryggja vald sitt á Íslandi. Fuhrmann var að vísu hreinlyndur maður og prettalaus, en hann þóttist samt ekki mega drepa hendi við hjálparmeðulum þeim, sem honum buðust, þótt þau máske væru ekki með öllu óaðfinnanleg, ef í ströngustu rannsókn var farið. Hann sá það eitt, að hann varð fyrir hvern mun að ná yfirtökunum á Oddi, og hann náði þeim á endanum. En fyrst varð hann að sæta lagi og grafast fyrir um allan embættisferil hans. Hann veitti því fúslega áheyrn öllum þeim, sem einhverjar upplýsingar gátu gefið honum, og þeir voru margir, sem flýttu sér að létta afsér lastmælabyrðinni.

Oddi var margt betur gefið en nákvæmni í embættisfærslu og þar var Fuhrmann fljótur að finna höggstað á honum og nú tekur að rigna yfr Odd aðfinnslum og ákúrum og rukkunum um skjöl sem finnast ekki og dómabækur sem vantar í eða bætt hefur verið í.

Gottrúp sýslumaður og fjölskylda

Gottrúp sýslumaður og fjölskylda

Meðal þess sem amtmaður grennslaðist fyrir um hjá Oddi var hvort hann héldi Snæfellssýslu og Stapaumboð án þess að hafa veitingu konungs fyrir því og skipar hann Oddi að leggja fram veitingabréf en missa lénin ella. Úr varð að Oddur missti þau en Fuhrmann fékk þau í hendur Jóhanni Gottrúp sýslumanni í Húnavatnssýslu. Var það upphafið að megnum deilum Odds og Gottrúps.

Meðal þeirra fjölmörgu sem nú leituðu til Fuhrmanns til að rétta hlut sinn gagnvart Oddi var hans gamli tengdafaðir, Guðmundur ríki, sem að sögn Jóns var „maður féskyggn og nískur, forn í skapi og undarlegur.“

Þegar Oddur settist að á Narfeyri tók Guðmundur sig upp og flutti til Brokeyjar þar sem hann byggði stór og glæsileg hús og tók að auðgast á ný. Ekki var þó Adam lengi í Paradís því Oddur hugsaði honum þegjandi þörfina því nú þóttist hann sjá að úti væri um arfsvon eftir Guðmund. Hann tók sig nú upp og fór út í Brokey með sveinum sínum – handrukkaralýð þessa tíma – og var erindið að skaprauna Guðmundi. Þar létu menn sitt ekki eftir liggja, brutu og brömluðu,spilltu mat og drykk og „fífluðu griðkonur“ eins og það heitir hjá Jóni. Varð Guðmundur svo æfur við þetta, að hann hugsaði ekki um annað meir upp frá þessu en ná fram hefndum.

Sú stund rann svo að lokum upp þegar honum tókst með aðstoð Fuhrmanns að ná aftur Narfeyri af Oddi og hafa af honum mikið fé. Áður en lauk arfleiddi síðan Guðmundur  ríki Fuhrmann að öllu sínum eignum.

Jón skrifar:

Nú var af sú tíð að menn óttuðust reiði Odds og kinokuðu sér við að ganga í berhögg við hann. Á þeim 2-3 árum sem liðin voru frá því Fuhrmann kom hér upp,var svo um skipt fyrir honum, að hann varð sjálfur að sæta refsingu hvað eftir annað, í stað þess að beita hirtingarvendinum við aðra út í frá. Áður höfðu landsins bestu menn orðið að lúta í lægra haldi fyrir honum en nú var svo komið að jafnvel ómerkum umrenningum þótti sér ekki ofvaxið að etja kappi við hann fyrir rétti. Hann fór á þessum árum hverja hrakförina á fætur annarri enda risu menn nú upp hópum saman og kærðu hann fyrir ýmsar misgerðir, bæði sannar og ímyndaðar. Sumir af þessum spjátrungum og vesalmennum sem nú settust að honum eins og grimmir rakkar voru aðeins verkfæri í höndum annarra voldugri mótstöðumanna og gerðir út af þeim til að ónáða Odd.

Þegar svo stiftmatmaðurinn nýi, Raben kom hingað til lands árið 1720 hafði Fuhrmann komið því til leiðar með bréfum sínum að hann hafði litlar mætur á Oddi og nú bættust við klögumál á hendur honum frá flestum höfðingjum landsins sem gengu allir á fund stifftamtmanns – nema Oddur sem annaðhvort átti ekki heimangengt vegna veikinda eins og borið var við eða treysti sér ekki til að standa augliti til auglitits við stiftamtmanninn, sem átti eftir að verða honum dýrkeypt.

Nú var því útséð um hylli stiftamtmanns sem skrifar kóngi um Odd í nóvember 1720:

Það er öllum mönnum kunnugt að meðan hann var fulltrúi stiftamtmannsins á Íslandi þá réði og ríkti hann yfir öllu eins og einvaldsherra, svo stiftamtmaðurinn sá sér ekki annað fært að lokum en að svipta hann völdunum, því hann kom öllu landinu í uppnám og vildi einn yfir öllu drottna. Upp á síðkastið var hann farinn að drekka svo afskaplega að öll störf hans á alþingi fóru í ólestri, og hann æddi þar um eins og vitlaus maður.

Þegar svo er komið fyrir Oddi Sigurðssyni að hann er búinn að missa fulltrúastöðuna, sýsluna og umboðið og á að greiða stórfé til Fuhrmanns og Stapakaupmanna þá lætur hann ekki hugfallast heldur afræður að sigla. Fuhrmann neitar honum um vegabréf en hann gefst samt ekki upp heldur strýkur í skip og kemst til Kaupmannahafnar. Þar reynir hann að fá áheyrn hjá stiftamtmanni sem hlýðir á mál hans fullur óbeitar og skrifar Fuhrmann um þessa heimsókn:

Hann hefur verið að reyna að telja mér trú um að hann hafi gert yður viðvart um ferð sína og samið áður við Benedikt Þorsteinsson um að þjóna lögmannsembættinu í fjarveru sinni, en með því hann er innfæddur Íslendingur, legg ég ekki mikinn trúnað á orð hans…

Oddur fær því engan hljómgrunn lengur í Kaupmannahöfn ogsnýr aftur heim. Þegar heim er komið keyrir um þverbak í embættisvanrækslu hans, hann mætir ekki til þings, stendur ekki skil á gjöldum og virðist í einuog öllu storka mótstandsmönnum sínum til að svipta hann lögmannsembættinu. Fé hans eyðist hratt í alls kyns málskostnað, og þó heldur hann áfram fyrri iðju við að eyða og spenna á allar lundir.

Það var svo loks í Jóhanni Gottrúp sem hann hitti endanlega fyrir ofjarl sinn.

„Aldrei hefur nokkur maður í sögu þessa lands … “

Snæfellsnes

Snæfellsnes

Jóhann var sonur Lauritz lögmanns, fæddur og uppalinn á Íslandi og vildi óður og uppvægur taka að sér öll mál gegn Oddi þegar Fuhrmann kom hingað til lands, ef til vill vegna þess að faðir hans hafði hálfpartinn neyðst til að segja af sér vegna undirróðurs Odds. Upphaflega reis ágreiningur þeirra út af afhendingu á Stapaumboðinu. Gottrúp þótti Oddur ekki skila umboðinu í því ástandi sem það ætti að vera og tók sig til og lét greipar   eigur Odds hvar sem hann náði til þeirra. Það yrði til að æra óstöðugan að rekja hina löngu væringasögu þeirra Gottrúps og Odds – en það er ljót saga um gagnkvæman dólgshátt sem endaði  á því að Oddur tapaði öllum málum í Hæstarétti, og var rúinn auði sínum, embættum og æru.

Svo urðu þeir samferða heim. Jóni segist svo frá:

Fóru þeir Gottrúp báðir ásamt á Ólafsvíkur skipi. Á leiðinni fór Gottrúp sem verst hann gat með Odd, svívirti hann og smánaði á allar lundir í viðurvist skipverja og spyrnti fæti til hans er hann sté á land. Fór hann síðan með hann heim að Rauðamel, til móður hans, klæddan í tötra. Er mælt að Sigríður hafi grátið móðigum tárum er hún sá einkason sinn og eftirlætisgoð þannig útleikinn og beðið Gottrúp hinna mestu bölbæna.

Enn voru þó ekki öll kurl komin til grafar, þó að dómur væri genginn í svokölluðu Ingjaldshólsmáli, og Oddur hefði misst æruna. Enn var ódæmt í svokölluðu aðtektarmáli sem skyldi takast fyrir í hæstarétti þann 27.janúar 1727. Og nú hélt Oddur á ný til Kaupmannahafnar. Þegar hann sté á land þar frétti hann lát Rabens stiptamtmanns og var eftirmaður hans Gyldencrone nokkur, barún, sem áður hafði setið í nokkur ár í stjórnarráðinu. Og nú sá Oddur möguleika á því að fá uppreisn æru á ný.

Hana fékk Oddur reyndar ekki strax en hins vegar fékk hann konungsleyfi til að taka allt málið upp og framfylgja því og fylgdi skipun til amtmanns að sjá um að stefnur hans væru löglega birtar.

Þann 22. júní 1730 var svo dómur kveðinn upp og var þar fyrri dómum hnekkt að mestu, auk þess sem Oddur endurheimti æruna. Gottrúp var dæmdur til að að borga honum skaðabætur og skila aftur öllu því sem hann hafði hrifsað til sín af eigum Odds, sem var mest allt. Mest af því fé var glatað og Gottrúp endaði sína daga sem fiskbarsmíðarkarl og gustukamaður á Grunnasundsnesi.

Þegar þessum málum öllum lauk var Oddur rétt fimmtugur  og tekinn að mæðast, Með árunum stilltist hann að sögn og svo fór áður en lauk að þeir Fuhrmann voru farnir að skiptast á fágætum bókum. Oddur átti eftir að verða á ný einn ríkasti maður landsins, hann setti bú sitt á Leirá í Borgarfirði og hélt þar marga ómaga og örvasa gamalmenni. Sagan segir að Jóhann Gottrúp hafi átt leið þar hjá í vesöld sinni og kröm á leið utan í einhverjum málaferlum. Sendi Oddur þá í veg fyrir hann og gaf honum góð klæði og hundrað dali í peningum. Hann lét lítið yfir sér hin seinni ár og átti ekki í málaferlum.

Um morguninn þann fimmta ágúst 1741 fannst Oddur dauður í rekkju sinni. Hann hafði gengið alheill til sængur og enginn heyrt til hans um nóttina. Þegar hans var vitjað í rekkju sinni um morguninn kom í ljós að hann var dauður. Far var á hálsinum. Sumir sögðu að hann hefði verið myrtur og var einn af sveinum hans, Bjarni Jónsson, talinn sá seki.

Í nokkurs konar eftirmála segir Jón sagnfræðingur um Odd Sigurðsson lögmann:

Oddur er einn af þeim mönnum sem mjög erfitt er að einkenna með fáum orðum. Líf hans er svo fullt af öfgum, hann er svo óstöðugur og margbreytilegur í allri sinni háttsemi, að lítt mögulegt er að ná föstum tökum á persónu hans. Hann er aldrei í jafnvægi. Hann gat verið manna kurteisastur og hæverskastur ef því var að skipta og svo ljúfur í viðmóti, að unun þótti; en þegar minnst varði braust frekjan og ruddaskapurinn fram og eyddi áhrifunum jafn harðan.

Og nokkru síðar:

Það er ekki laust við að oss renni til rifja að sjá jafn mikla og góða hæfileika og Oddur hafði fara forgörðum. Það er eins og oss finnist íslenska þjóðin ekki hafa efni á að missa þeirra úr framsóknarbaráttunni. Aldrei hefir ef til vill nokkur maður í sögu þessa lands látið meira á sér bera um sína daga og minna eftir sig liggja.

Og nú er Oddur hinn hávi horfinn – með sína byrði þunga – og gleymdur. Það er hins vegar höfuðóvinur hans, Páll Vídalín, ekki alveg. Það er vegna þess að honum eru kenndar vísur sem enn lifa:

Kúgaðu fé af kotungi

svo kveini undan þér almúgi.

Þú hefnir þess í héraði

sem hallaðist á alþingi.

Og:

Forlög koma ofan að,

örlög kringum sveima,

álögin úr illum stað

en ólög fæðast heima.

Og um ástina:

Enn nærist elskan sanna.

Enn kærleiksfuninn brennur.

Enn blossar ástar tinna.

Enn kviknar glóð af henni.

Enn giftist ungur svanni.

Enn saman hugir renna.

Enn gefast meyjar mönnum.

Menn hallast enn til kvenna.

Um dauðann:

Stoðar lítt að stæra sig,

styttast heimsins náðir;

maðkurinn étur mig og þig,

mold erum við báðir.

Og auðvitað:

Einatt liggur illa á mér,

ekki eru vegir fínir.

Heilir og sælir séuð þér

snjótittlingar mínir.

Páll Vídalín var sem sagt skáld. En Oddur er öllum gleymdur nema mér af því að ég ætlaði einu sinni að skrifa skáldsögu um hann og rakst á þennan gamla fróðleik hér einhvers staðar í afkimum tölvunnar. Mennirnir deyja og fallvölt er heimsins blíða, hold er mold hverju sem það klæðist – bókfellið velktist og stafirnir fyrnast og fúna; allt fer, en aðeins skáldskapurinn lifir.

Guðmundur Andri Thorsson

1,594