Um óbærilega viðkvæma skynjara
Karl Th. Birgisson skrifar
Það er sárgrætilegt að sjá á eftir Sigríði Andersen úr embætti dómsmálaráðherra.
Sigríður fór sjálf skilmerkilega yfir ástæður þess á blaðamannafundi í dag. Það var sársaukafullt að hlusta á greinargerð hennar.
Að vísu er fyrir löngu orðið ljóst að hún braut landslög þegar hún skipaði dómara við hinn nýja Landsrétt á sínum tíma. En það er allt í lagi, því að Sigríður Andersen hefur ekki gert neitt rangt.
Að vísu hafa skattgreiðendur í tvígang þurft að greiða þeim umsækjendum bætur, sem sóttust eftir því, vegna embættisfærslna hennar. En það er líka alltílæ, af því að Sigríður Andersen hefur ekki gert neitt rangt.
Hún gleymdi raunar að nefna að hún bjó sjálf eftirá til nýja reglu við meðferð málsins. Sú kvað á um að reynsla af dómarastörfum skyldi vega þyngra en áður hafði verið gefið út. Að vísu fylgdi Sigríður svo ekki sinni eigin reglu, heldur skipaði sem dómara einstakling sem hafði minni dómarareynslu en næsti umsækjandi. En það er líka mjög skiljanlegt að hún hafi sleppt því að nefna þetta, því að Sigríður Andersen hefur ekki gert neitt rangt.
Að vísu hefur Mannréttindadómstóll Evrópu nú komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki einungis hafi ráðherrann brotið lög, heldur hafi lögbrotið verið „flagrant“. Orðabókarskýringin á því er augljóst og vísvítandi brot gegn því sem rétt er samkvæmt lögum. En það er allt í lagi líka, af því að Sigríður Andersen hefur ekki gert neitt rangt.
Að vísu er hinn þungi undirtónn í skýrri niðurstöðu Mannréttindadómstólsins, að lögbrot ráðherrans og pólitísk afskipti hennar af dómskerfi landsins séu nákvæmlega sömu ættar og sambærileg við það sem hálf-fasistarnir í Ungverjalandi og Póllandi hafa verið að gera síðustu misseri. En það er sömuleiðis allt í lagi, af því að Sigríður Andersen hefur ekki gert neitt rangt.
Að vísu er réttarríkið og dómskerfið á Íslandi í fullkomnu uppnámi og enginn veit hvenær hér verður aftur virkur og löglegur áfrýjunardómstóll. En það er alltílæ, af því – æ, þið vitið.
Að þessu og fleiru samandregnu og virtu var átakanlegt að hlusta á dómsmálaráðherra tilkynna um tilhliðarstig sitt í dag. Hún tók það þrátt fyrir yfirlýst og margsannað sakleysi sitt.
Hún hefði hins vegar „skynjað“ í umhverfi sínu að einhverjum þætti óþægilegt eða jafnvel óheppilegt að hún gegndi þessu embætti áfram.
Svona getur lífið nú verið ósanngjarnt. Við vitum öll að skynjararnir í Sigríði Andersen eru næmari og viðkvæmari en hjá flestu öðru fólki, og þeim mun sárara er að sjá hana núna verða saklaust fórnarlamb sinnar eigin næmni og viðkvæmni.
Saklausu lömbin eru viðkvæmust.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021