trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/02/2017

Takk, stelpur. Svona á að gera þetta

Kvikmyndadómur – Karl Th. Birgisson skrifarFangar, Kristbjörg Kjeld

Í gærkvöldi lauk beztu sjónvarpsþáttaröð sem framleidd hefur verið á Íslandi.

Já, ég er að tala um Fanga.

Með því er ekkert tekið frá öðru frábæru efni sem við höfum séð á liðnum árum. Íslenzk sjónvarps- og kvikmyndaframleiðsla er einfaldlega orðin á heimsmælikvarða. Ég ætla ekki að nefna dæmi, því að þá gleymi ég öllum hinum. Það væri ósanngjarnt.

Í þessu tilviki ætla ég heldur ekki að nefna til sögunnar leikara, leikstjóra, handritshöfunda, tónlistarsmiði (hæ, Pétur Ben.), klippara, förðunarmeistara og alla þá sem eiga hlut að máli í svo viðamikilli framleiðslu.

Það væri líka ósanngjarnt.

Ég ætla hins vegar að nefna til sögunnar kyn. Fangar eru um konur, að mestu skrifaðir af konum, og þar voru konur í flestum aðalhlutverkum. Þetta voru þættir um kvennaheim fyrst og fremst.

Leikkonurnar voru undantekningarlaust aðdáunarverðar, sumar beinlínis afburðagóðar, og hér verður engin nefnd öðrum frekar fyrir sanngirni sakir – en sá grunur læðist að kallpúnginum að í tökunum hafi myndazt stelpustemmning. Þær voru í það minnsta sumar þannig á svipinn þegar þær voru beztar.

Þetta er bæði gott og nauðsynlegt. Við pungsvínin fáum of sjaldan að sjá hversu vel er hægt að gera sjónvarpsefni um konur með konum, án þess að af því leki rétttrúnaðarslepjan. Hvers vegna í himninum er ekki meira gert af því?

Að ég nefni ekki börnin okkar, sem þurfa að sjá og vita að heimurinn er flóknari en Bruce Willis og Mel Gibson. Eða Donald Trump.

Ég læt aðra um hin alvarlegri umfjöllunarefni – misnotkun, meðvirkni, þöggun, pólitík, fjölmiðla og fleira. Það er efni í annars konar messu.

En ég þakka konunum fyrir, sem tókst að græta mig oftar en einu sinni yfir örlögum persóna sinna, varnarleysi þeirra og sorg. Það þarf soldið til þess að kjélling eins og ég felli tár.

Og ég segi konum, af því að karlmönnum hefði aldrei tekizt að búa til þætti eins og þessa. Við erum of heimskir, útsýn okkar er of þröng, heimsmyndin of einfeldningsleg, reynsluheimurinn of takmarkaður.

Sjónvarpsþáttaröðin Fangar um strákana á Litla-Hrauni hefði orðið eins og mjög vond útgáfa af Shawshank Redemption.

Nema ef Helgi Seljan fengi að skrifa og leikstýra. Það væri stöff.

Að þessu sögðu þarf að nefna tvær manneskjur sérstaklega:

Er einhver til í að draga Sigurð Karlsson burt frá sínum annars fínu finnskuþýðingum og setja hann aftur upp á leiksvið? Hann er gersemi á pari við Arnar Jónsson.

Og var ég nokkuð búinn að nefna, að Kristbjörg Kjeld er bezta og fallegasta leikkona Íslandssögunnar?

Takk, Kristbjörg. Og þið allar hinar.

Við þurfum meira svona.

Karl Th. Birgisson

1,293