trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 27/03/2017

Þegar Erla Bolladóttir fór á puttanum frá Keflavík

PuttaferðalangurÞað er auðvelt að finna ýmsa ranghala í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum og jafnvel enn auðveldara að týna sér í einhverjum þeirra. Meðal slíkra hliðarstíga, sem ég sleppti í bókinni „Sá sem flýr undan dýri“ er sagan um hina frægu heimferð Erlu Bolladóttur frá Keflavík að morgni 20. nóvember 1974, daginn eftir að Geirfinnur Einarsson hvarf.

Ég var reyndar búinn að skrifa dálítinn kafla um þetta, en skar hann út á lokametrunum. Aðalástæðan var sú að mér fannst ég vera búinn að moka þetta svokallaða Geirfinnsmál svo rækilega í kaf í bókinni að „puttaferðin“ væri löngu orðin ónauðsynlegur útúrdúr. Í bókinni eru raktar a.m.k. þrjár sjálfstæðar og nokkuð fullkomnar sannanir þess að sakborningarnir hafi ekki verið í Keflavík þetta kvöld.

Eftir á að hyggja hefði ég kannski átt að halda þesum kafla, þó ekki væri nema vegna þess hversu mikla athygli sagan fékk á sínum tíma. Ég hef líka örlítið orðið þess var að „sanntrúaðir“ virðast enn halda dauðahaldi í þá „staðreynd“ að þessi ferð Erlu hafi á sínum tíma verið endanlega sönnuð. Í sem stystu máli átti Erla að hafa falið sig í tilteknu húsi í Keflavík, meðan ferðafélagar hennar voru uppteknir við að ráða Geirfinni bana, og farið heim á puttanum daginn efir. Þetta játaði Erla eins og annað, sem hún var beðin um. (EB, bls. 207). Víða í sjálfsævisögu hennar er merkilegur fróðleikur um þá hjálp, sem hún veitti lögreglunni við að semja skáldsögur.

Reyndar virðast ekki margir efast lengur um sakleysi hinna dæmdu í Geirfinnsmálinu, en þó sá ég nýlega haft eftir Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni og núverandi alþingismanni að Pressupistlar hans um þessi mál frá árinu 2011 hafi elst nokkuð vel. (Vísir 28. febrúar 2017). Það má kannski til sanns vegar færa. Allavega sýnist mér pistill hans um Guðmundar- og Geirfinnsmálin í hnotskurn (Pressan 7. nóvember 2011). nokkurn veginn alveg ámóta vitlaus nú og þegar ég las hann fyrst.

Lesskilningskröfur í lagadeildinni
Brynjar leggur talsvert upp úr puttaferðalagi Erlu frá Keflavík til Hafnarfjarðar að morgni 20. nóvember, morguninn eftir að Geirfinnur hvarf. Hann segir:

„Greinilegt að mikilvægt er í sönnunarfærslunni og sönnunarmatinu frásögn Erlu af „puttaferðinni“ frá Keflavik til Hafnarfjarðar sem staðfest er af tveimur utankomandi vitnum enda fellst það í niðurstöðu beggja dómstiga að full sönnun hafi legið fyrir um að Erla hafi verið að fara frá Keflavík að morgni 20. janúar 1974.“

Það er út af fyrir sig rétt að þessi ferð var talin fullsönnuð í báðum dómunum, en milli þeirra er áberandi misræmi, sem hefði átt að vekja tortryggni hjá skarpskyggnum og þrautreyndum hæstaréttarlögmanni. Þetta segir Hæstiréttur:

„Tveir bifreiðarstjórar gáfu sig fram við rannsóknarlögreglu í mars og apríl 1976 og skýrðu frá því, að þeir hefðu ekið stúlku, annar frá Keflavík að Grindavíkurvegi og hinn þaðan til Hafnarfjarðar, að morgni 20. nóvember 1974. Við sakbendingu taldi annar þeirra sig þekkja ákærðu Erlu sem stúlku þá, er hér væri um að ræða.“ (H1980, bls 106).

Þetta er í rauninni tómt bull. Um það er tæpast hægt að nota neitt vægara orðalag. Það er auðvitað fráleitt að bílstjórarnir hafi fullyrt að þetta hafi gerst 20. nóvember, eins og hér er sagt berum orðum. Og að annar bílstjórinn hafi talið sig „þekkja ákærðu Erlu“, er líka beinlínis rangt. Annar bílstjórinn þekkti Erlu alls ekki í sakbendingu, en hinum fannst hún „koma til greina“.

Sakadómarnir þekktu málið betur og þorðu ekki að vera alveg jafn óforskammaðir:

„Vitnið mætti í sakbendingu hjá rannsóknarlögreglu hinn 30. mars 1976 og benti þar á Erlu Bolladóttur í hópi stúlkna, sem líkasta stúlku þeirri, sem kom í bifreiðina. Kveðst vitnið telja, að það hafi verið Erla, sem kom umrætt sinn í bifreið þess. Vitninu var sýnd mynd af Erlu og telur, að um hana sé að ræða, en tekur fram, að hún hafi ekki verið með gleraugu.“ (H1980, bls. 587).

Ósamræmið stingur dálítið í augu. Hæstiréttur fullyrðir að vitnið hafi talið sig þekkja Erlu. Sakadómur segir hana „… líkasta stúlku þeirri …“. En hjá hæstaréttarlögmanninum Brynjari Níelssyni kviknar ekki á neinni peru við þetta misræmi. Manni liggur við að spyrja hvaða lesskilningskröfur séu gerðar við lagadeild Háskóla Íslands.

Sakadómararnir fullyrtu reyndar líka of mikið. Það sem bílstjórinn sagði í raun og veru eftir sakbendinguna var þetta:

„Í þeim hóp fannst mér ein stúlka koma til greina að vera sú sama og ég tók upp í bifreið mína …“ (M12, bls. 151-152).

Við getum sennilega ekki álasað Brynjari fyrir að taka ekki eftir þessu síðasta, þar eð hann hefur aldrei lesið neitt nema dómana og dómararnir slepptu þessari málsgrein. En það nokkuð langt á milli þess að „koma til greina“ og „telja sig þekkja“. Hér leynist líka annað atriði, sem Brynjari yfirsést einmitt vegna þess að hann las bara dómana, en kynnti sér ekki frumheimildir.

Þar sem vitnað er í sakadóminn hér að framan, er gefið til kynna að allt hafi þetta gerst í sama skiptið. Bílstjórinn hafi sem sé í sakbendingu bent á Erlu sem líkasta þeirri stúlku sem hann tók upp í bílinn og talið að þar hafi Erla verið á ferð. Honum hafi því næst verið sýnd mynd af Erlu og þá aftur talið að um hana væri að ræða.

Það er nánast óhugnanlegt að sjá sakadómarana teygja sig svona langt til að gera niðurstöðu sína örlítið meira sannfærandi. Í rauninni er hér um tvo skýrt aðskilda atburði að ræða. Bílstjórinn „benti“ aldrei á Erlu í sakbendingunni, heldur sagði einungis eftir á að sér fyndist ein stúlka „koma til greina“. Afganginn af þessari tilvitnun taka dómararnir úr eigin yfirheyrslu fyrir dómi, þar sem þeir sýndu bílstjóranum mynd af Erlu tókst að bóka það heilum tveimur sinnum í sömu efnisgrein að bílstjórinn telji að þetta hafi verið Erla.

Það var reyndar hvorki í fyrsta né síðasta sinn, sem dómabókin ber með sér að vitnisburður hafi verið togaður í tiltekna stefnu til að styrkja málatilbúnaðinn. Því má heldur ekki gleyma, að við höfum engar segulbandsupptökur. Við sjáum hvorki nákvæmt orðalag í spurningum né svörum. Og orðalag getur svo sannarlega skipt máli.

Brynjar Níelsson smyr svo sjálfur ofan á þetta með því að segja ferð Erlu staðfesta „af tveimur utanaðkomandi vitnum“. Þetta getur varla talist neitt minna en vísvitandi rangfærsla, því hinn bílstjórinn (hitt vitnið) treysti sér alls ekki til að bera kennsl á Erlu í sakbendingu.

Lítil vexti og lágvaxin
Bílstjórinn, sem dómararnir reyndu að nota til að „sanna“ ferðalag Erlu, var tvisvar sinnum látinn lýsa stúlkunni, sem hann tók upp í bílinn. Í fyrra skiptið var það í skýrslutöku hjá lögreglu 30. mars 1976. Sú lýsing var svona:

„Ég man óljóst hvernig þessi stúlka leit út, en hún var grönn og frekar lítil vexti, skolhærð og frekar sítt hár. Um aldur get ég ekki sagt, en gæti verið um tvítugt.“ (M12, bls. 187-188)

Hann var aftur látinn lýsa stúlkunni fyrir dómi 26. maí 1977 og gerði það á þessa leið:

„Vitnið segir að stúlkan hafi verð grönn, frekar lágvaxin, skolhærð og gæti verið um tvítugt.“ (M21, bls. 66).

Aldurinn og háraliturinn fá ágætlega staðist, en það sem hér skiptir máli er líkamshæðin. Samkvæmt upplýsingum tæknideildar rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík var Erla 168 cm að hæð og 58 kg að þyngd 22. desember 1976. (M3, bls. 16). Á árunum 1968-98 jókst meðalhæð íslenskra kvenna úr 162,8 í 167 cm. (Vísindavefurinn 1. 4. 2008). Erla er enn í dag yfir meðalhæð íslenskra kvenna og á þessum tíma hefur hún verið rúmum 5 cm hærri en í meðallagi.

BMI-stuðull Erlu hefur samkvæmt þessum tölum verið 20,6 og hún hefur því verið nokkuð nákvæmlega í kjörþyngd. Það hefði á þessum tíma mátt orða sem svo að hún samsvaraði sér vel.

En líkamshæð Erlu, 5 cm yfir meðalhæð íslenskra kvenna, er talsvert meiri en svo, að lýsing bílstjórans geti mögulega átt við hana. Hún gæti mögulega hafa verið grennri haustið 1974, en tveimur árum síðar, en líkamshæðin hefur ekki breyst að neinu ráði. Það hefur þess vegna verið ógerningur að lýsa Erlu þannig að hún hafi verið „frekar lítil vexti“ eða „frekar lágvaxin“. Erla hefur þvert á móti verið fremur hávaxin á þessum tíma.

Varðandi þetta atriði getum við mögulega haft Brynjar Níelsson afsakaðan á þeirri forsendu að hann hefur jú aldrei lesið neitt nema dómana. Það á ekki við um dómara Sakadóms Reykjavíkur, sem höfðu þessar upplýsingar (og Erlu sjálfa) fyrir framan sig. Framburður bílstjórans er í raun og veru nokkuð ákveðin vísbending um að stúlkan sem hann tók upp í bílinn „haustið 1974“ hafi örugglega ekki verið Erla. Engu að síður notuðu dómararnir þennan framburð bílstjórans sem „sönnun“.

Sönnunarbyrðin og vafinn
Það heyrir til meginreglna sakamálaréttarfars að sönnunarbyrðin hvíli á ákæruvaldinu og að sakborningur skuli látinn njóta vafans, þegar svo háttar til að sönnunargögn séu ekki alveg óyggjandi. Varðandi þessa frægu puttaferð Erlu Bolladóttur þann 20. nóvember 1974, háttar svo til tveir bílstjórar gáfu sig fram og sögðust hafa tekið upp unga stúlku á leið frá Keflavík til Reykjavíkur. Hvorugur þeirra gat sagt til um dagsetninguna með nokkurri vissu. Sem raunar mætti kalla ógerlegt þegar eitt og hálft ár liðið frá atburðinum. Hvorugur bílstjórinn treysti sér til að bera kennsl á Erlu í sakbendingu og sá sem lýsti stúlkunni, lýsti henni þannig að lýsingin gat alls ekki átt við Erlu.

Niðurstaðan er jafn augljós og hún er einföld. Sönnunarbyrðinni var gjörsamlega snúið á haus og sú eina vísbending, sem þó hefði mátt taka eitthvert mark á, var túlkuð þveröfugt.

Og þessi regla um að njóta vafans. Eigum við ekki bara að gleyma henni.

Aftur á móti er margt fleira bæði athyglis- og athugavert við Pressupistil Brynjars Níelssonar. Það látum við bíða að sinni.


Heimildir:
Vísir: http://www.visir.is/brynjar-segir-greinar-sinar-um-gudmundar–og-geirfinnsmal-frabaerar-og-eldast-vel/article/2017170228787. -sótt 26. mars 20017.
Hæstaréttardómar LXI. árgangur 1980, bls. 106 og 587.
Málsgögn: Möppur 3, 12 og 21 (allt aðgengilegt á www.mal214.com ).
Vísindavefurinn: http://visindavefur.is/svar.php?id=7275. -sótt 26. mars 2017.
Pressan 7. 11. 2011: http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Brynjar/gudmundur–og-geirfinnsmalid-i-hnotskurn. -sótt 26. mars 2017.
Erla Bolladóttir: Erla góða Erla, Rvk. 2008.

(Greinin birtist fyrst á www.jondan.is)

 

Flokkun : Pistlar
1,580