Svíþjóð: Spennan eykst – en hvað svo?
Svíar kjósa nýtt þing á morgun, sunnudag. Bil milli fylkinga fer minnkandi og spennan eykst. En hvað gerist eftir kosningar? Það fer auðvitað eftir úrslitunum. Gallinn er bara sá að úrslitin verða ekki jafn skýr og endranær.
Hér er rétt að staldra við og benda fróðleiksfúsum lesendum á nokkuð langan pistil, sem ég skrifaði í síðustu viku. Þar skýrði ég sænska flokkakerfið í meginatriðum og fjallaði dálítið um sögu þess.
En sem sagt: Bilið milli bandalags fjögurra mið- og hægriflokka og rauðgrænu fylkingarinnar hefur minnkað talsvert og er nú komið niður í 4-6%. Þar með er ljóst að öfgaflokkurinn SD, sem spáð er um 10% fylgi, verður áfram í lykilstöðu.
Nýja framboðið Femínistafrumkvæði (Feministiskt initiativ) gæti þó mögulega breytt þessu. Þetta framboð hefur þegar lýst yfir stuðningi við rauðgrænu fylkinguna og nái flokkurinn 4%-lágmarkinu, gæti niðurstaðan orðið hreinn meirihluti, en það er þó alls ekki öruggt. Hvort Fi fær þingmenn er reyndar mjög óvíst. Heldur líklegra virðist að það gerist ekki, en kvöldið fyrir kosningadaginn er það þó einmitt þetta atriði, sem veldur hvað mestri spennu.
Tímamótin 2010
Borgaraflokkarnir fjórir fengu hreinan þingmeirihluta í kosningunum 2006 og mynduðu meirihlutastjórn. Flokkarnir fengu hins vegar ekki nema 173 þingsæti af 349 í kosningunum 2010 og vantaði þannig tvo þingmenn upp á hreinan meirihluta. Rauðgræna blokkin fékk ekki nema 156 þingsæti. Nýr öfgaflokkur, Svíþjóðardemókratar (SD) fékk 5,7% atkvæða og 20 þingsæti og komst í raun í oddaaðstöðu.
Þetta markaði merkileg tímamót í sænska stjórnmálasögu. Í fyrsta sinn fékk hvorug fylkingin hreinan meirihluta. Mið- og hægristjórn Fredriks Reinfeldt sat þó áfram, en á vissan hátt í skjóli rauðgrænu flokkanna. Þingmenn beggja fylkinga eru nefnilega hjartanlega sammála um að hleypa SD ekki til minnstu áhrifa.
Á þessari samstöðu varð þó einu sinni misbrestur. Það var þegar stjórnarflokkarnir hugðust lækka hátekjuskatt. Engir þingmenn rauðgrænu flokkanna treystu sér til sitja hjá og greiddu allir atkvæði á móti. SD-menn nýttu sér þetta, greiddu líka atkvæði á móti, felldu frumvarpið og náðu þar með að hafa áhrif.
Strategía jafnaðarmanna nú
Stefan Löfven, formaður Sósíaldemókrataflokksins, verður að líkindum forsætisráðherra eftir kosningarnar á morgun. Af framgöngu hans í kosningabaráttunni er augljóst, að hann reiknar með að Svíþjóðardemókratar haldi oddastöðu sinni, enda er SD spáð kringum 10% fylgi. Löfven sér því í hendi sér að rauðgræn minnihlutastjórn geti iðulega lent í miklum hremmingum.
Græningjarnir í sænska Umhverfisflokknum, Miljöpartiet, skilgreina sig ekki til vinstri, heldur nálægt miðju á hinum hefðbundna vinstri-hægri ás. Stefan Löfven hefur alla kosningabaráttuna tillgreint Umhverfisflokkinn sem vænlegan samstarfsflokk og gefið ádrátt um að sá flokkur fái ráðherra í nýrri stjórn. En Vinstriflokkinn virðir hann ekki viðlits.
Hugsunin að baki þessari strategíu liggur í augum uppi. Löfven mun væntanlega strax eftir kosningar reyna að kljúfa fylkingu borgaraflokkanna og sennilega ræða við formenn beggja miðjuflokkanna, Miðflokksins og Þjóðarflokksins. Með báða þesa flokka innanborðs gæti Stefan Löfven myndað meirihlutastjórn yfir miðjuna. Nái hann aðeins öðrum þeirra til fylgilags, verður stjórnin formlega minnihlutastjórn, en hefði þó hreinan meirihluta með stuðningi Vinstriflokksins, sem að vísu þyrfti að fá táknrænan framgang fyrir einhver stefnumál sín, en á í rauninni engra kosta völ.
Sænskir stjórnmálaskýrendur telja reyndar ólíklegt að miðjuflokkarnir láti freistast strax eftir kosningar. Þeir telja sennilegra að lagt verði af stað með minnihlutastjórn Sósíaldemókrata og Umhverfisflokksins með einhvers konar þegjandi samþykki miðjuflokkanna, annars eða beggja, en ríkisstjórnin verði svo stækkuð síðar, þegar a.m.k. öðrum miðjuflokknum hefur unnist hæfilegur tími til að fjarlægjast núverandi bandamenn sína.
Þetta virðist allavega vera það sem Stefan Löfven sér fyrir sér. Hvort áætlunin gengur upp er allt annað mál, en gangi hún ekki eftir, telja sænskir stjórnmálaskýrendur nýjar kosningar nánast einu lausnina. Og nýjar kosningar gætu reynst beggja handa járn. Sá flokkur sem knýr þær fram, gæti allt eins vænst þess að bíða afhroð.
Rétt er að geta þess, að nýjar kosningar hafa ekki áhrif á kjörtímabilið. Eftir sem áður verða næstu reglulegu þingkosningar haustið 2018.
Kosningakvöldið
Að lokum er rétt að benda áhugasömum á, að hægt verður að fylgast með talningunni allvíða á netinu. Þeir sem hafa aðgang að SVT1 geta auðvitað horft beint í sjónvarpi, en kosningavakan verður líka send út á netinu á slóðinni www.SVT.se. Fyrstu talna er að vænta um kl. 20:00 að íslenskum tíma. Bæði þessa útsendingu og aðrar verður svo líklegast unnt að finna t.d. á heimasíðum síðdegisblaðanna www.aftonbladet.se og www.expressen.se og væntanlega víðar.
Og mér sýnist á öllu að talningin geti orðið spennandi.
PS: Breytti tímasetningu fyrstu talna eftir ábendingu frá glöggum lesanda og kann honum bestu þakkir.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019