trusted online casino malaysia
Ritstjórn 02/12/2014

Það sem kirkjan vildi ekki að við heyrðum og Jón Sigurðsson langaði að vita: Grettisfærsla

Jón og GrettirSannkristnir menn á miðöldum skófu burt langan texta úr Grettis sögu. Efnið þótti of klúrt. Nú getum við loks lesið það. Og hlustað.

Í handritum að Grettis sögu hefur öldum saman vantað allnokkurn kafla, en þó var vitað að þar hafði verið kvæðið ´Grettisfærsla´. Í skinnhandritum var það bókstaflega skafið ofan af bókfellinu, þar sem kvæðið þótti ekki samrýmast kristnu siðgæði, þótt Grettir sjálfur væri heiðnari en Óðinn.

Jón Sigurðsson forseti skrifar um Grettisfærslu í Ný félagsrit 1861:

„Fyrst eg er að tala um máð og útskafin skinnblaðaletur, þá verð ég enn að geta Grettisfærslu, sem allir þekkja að nafni, en enginn meir. Í einu handriti Grettlu frá 15. öld (A. M. 556. 4to) er kvæðið skrifað aftan við söguna á þrem blaðsíðum, en síðan (á 16. öld) hefur einhver skafið allt út, svo ekki verður lesið með berum augum. Líklega hefur kvæðið verið keskið [svo] og klámfengið. Ég reyndi til að lesa þetta, en gat hvergi deilt nema stafi á víð og dreif.“

Þannig tókst kirkjunni – með stórvirkum strokleðrum þess tíma – að koma í veg fyrir að Íslendingar læsu óhollan kveðskap.

Það var rétt hjá Jóni forseta, að kvæðið er bæði kerskið og klámfengið, en það gefur þó óvenjulega innsýn í hugarheim sem annars kemur sjaldnast fram í opinberri eða fræðilegri umræðu. Þarna voru íslenskir karlar semsagt að klæmast fyrr á öldum.

Í Grettlu er sagt frá samræðum vestfirskra karla um Gretti, og svo segir:

„Og eftir þessu viðtali þeirra hafa kátir menn sett fræði það er Grettisfærsla hét og aukið þar í kátlegum orðum til gamans mönnum.“

Í handritið var svo bætt blautlegu kvæði, en það var síðar skafið ofan af skinnhandritunum. Líklega eru höfundar textans margir og hefur fjölgað með árunum.

Upp úr miðri síðustu öld tókst Ólafi Halldórssyni handritafræðingi að taka mynd – með útfjólubláu ljósi – svo að lesa mátti hluta Grettisfærslu. Það voru einungis slitur – enda strokleður kirkjunnar öflug – en þó nóg til þess að staðfesta grun Jóns forseta um klámið.

Nú hefur Bjarki Karlsson, sem er að góðu kunnur sem skáld og fræðimaður, fært þennan hluta Grettisfærslu í nútímabúning svo að eftir má taka. Í nýútkomnu verki, Árleysi árs og alda, sem er viðbætt verðlaunaljóðabók hans ásamt geisladiskum með fjölbreyttum flutningi margra okkar bestu tónlistarmanna, birtist þessi texti:

Hann er vanur at moga

barúna ok hertoga,

streður greifa alla,

bæði riddara ok jalla,

er sól er í austri

serður abbadís at klaustri

stórt er hans reður

ok systurnar meður,

streður kýr ok kálfa

ok sérana sjálfa

streður fress til hann mjálmar

tröll ok álfa til þeir blána

bæði konur ok kalla

ok patríarka alla.

þat þikkir honum sómi

at serða páfann at Rómi.

– – – – –

Heiður sé Guði himnum á

og hæst lof fyrir náð sína.

– – – – –

Skáletruðu línurnar eru reyndar eftir Erp Eyvindarson, sem rappar lagið ásamt Hallveigu Rúnarsdóttur sópransöngkonu, en hann var fenginn til þess að fylla í eyður handritsins, og er það varla verst ort textans.

Tvær síðustu setningarnar, um náð Guðs og heiður, voru hins vegar skrifaðar af sannkristnu fólki ofan í bókfellið eftir að hin syndsamlega Grettisfærsla hafði verið máð út.

Lesendur geta sér þess svo til, hvað samheitasagnorðin moga og streða merkja.

Herðubreið lætur allajafna ekki eftir sér að mæla með einstaka verkum eða bókum, en hið fjölhliða verk Bjarka verðskuldar alla athygli, hvað sem líður jólabókamarkaði.

Hér má hlusta á Grettisfærslu eins og hún birtist í nýútkomnu verki Bjarka. Lagið er eftir Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoða:

 

1,606