trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 26/10/2018

Þetta er (ekki) allt að koma

Fréttir dagsins benda til þess að við séum að skána. En þó alls ekki.

Nefnum bara þrjár.

Sú fyrsta og gleðilegasta er nýr forseti ASÍ. Drífu Snædal þekki ég lauslega sem hörkutól með hjartað á réttum stað. Hún rífur kjaft á mannamáli, ef þess þarf. Það er einkenni margra Jökuldælinga.

Við bætist að hún er hæfilega róttæk, sem er nauðsynlegt á okkar tímum, og enginn frýr henni djúprar réttlætiskenndar. Ennfremur er hún laus við þráhyggjuna eða jafnvel fóbíurnar sem sumir hinna nýrri verkalýðsleiðtoga eru haldnir. Samanlagt er þetta góður kokteill.

Það er í engu á Sverri Mar Albertsson hallað þótt fagnað sé innilega kjöri Drífu sem forseta ASÍ.

En æ. Svo eru það hinar fréttirnar. Gleymum nú alveg nafni Sigríðar Andersen og hvað okkur finnst um hana að öðru leyti. Hún er áreiðanlega ágæt eins og flestir.

Staðreyndin er samt sú, að í vestrænu lýðræðisríki situr dómsmálaráðherra sem hefur verið svo afdráttarlaust fundinn sekur um lögbrot á öllum dómstigum að liggur við húðstrýkingu. Brot ráðherrans voru svo alvarleg að skattgreiðendur þurfa að punga út stórfé til að bæta fyrir þau.

Ráðherrann derrir sig samt bara, segist ekkert mark taka á dómstólum og ekkert hafa gert rangt. Þetta er vel að merkja dómsmálaráðherra. Og brotin framdi ráðherrann þegar hann var að skipa fólk til starfa við nýjan og mikilvægan dómstól.

Margítrekað rökstudd, augljós og alvarleg brot. Sem almenningur þarf að borga fyrir. Og ráðherrann situr enn sem fastast eins og ekkert hafi gerzt.

Þriðja fréttin er bæði góð og slæm. Stundin heldur áfram að skrifa af mikilli elju og nákvæmni um fjármálaumsvif Bjarna Benediktssonar og nánustu fjölskyldu hans, þrátt fyrir að lögbann gildi enn um birtingu frétta um þau.

Það er vel gert og mikið þjóðþrifamál. Sýslumaður Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu hefur í tvígang verið gerður afturreka með sinn furðulega lögbannsgjörning og löngu tímabært að honum sé réttur viðeigandi fingur með takk fyrir síðast.

Efnið er ótrúlegt.

Okkar elskulegi forsætisráðherra gaf sér hins vegar ekki tóm til að svara fyrirspurnum Stundarinnar um þessi viðskipti fjármálaráðherrans. Hún hefur þó haft heilt ár til þess að hugsa um þau. Fyrir ári – eftir lögbannið – gaf ég út svolitla bók, Hinir ósnertanlegu, um þau mál og fleira, og af rausn sinni skaut Herðubreið eintaki í pósthólf allra alþingismanna.

Ekkert um viðskipti fjármálaráðherra ætti því að koma forsætisráðherra eða öðrum þingmönnum í opna skjöldu, ef þeir lesa eitthvað yfirleitt. Heiðurinn af efninu er þó að mestu leyti Stundarinnar og eftir atvikum Kjarnans, en vonandi bætti ég einhverju við.

En leiðtogi ríkisstjórnarinnar tjáir sig ekki um ráðherra sína.

Og þar situr nú hnífurinn kengfastur í kúnni.

Á meðan vinnandi fólk í landinu býr sig smám saman undir að sækja rétt sinn og mannsæmandi kjör situr margdæmdur lögbrjótur sem dómsmálaráðherra, og braskari og fjárhættuspilari er fjármálaráðherra – þessi sami og segir að hátekjuskattur sé „ekki til umræðu“ – og þau sitja bæði í góðfúslega veittu skjóli Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs.

Líklega er allsendis snemmbært að fagna nýjum tímum. Hvað þá betri siðum.

Eða bara einhverju.

2,257