Upptrekkti stjórnmálamaðurinn
Forseti. Góðir Íslendingar. Við höfum fengið í vöggugjöf mikil forréttindi sem eru náttúra landsins og gríðarlegar auðlindir hennar. Við þurfum ekki nýtt Ísland, við þurfum nýtt lýðræði, því að það voru stjórnmálin sem með getuleysi og spillingu bundu endi á velgengni okkar. Og þó að fólk og fyrirtæki í landinu séu að rísa þá er pólitíkin það ekki.
Stjórnmálastarfið hefur dregist aftur úr um þekkingu, vinnubrögð og gæði. Hér sitjum við á miðju sumri eftir margra mánaða tilgangslitlar deilur um tillögur sem hvort eð er voru dregnar til baka. Mörg mál á vetrinum sýna hve stjórnmálastarfið er orðið lélegt; ramminn, fiskistofumálið, náttúrupassinn, Evrópusambandsbréfið og fleira klúður sem vekur fólki úr öllum flokkum aulahroll.
Við þurfum að gera róttækar breytingar til bóta, m.a. tryggja rétt minni hluta og þjóðarinnar til þjóðartkvæðagreiðslu og þrýsta þannig á um að meiri hluti á hverjum tíma virði skoðanir minni hluta og hafi samráð við þjóðina um þróun samfélagsins í stað sífelldra átaka um allt eða ekkert. Lekamálið minnir okkur á hættur ráðherraræðisins og nauðsyn þess að Alþingi, fjölmiðlar og fólk hafi tæki til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Tillögur stjórnlagaráðsins til þess að draga úr ráðherraræði og meiri hluta væru hér mikið framfaraskref.
Við þurfum líka að taka úr sambandi upptrekkta stjórnmálamanninn, þann stjórnmálamann sem svo oft hefur staðið í þessum ræðustól, stjórnmálamanninn sem allur heimurinn hefur gefist upp á, því að hann virðist sífellt vera að segja: Ég hef rétt fyrir mér og hinir eru hálfvitar. Þylur oft upp tölur til að sanna árangur sinn hvernig sem gengur. Allt er honum að þakka í samræmi við ýktar hugmyndir hans um mikilvægi sjálfs sín og áhrif. Við verðum að varast að verða sá stjórnmálamaður því að hann á ekkert erindi við nútímann. Við vitum sem er að þeir sem láta svona eru einsýnir, óvandaðir og ekki traustsins verðir.
Við getum á þessum fallegu sumardögum verið vonglöð því að svo virðist sem þrotlaust starf fólks og fyrirtækja í landinu í sjö ár séu nú að skila árangri. Að okkur, fólki úr öllum flokkum og utan flokka, úr öllum þjóðfélagshópum, öllum stéttum sé nú að takast að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl í sameiningu. Við eigum að vera þakklát fyrir það. En þær miklu fórnir, sem heimilin í landinu, ekki síst fátæk og skuldsett heimili, heimilin sem misstu vinnu, fyrirtæki og sparnað, hafa fært, leggja miklar skyldur á herðar okkar. Við eigum að tryggja það að við gerum betur núna. Til þess þurfum við gagngerar stjórnarfarsbreytingar.
Þeir sem engar breytingar vilja segja gjarnan: Já, en það var ekki stjórnarskráin sem setti okkur á hausinn. Satt er það. En það var stjórnmálakerfið, sem starfar eftir þeirri stjórnarskrá, sem gerði landið gjaldþrota, eitruð tengsl stjórnmála og viðskiptalífs, einkavinavæðing bankanna, skortur á peningastefnu og eftirliti, lausaganga spákaupmanna, allt þetta gerði okkur gjaldþrota. Og að afneita stjórnunarvandanum verður til þess að við gerum ekki nauðsynlegar breytingar til þess að sagan endurtaki sig ekki.
Margt hefur líka minnt á árið 2007 á þessu þingi. Við höfum fengið hér frumvörp um bankabónusa á ný, um myntkörfulán. Pólitísk afskipti af stjórnun fjármálafyrirtækja og tilraunir til þess að ná pólitískum tökum á eignarhlutnum í Landsbankanum — 2007. Seðlabankinn hækkar vexti meðan efnahagsráðherrann lofar skattalækkunum. Menn ræða sölu banka í tengslum við þrotabúin án þess að gera kröfur um dreift eignarhald. Bankarnir fara um og kaupa upp sparisjóði. Kannast einhver við það?
Hlutir ríkisins eru seldir án útboðs. Frændhygli og tengsl stjórnmála og viðskiptalífs valda áhyggjum og enn búum við sama gjaldmiðil og 2007.
Fólkið og fyrirtækin í landinu, þau skila sínu. En stjórnmálin skila þeim að vinnudegi loknum þrefalt hærri vöxtum en í nágrannalöndum. Ungt fólk á erfitt með að eignast íbúð og fyrirtækin hugsa sig um. Við þurfum gagnsæi og reglur um tengsl stjórnmála og viðskipta. Við þurfum að skera upp allt of dýrt bankakerfi en umfram allt þurfum við að tryggja þá festu og þann aga sem fylgir peningastefnu, mynt og vöxtum eins og gerist annars staðar á Norðurlöndunum.
En mest var þó stefnan um ójöfnuð árið 2007. Þetta þing hófst á því að hækka matarskatt á almenning en því lýkur á því að lækka veiðigjöld á útgerðina. Það sem gæti hafa orðið sjálfsögð og sanngjörn skuldaleiðrétting varð að ójöfnuði með því að leigjendur og námsmenn voru skildir útundan, og auðmenn fengu einn og hálfan milljarð úr ríkissjóði. Öryrkjar fá 3% hækkun meðan aðrir fá 30%. En allir þeir sem færðu fórnir eiga tilkall til batans siðferðilega séð. Hvenær ætlar ríka fólkið að skilja það að jöfnuður er bestur fyrir alla. Það er einfaldlega best að búa í löndum þar sem frelsi og jöfnuður ríkir. Þar eru lífskjör allra best.
Ójöfnuðurinn hefur líka spillt friði á vinnumarkaði. Samningar við einkareknar læknastofur ollu sundrungu og sköpuðu á endanum neyðarástand í heilbrigðiskerfi okkar. Ríkisstjórnin hafði á endanum ekki önnur ráð en að halda upp á afmæli kosningaréttar kvenna með því að afnema verkfallsrétt stórra kvennastétta. Samt er stærsta réttlætismálið í okkar samfélagi að eyða launamun milli karla og kvenna en ekki að auka hann.
En hvað sem líður mistökum okkar þá var líka margt gott árið 2007. Uppgangur á að vera góður og með gjörbreyttri stjórnmálamenningu með almannahagsmunum ofar sérhagsmununum getum við tryggt öllum mannréttindi og tækifæri. Með því að breyta markaðnum úr vondum herra í góðan þjón getum við aukið samkeppnina, jafnræði og bætt kjörin. Við getum skapað unga fólkinu tryggt húsnæði, mannsæmandi lífskjör, menntun og heilbrigðisþjónustu.
Stjórnmálabarátta almennings hefur skapað gríðarlegar framfarir um allan heim og gert hann að betri stað til þess að búa í. Við skulum ekki láta freka karlinn eyðileggja stjórnmálin fyrir okkur, því að lýðræðið getur gert vonir okkar að veruleika. Stærsta tækifærið er nýr dagur. Látum hann renna upp.
Helgi Hjörvar, eldhúsdagur á alþingi, 1. júlí 2015.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021