trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 02/07/2014

Svo veltir ráðherrann sér á hina hliðina

Sigurður Ingi JóhannssonAð flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar er svona ámóta áhrifarík aðgerð og að taka teskeið af vatni úr stóru keraldi og flytja yfir í litla vatnsfötu. Vatnsborðið lækkar ekki í keraldinu og hækkar ekki í fötunni. Flutningur 30-40 stöðugilda hefur hvorki merkjanleg áhrif í Hafnarfirði né á Akureyri.

En þetta hefur áhrif á persónuhagi fólks. Hitt er þó verra að aðgerðin kemur óorði á hugtakið „byggðastefna“. Það er hreint afleitt vegna þess að við höfum í fullri alvöru þörf fyrir byggðastefnu. En við þurfum þá alvöru byggðastefnu þar sem markmið eru skilgreind og aðferðafræði mótuð til lengri tíma.

Þessi ákvörðun virkar á mann eins og einhver hafi hnippt í ráðherrann og minnt á að eitthvað þyrfti  nú að gera í þessum byggðamálum. Jamm, mikið rétt, hugsar ráðherrann. Kannski við gætum flutt Fiskistofu, væri það er bara fínt? Jú, ég geri það. Og því næst veltir ráðherrann sér á hina hliðina, harla ánægður með að hafa verið svona rosalega duglegur í byggðamálum.

Það er nefnilega nokkurn veginn svona sem „byggðastefna“ hefur verið rekin á Íslandi.

Auðvitað er þetta ekki byggðastefna. Þetta er nánast hið fullkomna dæmi um stefnuleysi, ráðleysi, eða bara bull.

Fólk er neytt suður

En svona hefur þetta gengið í áratugi og alla þessa áratugi hefur fólk verið að flytjast alls staðar af landinu á suðvesturhornið. Hægt og sígandi. Þessir flutningar stafa vel að merkja ekki af því að fólk langi svo mikið að komast suður. Fólk á ekki annarra kosta völ.

En hvernig á að snúa þessari þróun við? Ef til þess er þá einhver vilji á annað borð?

Fyrir 20-30 árum var svarið: Fiskur og kvóti. Það svar getur enn haft eitthvert gildi, en ekki mikið. Við lifum á öld ljósleiðarans og fólk getur starfað ámóta náið með einhverjum sem situr hinum megin á landinu og þeim sem situr við næsta borð.

Möguleikar nútímatækni eru reyndar nýttir, en þó að afar takmörkuðu leyti og sennilega meira hjá þeim fyrirtækjum sem hafa starfstöðvar í útlöndum, heldur en raunin er innanlands. Við gætum talað um byggðastefnu ef opinberum stofnunum væri gert skylt að ráða fremur umsækjendur búsetta á landsbyggðinni að öðru jöfnu. Þannig mætti beita jákvæðri mismunun, svipað og tíðkast varðandi kynjahlutföll.

Hvar vill fólk eiga heima?

Í Speglinum í fyrrakvöld (30. júní) var ágætt viðtal við Hreiðar Þór Valtýsson brautarstjóra við HA, þar sem hann lýsir þeirri skoðun að ríkið eigi að leyfa starfsfólki að „vinna þar á landinu sem það vill búa“.  Þetta er bæði einföld og hárrétt nálgun og gæti verið ljómandi innlegg í raunverulega byggðastefnu. Ég mæli með þessu viðtali. Það er ekki langt.

Mér vitanlega hefur aldrei verið gerð svo mikið sem ein skoðanakönnun til að fá svör við þeirri spurningu hvar fólk vilji eiga heima. Slík skoðanakönnun gæti satt að segja verið ágætis upphaf að mótun byggðastefnu. Það er ekki sjálfgefið að allir vilji helst vera í Reykjavík.

En það er ekki nóg að opinberar stofnanir leyfi fólki að vinna þar sem það vill búa. Fjölmörg fyrirtæki gætu gert það líka. Meira að segja sér til hagsbóta. Mig grunar að forstjórar og stjórnir stofnana og fyrirtækja geri sér ekki grein fyrir kostum þess að ráða fremur starfsfólk á landsbyggðinni. Starfsmannavelta er t.d.mun minni og það er ekki ókeypis að þurfa hvað eftir annað að þjálfa nýtt starfsfólk.

Sé raunverulegur vilji fyrir hendi liggur beint við að veita fyrirtækjum einhvers konar ívilnanir fyrir að skapa atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Ríkið getur auðveldlega beitt skattkerfinu í þessu skyni. Og það er alveg óvíst að slíkar ívilnanir þyrftu að vera stórar í sniðum. Fyrirtæki eru fljót að taka við sér ef peningar eru í spilinu og ef starfsmaður á Kópaskeri væri 5-10% ódýrari í rekstri en starfsmaður í Reykjavík, þyrfti fljótlega að fara að byggja ný hús á Kópaskeri.

Og landsbyggðin á inneign fyrir ívilnunum. Skattfé sem innheimt er á landsbyggðinni, skilar sér ekki til baka. Því er eytt „fyrir sunnan“.

Byggðastefna þarf ekki að vera dýr

Landsbyggðin þarf vissulega innspýtingu, en sennilega ekki mjög stóra. Það sem gert er, þarf bara að duga til að stöðva núverandi þróun og snúa henni örlítið við. Þegar það hefur verið gert, kemur framhaldið nánast af sjálfu sér. Í þorpi þar sem fólki fjölgar, verður hagkvæmara að reka verslun og kaupmaðurinn verður fljótlega nógu samkeppnishæfur til að það hætti að borga sig að keyra 200 kílómetra til að kaupa í matinn. Kaupmaðurinn þarf að ráða sér starfsfólk.

Skólahúsnæði nýtist betur og það þarf að fjölga kennurum. Heilsugæsla eflist og verður hlutfallslega ódýrari um leið og fólki tekur að fjölga. Það verður líka afsakanlegra að verja peningum í jarðgöng og betri vegi og einn góðan veðurdag gæti meira að segja innanlandsflug farið að standa undir sér.

Umfram allt ættu Íslendingar þess kost að búa þar á landinu sem þeir raunverulega vilja.

Til þess að svo geti orðið vantar okkur raunverulega byggðastefnu. Hún þarf sennilega ekki að vera mjög dýr, en hana þarf að móta. Og svo þarf að fylgja henni eftir. Verði það gert, er alls ekki fjarlægt að hugsa sér, að þegar Íslendingar fara yfir hálfa milljón um eða upp úr miðri öldinni, verði ekki nema innan við helmingur þjóðarinnar á suðvesturhorninu.

Persónulega þykir mér það fýsilegur kostur. Fyrir alla.

Flokkun : Pistlar
1,305