Sumarlesning Herðubreiðar (XIV): Satt og logið um séra Jón Finnsson – og aukreitis um Gabríel og Maríu
Eftir Stefán Jónsson
Séra Jón Finnsson var sannarlega Austfirðingur. Hann fermdi föður minn og gifti foreldra mína og skírði okkur systkinin. Sigríður Beck, konan hans, var líka Austfirðingur. […]
Þau fluttust frá Djúpavogi 1931 og í minni mér eru fáar myndir af þessum lágvaxna herðabreiða manni. Ein er þó ljós: Við stóðum mörg saman uppi á Sólhólskletti og horfðum öll til suðurs, þar sem við áttum von á að sjá flugvélar á ferð, og hafði enginn áður séð slíkt fjölmúlavél. Það var logn og háskýjað og sjálfsagt erfitt að greina litla flugvél í fjarska. Ég sá ekki flugvél. Stöku maður sá flugvél og benti og sagði: „Þarna er hún.“ Séra Jón sagðist sjá þrjár flugvélar. Einhver sagði á eftir, að hann hlyti að hafa verið fullur helvítis karlinn. En þá var séra Jón víst reyndar að skopast að því hvað hann væri óskaplega nærsýnn. Það vissi ég ekki þá.
Ef ekki kæmi nú til einmitt hér sá ásetningur minn að leiðrétta þær bábiljur í barnsminninu, sem varða nöfn góðra manna, þá myndu nú fylgja hér á eftir hinar undarlegustu kenderíissögur frá meira en fjögurra áratuga embættisferli séra Jóns Finnssonar í þremur syðstu sóknum Suður-Múlasýslu og sumar þeirra gerst í návist minni.
Ein af þessu sögum úr barnsminni mínu segir frá guðsþjónustu séra Jóns á hvítasunnudag. Hann hafði messað úti í Papey sunnudaginn á undan og orðið veðurtepptur hjá höfðingjanum Gísla Þorvarðarsyni, sem var einkavinur hans. Svo komst hann sem sagt í land rétt fyrir messutímann á hvítasunnudaginn og stóð rykaður fyrir altarinu og kom lengi vel ekki upp orði, uns loksins að hann hikstaði og mælti stundarhátt fram í kirkjuna: „Góður matur hákarl.“ Þá brast söfnuðurinn í ómótstæðilegan hlátur og að honum loknum hóf séra Jón predikunina, sem varð flestum minnisstæð, því hann talaði um ranglæti vaxtanna og sagði þá meðal annars, að hann hefði reiknað það út, að hefði fimmeyringur verið lagður í banka á dögum Jesú Krists, á lægstu vexti, þá væri hann nú orðinn að gullklumpi, sem væri þrisvar sinnum stærri en jörðin: „Og mætti segja mér að einhverjum hefði þá fundist orðið nokkuð þröngt um hagbeitina suður í Álftafirði.“
Ég á mér sennilega tilgátu um það, hvernig nærvera mín við þessa guðsþjónustu hefur orðið til. En hvað sem henni líður þá hlýtur þetta að hafa átt sér stað um svipað leyti og séra Jón Finnsson fermdi föður minn. Hafi hann einhvern tíma komið rykaður til hvítasunnumessu utan úr Papey með hákarlsbragð í munninum, þá hefur það ekki verið frá Gísla vini hans Þorvarðarsyni, því hann fluttist ekki í eyna fyrr en 1903, nokkrum árum eftir að séra Jón rak tappann í flöskuna í eitt skipti fyrir öll. Hann hafði sem sagt verið algjör bindindismaður í heilan mannsaldur, þegar hann sá flugvélarnar þrjár, og reyndar litlu skemur þegar hann skírði sóknarbarnið, höfund þessara skrifa, sem hélt sig muna fyrrgreinda fylliríismessu í Djúpavogskirkju. En ræðu mun hann einhvern tíma hafa flutt í þessum dúr um bankavexti og lagt þá út af sögunni um hinn dygga þjón. […]
Séra Jón Finnsson vígðist til Hofsstaðaprestakalls í Álftafirði árið 1890, frábærlega glaðvær maður og skemmtilegur við vín. Þannig vildi samtíðarfólkið víst muna hann, og sáust því sumir hverjir ekki fyrir í upprifjun sinni á þessum allra fyrstu prestskaparárum hans eystra meðan hann var einhleypur og sótti sér félagsskap austur á Hótel Lund á Djúpavogi.
Séra Jón þótti halda stuttar ræður. Fyrir það var hann vel þokkaður. Hann hafði orð á sér fyrir samviskusemi í gæslu kirkjulegra siða og gamalla hefða í kenningu boðskaparins. Samt var því við brugðið, hve oft hann leiddi mál sitt að sögulegum, siðferðilegum og heimspekilegum atriðum utan við og innan um kirkjulegan boðskap. Hann hélt áfram til æviloka að lesa fornbókmenntirnar og sagnfræði og þurfti þó aldrei að lesa neitt nema einu sinni. Sjálfur gaf hann þá skýringu á frábærlega traustu minni sínu, að sjóndaprir menn og meinlega nærsýnir eins og hann kæmust upp á lag með það af illri nauðsyn að muna við fyrsta lestur.
Auk alls annars var hann sagður ástríðufullur stærðfræðingur og sannast sagna ekki laust við að munnmælin um sumar predikanir hans beri keim af raunvísindalegri gagnrýni á einstök atriði guðfræðinnar, sem kannski var ekki beinlínis til þess fallin að auðvelda alþýðunni skilning á þeim. Hólmfríður amma mín sótti alltaf messu hjá séra Jóni, og ég heyrði það eftir henni að hún hugsaði oft lengi um ýmislegt í ræðunum hans. Einhvern tíma var það í skúrnum hjá Guðjóni í Hlíðinni að einhver, sem ég vil nú ekki muna hvað hét, kallaði séra Jón pokaprest, og þá sagði Guðjón að það væri stundum ekki á færi hvað bjána sem væri að skilja hann strax.
Séra Jón Finnsson naut reyndar ævilangrar virðingar sóknarbarna sinna, hvort sem þeim var það ljúft eða leitt, fyrir mannkosta sakir eða aðdáunar þeirra sem skildu það sem hann sagði, svo sem það að jafnaðarstefnan væri kristindómur í framkvæmd. Og þó hafa þeir kannski dáð hann mest og virt, sem botnuðu fjandakornið ekkert í því hvað hann var að fara, þegar hann brá fyrir sig hugsun stærðfræðilegrar heimspeki til útfærslu á slaklega orðaðri ritningargrein, en héldu þó kannski áfram að brjóta um það heilann þar til að lokum þeir skildu það reyndar ekki að heldur, en vissu bara að það var rétt.
Dæmi voru þess að einstöku trúmenn leituðu til séra Jóns eftir skýringum á stöku atriðum kenningarinnar, sem þeir áttu bágt með að samrýma vitneskjunni. Til dæmis leitaði Hjörleifur heitinn Þórarinsson í Lögbergi til hans eftir skynsamlegu svari við líffræðilegri spurningu varðandi eingetnaðinn, en Hjörleifur var bráðgreindur karl með tilhneigingu til stærðfræðilegrar hugsunar og kunni aukinheldur fingrarím. Séra Jón hafði svarað honum því til, að það væri margt í fræðunum, sem menn ættu að trúa ef þeir vildu það, og þá mikið í húfi að þau atriði væru ekki hugleidd á þann hátt, að menn sætu uppi með það að trúa því, sem þeir vissu að væri ekki annað en vitleysa. Sjálfur sagðist hann ekki hafa til að bera þá menntun, sem til þyrfti að leggja fræðilegt mat á söguna um þungun Maríu, en ráðlagði Hjörleifi, ef spurningin héldi áfram að leita á hann, að leggja málið fyrir Ólaf Thorlacius lækni á Búlandsnesi.
Ekki fylgdi það með í sögunni, hvort Ólafur læknir þakkaði séra Jóni í huganum fyrir viðfangsefnið, en Hjörleifur gamli sagði að Ólafur hefði tekið sér vingjarnlega og sagt að hvað meyfæðinguna áhrærði þá vildi hann ekki fortaka neitt, „en eitthvað var nú samt talað um það að Gabríel hefði verið að sniglast í kringum hana.“
Með þetta svar kom svo Hjörleifur sáróánægður til séra Jóns og sagði, að það væri sama viðkvæðið alls staðar hjá þeim lærðu, þeim væri ekkert heilagt, og séra Jón huggaði hann með þeirri athugasemd, að það hefði aldrei verið neitt að marka tilgátur um faðerni, hvorki hér í plássinu nú á lönguföstunni né suður í Betlehem milli jóla og nýárs.
(Úr bókinni Að breyta Fjalli, Svart á hvítu, Reykjavík 1987)
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021